Fjölmargir foreldrar kæra kynfræðslubók barna til Héraðssaksóknara

frettinInnlendarLeave a Comment

Arnar Þór Jónsson lögmaður, greinir frá því að Í dag að fjölmargir foreldrar grunnskólabarna, hafi lagt fram kæru til embættis Héraðssaksóknara vegna svonefnds kynfræðslurits Menntamálastofnunar (Kyn, kynlíf og allt hitt, útg. Menntamálastofnun 2023), sem kynnt hefur verið sem námsefni fyrir yngstu skólabörn landsins.

„Kærendur telja ritið vera ögrun við þær skyldur sem skólayfirvöld bera gagnvart börnum og foreldrum þeirra, enda gangi efni ritsins í bága við þær siðferðilegu, menningarlegu og lagalegu stoðir sem íslensk stjórnskipun og íslensk siðmenning hvílir á,“ skrifar Arnar.

Mörgum foreldrum hefur verið verulega misboðið og reiði skapast í samfélaginu vegna bókarinnar sem þykir fara yfir öll velsæmismörk og vera klámfengin og óboðleg ungum börnum, kæruna í heild má sjá hér neðar:

Efni: Lögreglu- og barnaverndarmál. Kæra.

Til undirritaðs lögmanns hafa leitað [NN], sem öll  eiga það sameiginlegt að vera foreldrar barna í grunnskólum, þar sem svonefnt kynfræðslurit Menntamálastofnunar, bókin „Kyn, kynlíf og allt hitt“ (Menntamálastofnun 2023), hefur verið kynnt sem námsefni fyrir yngstu skólabörn landsins.

Í kjölfar þess að uppvíst varð um efni og innihald framangreinds rits má segja að hrikt hafi í lagalegum og siðrænum undirstöðum íslensks samfélags og hins miðstýrða skólakerfis. Umbjóðendur mínir eru meðal þeirra fjölmörgu foreldra sem misbýður sú fyrirætlan að umrætt rit sé lagt fyrir ung börn þeirra sem ekki hafa þroska til að sjá eða heyra það sem þar er borið fram. Þessa afstöðu umbj.m. ber að skoða í ljósi efnis og innihalds títtnefnds rits, en að áliti þeirra má telja ótvírætt að það hafi að geyma bæði myndir og texta sem ekkert erindi eiga við grunnskólabörn og allra síst þau yngstu. Því má að gættum gildandi barnaverndarákvæðum o.fl. lagareglum jafnvel halda því fram að umrætt innihald sé undirorpið fortakslausu og algeru birtingar- og dreifingarbanni, sbr. nánar hér á eftir.

Umbjóðendur mínir telja það til sinna helgustu réttinda sem foreldra að ákvarða hvenær og með hvaða hætti börn þeirra fái fræðslu um viðkvæm málefni. Hafandi kynnt sér efni, innihald og framsetningu fyrrgreinds rits telja þau að þar sé að finna myndefni og texta sem ekki eigi erindi við ung börn þeirra og sé til þess fallið að framkalla skömmustukennd og þarflausan hugmyndarugling. Umbjóðendur mínir virða gildi almennrar menntunar og telja að umræða um sjálfsmynd, sjálfsvitund, kynlíf o.fl. megi eiga sinn sess á þeim vettvangi, en telja varasamt að börn á viðkvæmu mótunarskeiði fyrir hugmyndum sem teljast bæði tilfinningalega og vitsmunalega mjög margslungin. Umbjóðendur mínir telja að sem foreldrar gegni þau frumleiðsagnarhlutverki gagnvart börnum sínum í þessum efnum, a.m.k. þar til börnin hafa náð þeim aldri og þroska að þau geti betur skilið margbreytileika þeirra viðfangsefna sem hér um ræðir.

Með tilvitnuðu innihaldi þessa svonefnda kennslu- eða kynfræðslurits er hér um ræðir birtist bæði klámfenginn og þannig ögrandi og óviðurkvæmilegur og bersýnilega blygðunarkenndarsærandi texti, svo og teikningar eða myndefni á sambærilegu alvarleikastigi; nánar greint texti og myndefni sem fjallar um svo og sýna börn í kynferðislegum athöfnum, sbr. skjámyndir úr bókinni sem fylgja með erindi þessu og brjóta að mati umbj.m. gegn þeim lagaákvæðum sem til er vísað hér á eftir.

