Karlar og konur – vísindi og vúdú

frettinPáll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Í vísindalegum skilningi er maðurinn kjöthlunkur með meðvitund. Þyngd skrokksins er oft á bilinu 60 til 100 kg. Meðvitundina er ekki hægt að mæla, aðeins hvort það sé kveikt eða slökkt á henni.

Fæstir tala um manninn á ofangreindan hátt. Það er ómennskt, líkt og maðurinn væri ekkert annað en skrokkur á færibandi sem gerir kjöt hæft til neyslu.

Frá örófi alda kemur maðurinn sér upp trúarsetningum um að hann sé sérstakur, eigi eilíft líf. Það er huggulegra á göngunni um táradal jarðvistarinnar að njóta þeirrar fullvissu að meðvitundin, ég-ið í manninum, fái vísan samastað í eilífðinni.

Vísindin hafa, á síðustu 150 árum eða svo, kippt stoðunum undan eilífðartrúnni. Vísindin, er okkur sagt, útskýra raunveruleikann. Í þeim veruleika er ekkert rými fyrir eilífðina. Ekki einu sinni er sólkerfið okkar eilífðarvél. Það varð til í miklahvelli og mun farast í svartholi.

Sumar staðreyndir mennskunnar glötuðust á vegferð mannsins frá trúarheimi til vísinda. Forsætisráðherrann í landi Newton, þess sem útskýrði gang himintungla með þyngdarlögmálinu, varð að nota dýrmætan tíma í ræðu, sem sker úr um pólitíska framtíð hans, til að segja þetta:

Karl­maður er karl­maður og kona er kona. Þetta er bara heil­brigð skyn­semi

Einkenni heilbrigðrar skynsemi er að hana á ekki að þurfa að segja upphátt. Heilbrigðið felst í að allar skynsamar mannverur vita hvers kyns er. Ekki lengur.

Á dögum Newton sáu karlmenn um vísindi, sem voru nördaiðja. Ármenn vísinda juku skilning og efldu hagsæld. Nýjar vísindagreinar hrærðu aftur saman draumórum og fræðum og settu sér önnur markmið en skilning og farsæld. Lofuðu öllu fögru en leiddu af sér efnislega og andlega örbirgð. í stað þess að skilja heiminn var verkefnið að breyta henni veröld.

Stórbrotnar samfélagstilraunir 1917-1991, kenndar við sósíalisma, skiluðu eymd og volæði. Vinstrimenn snéru sér þá að tilraun til að breyta manninum, aðskilja hann frá heilbrigðri skynsemi. Háskólar tóku að kenna vúdú hugmyndir um að maðurinn gæti verið allt sem hann ímyndaði sér. Ímyndun kom í stað eilífðarinnar fyrrum. Snjall leikur þar sem ímyndun og eilífð eiga það sameignlegt að vera án takmarkana.

Vúdú-ið er tveggja stofna. Í fyrsta lagi algild mannréttindi, ég á mig sjálfur og má gera það sem ég vil. Í öðru lagi það innsæi, ættað frá franska heimspekingnum Descartes, að hver meðvitund er heimur út af fyrir sig. Cogito ergo sum. Ég hugsa, ég er. Stofnarnir eru hvor um sig gildir og góðir, að gefnum hlutlægum veruleika utan vitundarinnar. En sá hluti jöfnunnar er terroriseraður í burtu. Það eru aðeins réttindi og ímyndun, enginn hlutveruleiki. Eftirfarandi gildir:

Mín mannréttindi og mín ímyndun gefa mér fulla heimild að skilgreina sjálfan mig sem tannbursta, bókahillu eða páfagauk. Ég þarf ekki að vísa í hlutlægan veruleika, aðeins mína hugsun sem stendur ofar efnisveruleikanum. Skothelt. Enginn skal efast um sjálfsvitund mína og spyrja hvort í henni búi minnsti vottur heilbrigðrar skynsemi. Það væri hatursorðræða og mannréttindabrot. 

Vúdú-ið breytir heiminum eins og við þekkjum hann. Samsuðan brýtur undir sig almannaróm, breytir tungumálinu og í framhaldi hugsuninni. Kvennafrídagurinn eftir tvær vikur er kynntur sem kvenna- og kvárdagur. Kvár mun vísa í mann sem segist hvorugkyn, líklega þá án kynama. Fyrir vúdú var viðkomandi karl eða kona. Þegar heilbrigð skynsemi hverfur yfirtaka öfgarnar mannlífið. Vitanlega í nafni mannréttinda.

Skildu eftir skilaboð