Geir Ágústsson skrifar:
Á veirutímum vöknuðu margir upp við vondan draum. Svokallað stjórnarskrárbundið lýðræði, þar sem réttindi fólks eru skráð í stjórnarskrá sem um leið takmarkar völd hins opinbera, reyndist vera sviðsetning. Það kom í ljós að í raun geta yfirvöld gert það sem þeim sýnist að því gefnu að þeim takist að sannfæra meirihluta almennings um ágæti yfirgangsins. Stjórnarskráin reyndist ekki duga sem vörn af neinu tagi ef almenningur stóð ekki fastur á ákvæðum hennar.
Þetta er hin nýja tegund löggjafar.
Allt má réttlæta í nafni neyðarástands og undir þér komið að sanna sakleysi þitt frekar en að það sé ákæruvaldsins að sanna sekt.
Í mjög áhugaverðri hugleiðingu Russel Brand á YouTube, tekur hann fyrir frumvarp til laga í írska löggjafarþinginu þar sem á að færa lögreglunni töluvert mikil völd til að taka á því sem er kallað hatursumræða og hvatning til ofbeldis á samfélagsmiðlum. Lögreglan fær aðgang að skilaboðaþjónustum af ýmsu tagi og má hnýsast í það hvaða efni þú ert með á tölvunni þinni og ákæra þig eins og þú sért að fara dreifa því til að boða hatur og ofbeldi. Já, lögreglan má ganga út frá því að ef þú ert með ákveðið efni í fórum þínum þá munir þú ætla að dreifa því til að ala á hatri og hvetja til ofbeldis.
Hvaða efni er það svo sem er talið svona hættulegt? Lögreglan sker úr um það!
Til að bæta gráu ofan á svart þá verður hvergi í þessari löggjöf skilgreint hvað hatursumræða er. Það er til að koma í veg fyrir að ákærur falli á túlkunaratriðinu.
Írland er ekki eitt á þessari vegferð í átt að sovéskum aðferðum til að hafa hemil á tjáningu og málfrelsi fólks. Þetta er að verða tískan. Heimildir yfirvalda til að hnýsast í líf borgaranna eru auknar og ákærur byggðar á túlkun yfirvalda frekar en bókstaf laganna. Fólk er meðhöndlað eins og sekt þar til sakleysi er sannað. Neyðarúrræði af ýmsu tagi eru útvíkkuð og gripið til þeirra af sífellt minna tilefni. Og almenningur segir ekkert. Mótmælir í engu. Treystir kannski á stjórnarskránna þótt hún sé ein og sér og án varðstöðu alveg gjörsamlega ónýtur pappír.
Margir vöknuðu upp við vondan draum á veirutímum við að sjá í gegnum lygar yfirvalda. Við að sjá í gegnum lygar veiruvarna fóru margir líka að sjá í gegnum hinar lygarnar, enda spretta þær allar úr sama jarðvegi. Lygar í málefnum innflytjenda. Lygar í málefnum loftslagsbreytinga. Lygar í málefnum veiruvarna. Lygar um líffræði kvenna og karla. Lygar ofan á lygar.
Kannski var hlutfall almennings sem vaknaði úr þægilegum svefninum ekki mjög hátt, en raddirnar þeim mun háværari. Þegar næsta holskefla lyga skellur á okkur verður erfiðara en áður en selja þær. Þökk sé, vonandi, fólki eins og þér.