Áður en lengra er haldið, skal það skýrlega áréttað að hér er engan veginn verið að viðhafa einhvers konar hatursorðræðu gegn tilteknum félögum, samtökum eða einstaklingum í samfélaginu. Þvert á móti er aðeins verið að leitast við að tryggja hér sjálfsagða og virka barnavernd, það er tiltekna lágmarksvernd og líkamlega og andlega velferð og öryggi barna fyrir efni sem augljóslega má ætla þeim mjög svo skaðlegt og íþyngjandi, eins og glögglega kemur raunar fram af erindinu hér og samhengi þess við gildandi lög og barnaverndarsjónarmið.

Umbjóðendur mínir telja það á alvarlegum misskilningi byggt að forvörn gegn kynferðislegri misnotkun felist í því að lýsa kynferðislegum athöfnum í smáatriðum fyrir börnum sem ekki hafa náð kynþroskaaldri. Þvert á móti telja umbj.m. að með því að sýna börnum kynferðislegar og / eða klámfengnar myndir áður en þau hafa þroska til að skilja samhengi þess sem hér um ræðir marki óafmáanleg spor í hugsun þeirra og lækki varnarþröskuld þeirra gagnvart hvers kyns kynferðislegri áreitni, áleitni og misnotkun. Grafískar lýsingar á kynferðislegum athöfnum eiga ekki erindi til ungra barna og flokkast ekki undir ábyrga kynfræðslu. Að mati umbj.m. er það heldur ekki ábyrg kynfræðsla að hvetja börn til kynferðislegra hugsana, kynferðislegra athafna (með sjálfum sér eða öðrum) eða að líkja kynlífi við leik eða ferð í tívolí. Slík skilaboð geta falið í sér hvatningu til óábyrgrar og ótímabærrar hegðunar. Myndefni í tilvísuðu riti sýnir börn á kynferðislegan hátt og texti ritsins hvetur börn til kynferðislegrar háttsemi. Í heild telja þau að ritið brjóti gegn blygðunarsemi og barnaverndarsjónarmiðum.

Eins og kunnugt má vera hefur börnum löngum og eðlilega verið veitt aukin og sérstök vernd samkvæmt stjórnarskrá, barnaverndarlögum og alþjóðlegum sáttmálum þar að lútandi enda um að ræða sérlega viðkvæman þjóðfélagshóp og þannig mikilvæga hagsmuni. Af þessari sérstöku verndaráherslu laga leiðir og að sjálfsögðu að opinberum stofnunum samfélagsins ber skýlaus skylda til að virða hana í hvívetna í stjórnsýslu allri og lagaframkvæmd og skipa hagsmunum og réttindum barna skör ofar; með öðrum orðum tryggja að hagsmunir barnanna séu í fyrirrúmi og að það sem börnum er fyrir bestu skuli ávallt haft í forgangi. Af hálfu stjórnvalda sem hafa með málefni barna öðrum fremur á sínu valdsviði, þá ekki síst menntamálastofnana landsins og grunnskólanna sjálfra, þá mega ákvarðanir þeirra og athafnir í fyrsta lagi ekki ganga í berhögg við gildandi lög og reglur viðvíkjandi barnavernd. Á þetta eins og að líkum lætur alveg sérstaklega við ef lög lýsa tiltekið framferði gagnvart barni refsivert.

Í ljósi þess sem að framan greinir er hér næst til þess að líta að samkvæmt 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er það m.a. lýst refsivert að framleiða eða flytja inn, aflar sér eða öðrum, dreifa eða hafa í vörslum sínum myndefni sem sýnir kynferðislega misnotkun á barni eða sýnir barn á kynferðislegan hátt og geta viðurlög orðið fangelsi allt að 6 árum. Í 209. gr. tilvitnaðra laga er svo tekið fram að hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum.

