Geir Ágústsson skrifar:
Í Þýskalandi nasismans lét prestur nokkur, Martin Niemöller, eftir sér tilvitnun (sem sumir vilja kalla ljóð) sem er oft vísað í undir heitinu „fyrst réðust þeir að...“ og er nokkurn veginn svohljóðandi, í lauslegri þýðingu minni:
Fyrst réðust þeir að sósíalistunum, og ég sagði ekkert því ég var ekki sósíalisti.
Síðan réðust þeir að verkalýðshreyfingunni, og ég sagði ekkert því ég var ekki í verkalýðsfélagi.
Síðan réðust þeir að Gyðingunum, og ég sagði ekkert ég var ekki Gyðingur.
Síðan réðust þeir að mér og þá var enginn eftir til að tala mínu máli.
Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að heimfæra þessa tilvitnun á nútímann. Ríkisvaldið er ekki að fleygja fólki í fangelsi og útrýmingarbúðir en í staðinn eru komin önnur meðöl, svo sem að hleypa ekki fólki og sjónarmiðum að, flæma fólk úr starfi og uppnefna það, flokka skoðanir sem upplýsingaóreiðu og falsfréttir, og svo eru það auðvitað vísindin sem hið opinbera hefur spillt með styrkjakerfum og pólitískum þrýstingi.
Um daginn birtist sakleysisleg grein á Vísi undir fyrirsögninni „Grannt fylgst með Slóvakíu og upplýsingaóreiðu“. Um hana fjallar Arnar Þór Jónsson í nýrri grein á Krossgötum og bendir á margt sem fréttin felur í sér. Mér datt í hug tilvitnun Nielmöller. Á veirutímum var reynt að þagga niður í gagnrýni á sprautur sem var frá upphafi á rökum reist, og hið sama má segja um gagnrýni á sóttvarnaraðgerðirnar í sjálfu sér sem nothæf leið til að lágmarka skaða af veiru. Þeir sem hömuðust hvað mest að reyna koma þeirri gagnrýni áleiðis (í greinum, á samfélagsmiðlum, í viðtölum þegar þau voru í boði) hafa ekki ennþá fengið aðgang að stóra sviðinu (viðtöl í Kastljósi, á Sprengisandi, í Morgunblaðinu og víðar).
Gott og vel, það á enginn heimtingu á slíkum viðtölum, en að þau hafi ekki staðið til boða segir miklu meira um fjölmiðlana en það sem þar er boðað. Ennþá er sóttvarnarlæknir beðinn um álit sitt. Landlæknir situr ennþá í rólegheitum á sínum stól.
Á meðan sitja þeir sem sködduðust af sprautunum heima hjá sér, bótalausir og raddlausir. Þú segir ekkert, því þú slappst við alvarlegar afleiðingar.
Þeir sem skoluðust út úr skólakerfinu á veirutímum er heldur ekki boðið að segja sína hlið. Þú segir ekkert því þú gast stundað fjarvinnu í náttbuxunum frá sófanum þínum.
Þeir sem þróuðu með sér alvarlega andlega örðugleika (einmanaleika, fíkn, vonleysi) eru raddlausir. Þú segir ekkert því þú sást ekki eina krónu í launaskerðingu og náðir að byggja nýjan pall fyrir fé sem hefði annars farið í þrjár utanlandsferðir.
Þeir sem í dag sjá fram á að geta ekki lengur rekið bíl vegna allra grænu skattanna fá aldrei hljóðnemann. Þú segir ekkert því þú elskar rándýra rafmagnsbílinn þinn og hlakkar í raun til að losna við alla fátæklingana af götunni.
Þeir sem heyra skelfingu lostnir að litlu dætur þeirra hefðu baðað sig við hliðina á kafloðnum karlmannslíkama í hverfislauginni fá engan vettvang til að tjá sig. Þú segir ekkert enda með uppkomin börn eða býrð utan við sveitarfélagið Reykjavík þar sem innrásin í einkarými kvenna er svo að segja að fullu komin í framkvæmd.
En vittu til. Dag einn kemur að þér, sama hvað þú rembist eins og rjúpan við staurinn að eltast við allar nýjustu dellurnar. Dag einn muntu þurfa gagnrýnið aðhald á stjórnvöld og talsmenn rétttrúnaðarins en komast að því að enginn er eftir til að tala máli þínu.
Og hvað ætlar þú að gera þá?