Viðtal við Geert Wilders eftir kosningasigur hans í Hollandi

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir, StjórnmálLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Geert Wilders vann stórsigur í hollensku kosningunum til fulltrúadeildar þingsins hinn 22. nóvember síðastliðinn er flokkur hans, Frelsisflokkurinn bætti við sig 20 þingmönnum - fór úr 17 í 37 en ekki hefur farið mikið fyrir um umfjöllun um hann eða hvaða þýðingu þessi mikla fylgisaukning hefur. Eitt viðtal má þó finna á netinu, stutt viðtal er Ezra Levant hjá hinu kanadíska Rebel News tók við hann.

Niðurstöðurnar komu á óvart, segir hann. Hann hafi vonast eftir 25 þingmönnum. Wilders segist vonast til að geta myndað 4 flokka stjórn með VVD, flokki fráfarandi forsætisráðherra er missti 10 þingsæti; Bændaflokknum, sem fór úr einum þingmanni í 7 og með hinum nýja flokki Pieter Omzig, NSC sem fékk 20 menn kjörna en viðurkennir að ekkert sé þar fast í hendi og að hann muni þurfa að gera málamiðlanir til að verða samþykktur sem forsætisráðherra.

Hann er spurður hvaða mál hann setji í forgang og nefnir fyrst að fækka þurfi hælisleitendum. EU standi sig ekki í stykkinu í landamæragæslunni, það sé of mikið af fólki í Hollandi og fólk hafi fengið nóg. Einnig segir hann að innfæddum finnist vera valtað yfir sig. Stjórnvöld eyði 60-70 milljörðum evra á ári í græna skatta og annan óþarfa en almenningur eigi í vandræðum með að greiða fyrir nauðsynjar, leigu og eldsneyti. Það eigi að hætta að kasta peningum í þessa hugmyndafræðivitleysu vinstri manna og nota peningana betur - ekki senda þá til Afríku eða til ESB eða í grænu hítina. Hann vill lægri skatta og viðráðanlegri byrðar almennings.

Hann segir að fólk í mörgum löndum sé búið að fá nóg af valdníðslu elítunnar og sér fyrir sér að þjóðhollar hreyfingar vakni víða til lífsins. Menn séu ekki lengur að leyna því að hafa kosið sig. Ásakanir elítunnar um rasisma virki ekki lengur. Innfæddir sjái að hælisleitendur fái meiri fyrirgreiðslu en þeir og það veki reiði. Menn eigi ekki að vera hræddir við að stofna nýja flokka. Íhaldsmennirnir haldi landamærunum opnum af ótta við að missa atkvæði en jafnvel múslimar hafi kosið sig. Innflytjendur sjái að þrengt verði að sér með óheftu streymi fólks, húsnæði verði dýrara, erfiðara verði að fá vinnu, laun lækki - allt verði erfiðara.

Í lok viðtalsins er hann spurður um Úkraínustríðið og segir það Rússum að kenna, jafnvel þótt Úkraína sé spillt. Hann segir þó að Holland hafi ekki meira af vopnum til að gefa og nauðsynlegt sé að ganga til samninga. Um Gazastríðið segir hann að það sé ekki barátta um land. Sharon hafi gefið þeim land. Það snúist um hugmyndafræði; fólk sem elskar dauðann gegn fólki sem vilji lifa. Ísrael sé lýðræðisríki, falli það þá sé Evrópa næst. Hann lýsir áhyggjum sínum af nýrri haturslöggjöf sem víða sé ýtt fram - til skoðanakúgunar almennings. Hann vill tjáningarfrelsi og segir að þar séu óháðir miðlar, eins og Rebel News afar mikilvægir.

Ungir Evrópubúar vilja leiðtoga eins og Wilders

Margir munu enn vera í afneitun á þeim möguleika að Geert Wilders geti orðið forsætisráðherra, ekki síst Brusselhirðin því hann hefur kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um að yfirgefa ESB. Einnig vill hann að Holland segi sig frá öllum loftslagssamningum; moskum verði lokað og Kóraninn bannaður auk þess að hætta stuðningi við Úkraínu, eins og hann minntist á í viðtalinu. Gera má ráð fyrir að stjórnarmyndunin geti tekið mánuði og ef Geert mistekst þá lendir boltinn trúlega hjá Frans Timmerman.

Geert er trúlega þekktastur fyrir óbeit sína á íslam. Árið 2008 gerði hann stuttmyndina Fitna til að sýna að íslam væri hreint ekki friðsamlegt fyrirbæri. Nú þarf hann fjölda lögreglumanna með sér hvert sem hann fer enda með fimm íslamska dauðadóma (fatwas) yfir höfði sér, eða svo segir hann í viðtalinu.

Stuðningur ungs fólks við "hægri öfgaflokka" er að aukast í Evrópu samkvæmt Guardian, einkum sakir draumsins um það sem á Hollensku heitir bestaanszekerheid. Menn vilja nægar og öruggar tekjur, viðunandi húsnæði, gott aðgengi að menntun og heilsugæslu og einnig vilja menn geta mætt óvæntum útgjöldum. Þessi tilhneiging virðist sterkust í löndum eins og Austurríki, Þýskalandi, Niðurlöndum, Svíþjóð og Danmörku segir í grein Guardian.

Skildu eftir skilaboð