Samtök loftslagsaðgerðasinna flokkuð sem „glæpasamtök“ af þýskum dómstól

frettinErlent, Gústaf Skúlason, LoftslagsmálLeave a Comment

Gústaf Skúlason skrifar:

Þýski loftslagshamfarahópurinn Síðasta kynslóðin, „Die Letzte Generation” – DLG, hefur verið skilgreindur sem glæpasamtök af svæðisdómstóli í München, samkvæmt yfirlýsingu sem dómstóllinn gaf út í síðustu viku.

Ákvörðunin um að skilgreina aðgerðasinnahópinn DLG sem glæpasamtök kom þrátt fyrir fleiri kvartanir og andmæli meðlima hópsins vegna húsleitana og halds á gögnum. Dómurinn vísaði kærunum frá með þeim rökum, að hópurinn uppfylli skilyrði til að flokkast sem skipulögð glæpasamtök, þrátt fyrir að glæpastarfsemi þurfi ekki endilega að vera eini tilgangur hópsins. Aðgerðir hópsins til dæmis að skapa umferðartruflanir og vinna eignaspjöll eru að mati dómsins talin veruleg ógn við öryggi og reglu almennings. Loftslagsaðgerðarsinnar hafa haft í frammi slíkar athafnir í mörg skipti bæði í Þýskalandi sem og öðrum löndum.

„Siðferðislegir yfirburðir”

Dómstóllinn lagði áherslu á að þjóðfélagsumræðunni sé ýtt til hliðar á ólögmætan hátt, þegar hópurinn upphefur sjálfan sig með hugsanlegum siðferðislegum yfirburðum „yfir réttarríkið og lýðræðisleg vinnubrögð.“ Dómstóllinn lagði enn fremur áherslu á, að:

„Refsivert athæfi er ekki leið frjálsrar, lýðræðislegrar umræðu innan réttarríkisins, heldur tjáning glæpsamlegrar orku og ber sem slíkri að fá dóm á lögfræðilegum forsendum.”

Dómurinn var kveðinn upp í tengslum við forrannsókn saksóknaraembættis í München á fjölda meðlima heimsendahópsins. Meðal annars voru meðlimir hópsins sakaðir um að hafa stofnað glæpasamtök eins og dómurinn hefur núna staðfest.


Síðasta kynslóðin

Samtökin voru stofnuð árið 2021 sem hluti af „Hungurverkfalli síðastu kynslóðarinnar.“ Það var mótmælaaðgerð til að kalla eftir „opinberri umræðu um neyðarástand í loftslagsmálum“ við þáverandi frambjóðendur Þýskalands til kanslaraembættisins. Hópurinn hefur stækkað síðan, aðallega í Þýskalandi, Austurríki og Ítalíu.

Heimsendasinnarnir hafa ítrekað lokað nauðsynlegum vegum og flugvöllum, truflað starfsemi í jarðefnaeldsneytisiðnaðinum og gert árásir á söfn og eyðilagt heimsfræg listaverk til að vekja athygli á loftslagsbreytingum, svo nokkur dæmi séu tekin. Árásir á listaverk eftir listamenn eins og van Gogh og Monet hefur fengið umfjöllun fjölmiðla.

Skildu eftir skilaboð