RÚV-málið í Namibíu

frettinInnlendarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Viðtengd frétt er endurvinnsla á RÚV-frétt sem birtist kl. 11 að kveldi í fyrradag. Fyrirsögn RÚV var sláandi:

Allt frá nóvember 2019, þegar RÚV bjó til málið í samvinnu við Heimildina (áður Stundin/Kjarninn) hét það Samherjamálið í Namibíu. En núna, sem sagt, namibíska Samherjamálið. Hér þarf að staldra við og rifja upp samhengi.

Í alræmdum Kveiksþætti í nóvember 2019 leiddi RÚV fram Jóhannes Stefánsson uppljóstrara. Hann var um miðjan síðasta áratug yfirmaður Samherja í Namibíu. Í vernduðu umhverfi RÚV, þar sem enginn efaðist um orð hans, ásakaði hann sjálfan sig, og útgerðina í leiðinni, að hafa stundað stórfellda spillingu í afríska strandríkinu. Mútugjafir til namibískra embættismanna til að komast yfir fiskveiðikvóta voru miðlægur þáttur í ásökunum Jóhannesar.

RÚV trúði Jóhannesi eins og nýju neti enda sagði hann sögu sem ríkisfjölmiðillinn vildi heyra. En þegar að var gáð reyndist uppljóstrarinn vafasöm heimild, svo vægt sé til orða tekið. RÚV böðlaðist áfram, enda stofnunin þekkt að frekju og yfirgangi, og ákærði þrjá starfsmenn Samherja. En hvorki voru þeir né eru nokkrir Íslendingar á sakabekk í Namibíu, eingöngu heimamenn.

Í Namibíu er talað um Fishrot-málið. Tilfallandi sagði í sumar frá málarekstrinum þar syðra og vitnaði í namibískan fjölmiðil:

Smellið á mynd til að lesa meira

Í fréttinni kemur fram að yfirmenn opinberrar stofnunar, Fishcor, seldu Samherja kvóta en stungu undan greiðslum sem Samherji innti af hendi. Samherji var í góðri trú, keypti kvóta af opinberri stofnun.

Namibísk lög gera ráð fyrir að Fishcor selji kvóta og noti afraksturinn í uppbyggingu innviða og þróunaraðstoðar innanlands.

Eðlilega birtist ekki namibíska umfjöllunin á RÚV. Efstaleiti birtir aðeins fréttir sem staðfesta fordóma frekjuhópsins er tekur að sér að ákæra og dæma án þess að hafa nokkuð í höndunum annað en óra ógæfumanns á kafi í áfengi og vímuefnum. RÚV er fagleg ruslahrúga sem gerir ekki hreint fyrir sínum dyrum þótt hver lygaþvælan á fætur annarri er rekin ofan í trantinn á stofnuninni. Siðferðislega og faglega dauðum fréttamönnum er smyglað út um bakdyrnar svo lítið ber á. Í von um að það fenni í sporin.

Eftirtaldir fréttamenn RÚV, sem unnu að Namibíumáli ríkisfjölmiðilsins, hafa hætt störfum síðan málið hófst fyrir fjórum árum: Aðalsteinn Kjartansson, Rakel Þorbergsdóttir, Helgi Seljan og Þóra Arnórsdóttir. Öll koma þau við sögu í framhaldinu, sem kallast byrlunar- og símastuldsmálið, og er í lögreglurannsókn.

Þeir verða fleiri á Glæpaleiti sem axla sín skinn áður en yfir lýkur.

Skildu eftir skilaboð