Arnar Sverrisson skrifar:
„Í stríði er sannleikurinn svo dýrmætur, að ævinlega verður að sveipa hann lygum,“ sagði forsætisráðherra Breta, Winston Leonard Spencer Churchill (1874-1965).
„Herra Churchill býr yfir þeirri sérstöku gáfu að ljúga, sakleysinu uppmálaður, og brengla sannleikann, að því marki að umsnúa skelfilegustu ósigrum í dýrlega sigra,“ sagði Adolf Hitler (1889-1945) og hitti naglann á höfuðið.
”Það má einu gilda hver sannleikurinn er. Öllu máli skiptir, hvað fólk heldur sé satt og rétt.“ Svo mælti hinn þýsk-bandaríski öldungur, Heinz Alfred Kissinger (f. 1923), betur þekktur sem Henry Alfred, guðfaðir Alheimsefnahagsráðsins (World Economic Forum).
Henry hefur, ásamt Leo Strauss (1899-1973), Donald Kagan (1932-2021), Paul Dundes Wolfowitz (1943) og Zbigniew Kzimirerz Brzezinski (1928-2017), öðrum fremur lagt hugmyndafræðilegan grundvöll að heimsveldisstefnu Bandaríkjanna á þessari öld og á síðustu áratugum þeirrar fyrri.
Heimvaldastefna Bandaríkjanna
Heimvaldastefna Bandaríkjanna byggir á þeirri sannfæringu, að þau séu öðrum ríkjum fremri á öllum sviðum og njóti þess vegna þeirrar sérstöðu að mega hlutast til um stjórnarfar annarra ríkja og heyja stríð til að frelsa oss frá illu, þ.e. stjórnarfari og mannlífi, sem þeim er ekki að skapi.
Bandaríski sagnfræðingurinn, William Henry Blum (1933-2018), birti reglulega annála utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Þar má lesa, að eftir lok annarrar heimstyrjaldarinnar hafi bandarísk stjórnvöld gert sér far um að kollsteypa um 50 ríkisstjórnum. Margar þeirra voru meira að segja lýðræðislega kjörnar. Þar að auki hafa þau gert umfangsmikil inngrip í kosningar í 30 ríkjum, beitt efna- og líftæknivopnum, framið fjöldamorð, ásamt því að hafa myrt leiðtoga annarra ríkja eða gert tilraunir til þess.
Óvinur Bandaríkjamanna hefur í áranna rás tekið stakkaskiptum. Einu sinni voru það kommúnistar, síðar Múhameðstrúarmenn. En almennt dugar þeim hvert það ríki, sem stympast við yfirráðum vestrænna ríkja, situr á eftirsóknarverðum auðlindum eða býður valkost við drottnun Bandaríkjanna.
Hin fornu nýlenduveldi Evrópu lifa í svipaðri trú og hafa áþekka stefnu. Í slagtogi við Bandaríkin stofnuðu þau hernaðarbandalag, Norður-Atlantshafsbandalagið, til að umkringja (eða því sem næst) Ráðstjórnarríkin sálugu – nú Rússneska ríkjasambandið - og Kína, sem stjórnvöldum þeirra stendur stuggur af og auðjöfrar þeirra árgirnast.
Herjum ríkjanna er beitt í þágu auðhringanna
Það er ný og gömul saga. T.d. sagði hinn margverðlaunaði hershöfðingi í Bandaríkjaher, Smidley Darlington Butler (1881-1940), í bók sinni, „Stríð eru fjárglæfrar“ (War is a Racket):
„Ég hef varið 34 árum ævi minnar í herþjónustu og lungann úr þeim árum hef ég þjónað sem háttsett vöðvatröll (muscle man) fyrir viðskiptajöfrana. … Ég lagði gjörva hönd á plóg, þegar plægður var jarðvegur Haiti og Kúbu, svo bankastrákarnir í National City Bank [Rockefeller banki] gætu uppskorið.“
Drottnunin á sér stað, bæði á láði og legi. Fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Diane Rodham Clinton (f. 1947), lét hafa eftir sér um „eign“ Bandaríkjanna, Kyrrahafið:
„Við frelsuðum það, við vörðum það. […] Og [í raun] mætti endurskíra það, „Bandaríska hafið“ (American Sea), sem næði frá vesturströnd Kaliforníu og alla leið til Filippseyja [fyrrum nýlendu Spánar og Bandaríkjanna]. … Við ætlum okkur að umkringja Kína með eldflaugavörnum og staðsetja meira af flota okkar á svæðinu [Suður-Kína hafi].“
Það var einmitt áðurnefndur Zbigniew, sem skrifaði „Stóra taflborðið“ (The Grand Chessboard) m.a. um nauðsyn þess, að Bandaríkin „girtu“ Rússland og Kína af með herstöðvum og næðu hernaðarlegum yfirtökum í Evrasíu.