Strax í 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 kemur svo skýrlega fram m.a. að börn eiga rétt á vernd og umönnun. Þau skulu njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska.
Allir sem hafa uppeldi og umönnun barna með höndum skulu sýna þeim virðingu og umhyggju og óheimilt er með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Ber m.a. ávallt að sýna börnum umhyggju og nærfærni. Í 4. gr. sömu laga eru síðan tilgreindar meginreglur viðvíkjandi barnaverndarstarfi og er rauði þráðurinn þar sérstök vernd og virðing barna og hagsmuna þeirra sem sérlega líkamlega og andlega viðkvæms samfélagshóps. Í 16. gr. og 17. gr. eru síðan ákvæði og reglur um m.a. tilkynningaskyldur þeirra sem starfa á vettvangi barna eða geta haft aðkomu þar að vegna vinnu sinnar, til að mynda starfslið grunnskóla eða aðrir þeir er starfa sinna vegna hafa aðkomu eins og ráðgjöf eða þjónustu viðvíkjandi þjónustu barna. Þessi tilkynningarskylda gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu samkvæmt niðurlagsákvæði 17. gr. barnaverndarlaga. Þá eru í XVIII. kafla barnaverndarlaga sérstaklega tilgreind refsiákvæði viðvíkjandi brotum gegn börnum, þar á meðal tilkynningarskyldu o.fl. Þannig segir í 99. gr. síðastnefndra laga lögð refsing við því að börnum sé sýnd vanvirðandi háttsemi, þau hvött til hegðunar sem stefnir heilsu þeirra, lífi eða þroska í alvarlega hættu, auk þess sem refsivert er að sýna barni ósiðlegt athæfi, særa það eða móðga.

Í lögum um Menntamálastofnun nr. 91/2015 eru sömuleiðis ríkar verndarskyldur lagðar á forstjóra og starfsmenn þar með tilliti til m.a. barna, sbr. til að mynda 1. gr. þeirra laga og þar greindar tilvísanir. Einnig verður ekki litið undan ábyrgðarhlutverki fræðslu- og skólasviði sveitarfélag í þessu tilliti. Í samhengi við framangreinda löggjöf og refsiheimildir er og til að líta refsiákvæða XIV. hegningarlaga varðandi brot í opinberu starfi sérstaklega. Öllu framangreindu til skýringar og fyllingar er jafnframt vísað til 2. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, þar sem fram kemur m.a. að grunnskóli skuli stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda, sbr. einnig ákvæði 13. gr. sömu laga þar sem fram kemur m.a. að nemendur eigi rétt á því að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans. Öll framangreind lagaákvæði marka ramma utan um það svigrúm sem skólar hafa „til að skipuleggja hvernig staðið er að kennslunni“, sbr. 5. gr. grunnskólalaga sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur reynt að nota til varnar þeirri kennslu sem hér um ræðir. Almenn tilvísun ráðuneytisins til barnasáttmála SÞ um rétt barna til menntunar takmarkast af ákvæðum 14. gr. sáttmálans.

Að mati umbj.m. má telja veruleg líkindi fyrir því að texti og myndefni títtnefnds „fræðslurits“ sem gefið var út á vegum Menntamálastofnunar og hefur jafnframt verið tekið til notkunar í vissum grunnskólum landsins brjóti gróflega gegn gildandi barnaverndarlöggjöf landsins, þar með talið fyrrgreindum refsiákvæðum almennra hegningarlaga. Ábyrgð þeirra sem stóðu að útgáfu þessari má í þessu ljósi teljast mjög afgerandi að gættum framanröktum lagaákvæðum og sjónarmiðum. Nú þegar munu hafa verið lagðar fram kærur eða tilkynningar til m.a. lögreglu vegna þessa og ljóst að miklar líkur eru á að slíkum erindum muni fara fjölgandi. Má hér um leið vísa til nýlegs fréttaflutnings af kynferðislegri árás á sex ára stúlku af hálfu þriggja eldri samnemenda hennar í tilteknum skóla í Kópavogi, sem óhjákvæmilega vekur upp spurningar um hvort samhengi sé á milli fyrrgreinds texta- og myndefnis og þeirrar árásar sem stúlkan varð fyrir, þá einnig að því gættu að búið er að auki að festa áþekkt texta- og myndefni upp á veggi í tilteknum grunnskólum landsins samkvæmt því sem best er vitað.

