Brugðist við gyðingahatri í elítuskólum vestanhafs

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Gyðingahatur hefur lengi kraumað undir í elítuháskólum Bandaríkjanna en eftir innrás Hamasliða og annarra Gazabúa í Ísrael hinn 7. október hefur heldur betur soðið upp úr pottinum. Þingnefnd sem gefið var nafnið „Holding Campus Leaders Accountable and Confronting Antisemitism“ var sett á stofn. Svör forseta þriggja skóla hafa vakið mikla athygli. Þeir eru Claudine Gay frá Harvard, Elizabeth Magill frá Penn og Sally Kornbluth frá MIT. Í stuttu myndbandi má sjá Elise Stefanik, fulltrúa republikana í New York fylki, reyna að fá þessar þrjár konur til að samsinna því að það að kalla eftir þjóðarmorði gyðinga flokkaðist sem áreitni og væri brot á reglum skólanna. Engin þeirra gaf afdráttarlaust svar og tvær sögðu að það færi eftir samhenginu, það færi eftir því hvort það að kalla eftir þjóðarmorði leiddi beinlínis til ofbeldis eða beindist að einstaklingi frekar en hópi.

Fara fram á afsögn skólastjórnenda

Alls kyns fólk hefur stigið fram og lýst furðu sinni og undrun á afstöðu skólastjórnendanna, þingmenn úr báðum flokkum, leikarar, háskólakennarar auk ríkisstjóra Pennsylvaníu, Josh Shapiro (D) og hópur 74 þingmanna hefur sett nafn sitt undir bréf þar sem brotthvarfs ofangreindra skólastjórnenda er krafist. Kannanir sýni að 73% nemenda sem séu gyðingar hafi orðið fyrir eða orðið vitni að einhvers konar gyðingahatri frá upphafi þessa skólaárs. Í stað þess að finna til öryggis í skóladeildum sínum þá hafi margir nemendur, bæði gyðingar og ísraelar, upplifað stöðugt fjandsamlegra námsumhverfi sem lýsi sér í markvissri áreitni, köllum mótmælenda eftir eyðingu Ísraelsríkis og jafnvel í ofbeldi. Þingmennirnir vilja meina að afdráttarlaust „já“ hefði verið eina rétta svarið. 

Á sunnudaginn var, fjórum dögum eftir að hún kom fyrir þingnefndina, sagði Elizabeth Magill af sér, auk forseta skólaráðs Penn (fjárhagslegir velgjörðamenn skólans höfðu kippt að sér höndunum og nemendur mótmælt) og nú er spjótunum beint að Claudine Gay. Fox News segir frá því að ónefndur aðili hafi leigt bíla sem aka um skólalóðina með auglýsingaskilti sem á stendur „REKIÐ GAY“ auk mynda af henni sem teknar voru er hún sat fyrir svörum hjá þingnefndinni. Sami aðili ætlar einnig að leigja flugvél sem á að fljúga yfir háskólasvæðið þessa vikuna með borða sem á skal standa „HARVARD - HÆTTU GYÐINGAHATRI“. 

Mikið hefur verið lagt upp úr „öruggum svæðum“ í bandarískum háskólum - svæðum þar sem minnihlutahópar geti komið saman í skjóli frá „hvítu, rasísku kúgurunum“ og hefur meirihluti gyðinga stutt demókrata og þessa nýmarxisku hugmyndafræði en nú hafa þeir vaknað við það að vera ekki lengur flokkaðir sem minnihlutahópur heldur hluti af hinu nýlendukúgandi, hvíta, gagnkynhneigða feðraveldi; hópur sem á ekki skilið neina vernd. Slíkt kallar á hugmyndafræðilega endurskoðun. Kannski brestur á með flótta gyðinga úr demókrataflokknum.

Skildu eftir skilaboð