Þessi fyrirætlan var staðfest í raun árið 2009 af bandarískum yfirvöldum (Asia-Pacific Pivot). Áætlunin á sér einnig hljómgrunn í hernaðarbandalagi Bandaríkjanna, Nýja-Sjálands og Ástralíu (The Australia, New Zealand, United States Security Treaty - ANZUS), sem stofnað var til tveim árum, eftir stofnun Nató árið 1949. Þessi hernaðarbandalög eiga nána samvinnu.
Stjórnvöld hinna fornu nýlenduvelda svífast einskis til að tryggja hagsmuni sína, einmitt oft og tíðum undir gunnfána, frelsis, lýðræðis og mannréttinda – mannréttindaheimsveldisstefnu. Þau beita óspart áróðri, lygum og tálbeitum, til að efna til ófriðar, svo þau megi réttlæta ofbeldið. Þetta eru mýmörg dæmi um.
Þegar falsfréttir móta skipan heimsins
Fáir hafa brotið þetta háttalag betur til mergjar en breski fræðimaðurinn, A.B. Abrams, í nýjustu bók sinni: „Ódæðisfalsanir og afleiðingar þeirra: Þegar falsfréttir móta skipan heimsins“ (Atrocity Fabrications and Its Consequences: How Fake News Shapes World Order). Þetta er vönduð fræðibók, mikil að vöxtum. Heimildavinnan er traustvekjandi.
Höfundur afhjúpar, með eggbeittri nákvæmni, lygar Vesturveldanna um 9/11 árásina á Bandaríkin 2001, stríðið til að uppræta hryðjuverk (War on Terror), árásarstríð Bandaríkjanna og Nató í Afganistan 2001, Írak 2002, Líbíu 2011, Júgóslavíu 1999, Sýrlandi 2011, svo og stríð Frakka, Ástrala og Bandaríkjamanna í Vietnam 1955 og fleirþjóðahersins undir forystu Bandaríkjamanna í Kóreu 1950.
Höfundur beinir athyglinni sérstaklega að „fjöldamorðunum“ á Torgi hins himneska friðar í Bejing, sem aldrei áttu sér stað, og linnulausum áróðri Vesturveldanna gegn Kína að öðru leyti. Einkum og sér í lagi gefur hann gaum áróðurslygunum um „þjóðarmorð“ á Úígúrum (Uyghurs, Uighurs, Uigurs) í sjálfstjórnarhéraðinu Xinjian í Kína.
Aðdáandi Donald John Trump (f. 1946), Charles J. Kirk (f. 1993), er ekki síður illskeyttur í garð Kínverja en Hillary Clinton. Hann sagði t.d.:
„Við ættum að gera á þá netárásir. Við ættum að beita þá efnahagsþvingunum. Þeir verða að þjást … kæfa þá eins og Ráðstjórnarríkin.“
Flestir hafa séð í gegnum áróður Vesturlanda
En þau nýmæli hafa orðið, undur og stórmerki reyndar, að stjórnvöld víðast hvar á byggðu bóli, hafa séð í gegnum áróður Vesturlanda gegn Kínverjum, enda eru mörg þessara stjórnvalda bitin af fyrri reynslu, og fylgja því ekki Vesturveldunum, með Bretland og Bandaríkin (eins og oft áður) í broddi fylkingar.
Lygamyllur þeirra og sviðsetningar á alls konar „ódæðum Kínverja“ duga skammt að þessu sinni, enda þótt þau hafi háð beinhart upplýsinga- og áróðursstríð í áratugi. Það gengur betur í Úkraínu.