Ábyrgðarstöðu forstjóra stofnunar menntamála sem og stjórnenda innan grunnskóla má telja í fyrsta þrepi í þessu sambandi og ættu þeir skyldum sínum samkvæmt að sjálfsögðu að sameinast um að viðurkenna þá alvarlegu og ógeðfelldu stöðu sem m.a. þau hafa sett yngstu grunnskólabörn landsins í og tryggja að umrætt rit verði tafarlaust tekið úr umferð og ekki borið fram að nýju nema þá í formi sem telja má boðlegt og birtingarhæft. Í því samhengi vísast til þess að íslenskt samfélag grundvallast á því að til sé siðferðilegur rammi sem ekki megi brjóta án þess að vegið sé að allsherjarreglu, friði, siðrænum og lagalegum undirstöðum, sbr. m.a. ákvæði 63. gr. stjórnarskrár lýðveldisins. Með þessari áherslu er því þó ekki endilega haldið fram að fyrrgreind innihalds- og efnisbirting „ritsins“ og þar að lútandi fyrirætlanir verði án lagalegra eftirmála fyrir hlutaðeigandi ábyrgðarmenn. Menntamálayfirvöld bera sérstaka ábyrgð í þessu sambandi og hafa hvorki umboð né vald til að víkja af braut þeirrar stjórnskipulegu, lagalegu og siðferðilegu stefnumörkunar sem skýrlega hefur verið mótuð í sögulegu, menningarlegu, siðfræðilegu og lagalegu samhengi. Umbj.m. leggja áherslu á að að tilgreint myndefni og texti komi alls ekki fyrir sjónir barna enda megi það heita skaðvænlegt fyrir þau í margvíslegu tilliti. Í samhengi stjórnarskrárinnar má vísa hér nánar til ákvæða 71. gr. um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og lokamálsgreinar 76. gr. stjskr. þess efnis að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Athafnaleysisábyrgð yfirvalda, sérstaklega lögreglu og barnaverndaryfirvalda, hlýtur einnig að koma hér til skoðunar, sérstaklega ef látið verður dragast að bregðast formlega við erindi þessu með viðeigandi hætti, enda bera yfirvöld hér ákveðna viðbragðsskyldu. Af hálfu umbj.m. er í síðastnefndu samhengi vísað til 140. gr., 141. gr., sbr. og 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til alls framanritaðs og meðfylgjandi blaðsíðna úr títtnefndu riti er af hálfu umbj.m. farið fram á að embætti héraðssaksóknara taki málefni þetta til rannsóknar í samræmi við lögbundið hlutverk sitt, en þar sem telja má að hér sé um að ræða brotasamsteypu á rannsókn þessa máls betur heima í höndum héraðssaksóknara en lögreglustjóra. Umbj.m. telja að það sem hér sé á ferðinni sé ekki fræðsla heldur framleiðsla og dreifing á klámefni, sem brjóti gegn blygðunarsemi og að um sé að ræða atriði sem fari skýrlega í bága við fyrrgreind lagaákvæði og meginreglur íslenskra laga. Af hálfu umbj.m. er áskilinn allur réttur til að bæta við ítarlegri tilvísunum og rökstuðningi á síðari stigum.

Í ljósi alvarleika málsins er þess krafist, f.h. umbj.m., að héraðssaksóknari taki kæru þessa til tafarlausrar meðferðar og rannsóknar eftir farvegi laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, boði hlutaðeigandi ábyrgðaraðila til skýrslutöku, haldleggi umrætt „námsefni“, þ.m.t. veggspjöld o.fl., þannig að séð verði til þess að grunnskólar landsins verði ekki vettvangur dreifingar slíks efnis sem skaðlegt má telja ungum börnum. Nánar tiltekið er yfirvöldum bent á eftirtalda skóla þar sem vitað er að umrætt efni hefur verið haft í frammi gagnvart börnum umbjóðenda minna: [NN].

Virðingarfyllst,

f.h. umbj.m.,

Arnar Þór Jónsson lögmaður.

Skildu eftir skilaboð