Kanadíski blaðamaðurinn, James Corbett, hefur einnig gert vandaða skoðun á tildrögum stríða á þessari og nýliðinni öld. Grandskoðun hans leiðir óhjákvæmilega til þeirrar spurningar, hvers megi vænta af stjórnvöldum, sem egna til stríða, fórna, ginna, blekkja og niðurlægja eigin þegna, eins og mýgrútur dæma sannar.
Þau eru t.d.; bandaríska stríðsfleyið Maine, sem sökkt var í höfninni í Havana; breska farþega- og vopnaflutningaskipið Lusitania, sem Þjóðverjar sökktu undan ströndum Írlands; egning Japana til árásar á Pearl Harbour (hliðstæð egningu Rússa til innrásar í Úkraínu); ásakanir Japana um fjöldamorð Kínverja í Mansjúríu og sams konar ásakanir Sameinuðu þjóðanna í Kóreu; fölsk árás Norður-Vietnama á bandarískt herskip á Tonkin flóa; falsárás Egypta í sex daga stríðinu í Ísrael; ásakanir um fjöldamorð Íraka í Persaflóastríðinu eða fyrra stríði Bandaríkjamann á hendur Írökum; ásakanir um gereyðingar- og eiturvopn (antrax) í seinna Írakstríðinu og fjöldamorð á almennum borgurum í Líbíu (Sameinuðu þjóðirnar, Nató og Alþjóðaglæpadómstóllinn).
Merkileg heimildarmynd um ofangreinda harmleiki
James Corbett gerði merkilega heimildarmynd um ofangreinda harmleiki, þegar árið 2018. Í lok myndarinnar lætur hann í ljósi þá von, að vitundarvakning, byggð á staðreyndaþekkingu, myndi aftra stjórnmálamönnum frá að hlýða kalli hergagnaiðnaðarins til að há fleiri stríð.
En James ofmetur eins og við gerum mörg, mátt þekkingar og skynsemi. Splunkuný dæmi eru veirustríðin og hið skelfilega stríð í Úkraínu. Áróður og falsanir eru endurtekið efni frá fyrri stríðum og almenningur er teymdur á asnaeyrunum, meðan hver þjóðsagan á fætur annarri um illsku Vladimir Putin (f. 1952) og tilefnisleysi innrásar Rússa er samin. Meira að segja Viagrasagan er tekin að láni úr upplýsingavopnabúri Sameinuðu þjóðanna. Einu sinni var það Muammar Gaddafi (1942-2011), sem útbjó hermenn sína með þessu nauðgunarlyfi.
Það er fátt nýtt undir sólinni í þessum efnum sem öðrum. James Perloff, sem skoðað hefur sérstaklega sögu spænsk-bandaríska stríðins árið 1898, talar um sígild einkenni stríðsundirbúnings, þ.e. tálbeitu eða egningu (false flag), bankamenn, sem fjármagna og þrýsta á um stríð, heilaþveginn almenning, sem í fjölmiðlum les sögur um ódæði „óvinarins“ og ásetning, fórnir í þágu frelsis og lýðræðis þeirra, sem órétti eru beittir. Nær ævinlega koma ódæði karla gegn konum og börnum við sögu, lygasögur og blekkingar.
Bandarísk-spænska stríðið eins konar æfing Bandaríkjamanna í hernaðaríhlutun
Bandarísk-spænska stríðið var eins konar æfing Bandaríkjamanna í hernaðaríhlutun á erlendri grundu, fyrirboði þess, er koma skyldi. Það var að sögn háð fyrir sjálfstæði Kúbverja. En í raun vildu auðjöfrarnir komast yfir sykur, „hið hvíta gull.“ Svarta gullið áttu þeir fyrir.
Það vill svo táknrænt skemmtilega til, að á sama ári og Bandríkjamenn gerðu atlögur að Spánverjum á Kúbu og síðar á Filippseyjum (um 40.000 drepin) og víðar, stofnuðu auðjöfrar í Bretlandi og Bandaríkjunum með sér Ensk-bandaríska félagið (Anglo-American League), sem varð fyrsti vísir að bresku hugveitunni Royal Institute of Foreign Affairs og systurstofnuninni í Bandaríkjunum, Council on Foreign Relations. Þessar stofnanir hafa í rúma öld beint utanríkisstefnu ríkjanna í farveg stríða og ofríkis.
Það er varla ofsögum sagt, að Bandaríkjamenn hafi, að talsverðu leyti, ráðið gangi mála í veröldinni síðustu eina og hálfa öldina, eftir að þeir eyddu samfélögum frumbyggja í landinu og náðu undir sig spænsku nýlendunum. Þegar breska heimsveldið féll að fótum þeirra og bankaauðvaldið hafði náð tangarhaldi á Winston Churchill, var björninn endanlega unninn.
Enda segir Karl Christian Rove (f. 1950) fyrrum ráðgjafi Bandaríkjaforseta:
„Við erum heimsveldi núna. Við sköpum eigin veruleika í gjörðum okkar. Og meðan þú gerir viti bornar greiningar á þessum veruleika – eins og þér þóknast – höfum við aftur hafst að, skapað nýjan veruleika, sem þér er sömuleiðis í lófa lagið að grandskoða. Og þannig gerast kaupin á eyrinni. Við erum gjörningamenn sögunnar … og þið verðið öll að láta ykkur lynda [bara] að ígrunda það, sem við gerum.“
Karl Christian getur þess þó ekki, að þessum veruleika sé miðlað af fjölmiðlum í eigu (eða undir áhrifum) sjálfra gjörningamannanna. Meira að segja forseta Bandaríkjanna, Abraham Lincoln (1809-1865), var ofboðið í þessu efni, þegar um miðbik nítjándu aldar:
„Það er ekki unnt að leggja trúnað á eitt eða neitt í dagblöðum um þessar mundir. Meira að segja sannleikurinn sjálfur verður tortryggilegur á menguðum síðum þeirra. Það eru einungis lesendur, sem búa yfir þekkingu, sem geta sér grein fyrir raunverulegu umfangi falsfréttanna.“
Og öllum er væntanlega ljóst, að enn þá og í ríkara mæli, erum vér, sakleysingjarnir, teymdir á asnaeyrunum – meira að segja af eigin stjórnmála- og embættismönnum.
Upp komast svik um síðir
Nú er t.d. réttað yfir sjálfu stríðsbandalaginu, Nató, á Ítalíu, þ.e. leyniher þess, sem framið hefur fjölmörg hryðjuverk á almennum borgurum aðildarríkjanna til að kynda undir hræðsluna við „kommúnista.“
Ítalska deildin er kölluð Gladio (gladiator eða skylmingaþræll). Hlutverk leynihersins er að stuðla að því, að þóknanleg stjórnvöld sitji við stjórnvölinn í ríkjum bandalagsins.
Nýlega lauk heræfingu Atlantshafsbandalagsins á Svartahafi. Nú er að sjá, hvort lögð verði tálbeita fyrir Rússa eða skemmdarverk skipulögð eins og á „Baltic Operation“ æfingunni á Eystrasalti.
Árásir á Rússa og ráðagerðir þess efnis eru engin nýlunda. Forsetarnir, Frank Delanor Roosevelt (1882-1945) og Harry S. Truman (1884-1972), létu búa til kjarnorkusprengju til að varpa á Ráðstjórnarríkin, skömmu eftir lok annars heimstríðs.
Hillary Clinton lét sig dreyma um árás á Rússa með rússneskum kjarnavopnum og fleiri þingmenn í Bandaríkjunum gæla við sömu hugmynd um þessar mundir. Einn þeirra hafði raunar á orði, að dráp á rússneskum hermönnum væri góð fjárfesting.
Orð breska rithöfundarins og Nóbelsverðlaunahafans, Harold Pinter (1930-2008), ættu að glæða vitund vora og skerpa athygli:
Umfang þeirrar innrætingar, sem við verðum fyrir, er „snillin ein, jafnvel spaugileg, velheppnuð múgsefjun.“ Það er engu líkara, en að sannleikurinn „hafi raunverulega aldrei verið til, jafnvel þó hann sé að eiga sér stað.“
Ábending um lesefni:
Michel Chossudovsky: Towards a World War III Scenario: The Dangers of Nuclear War og The Globalizaation of War: America‘s „Long War“ against Humanity
Tim Anderson: The Dirty War on Syria: Washington, Regime Change and Resistance.
James Perloff: Truth is a Lonely Warrior
Danile Ganser: NATO‘s Secret Armies: Operation Gladio and Terrorism in Western Europe
Heimildir má finna hér: