Ingibjörg Gísladóttir skrifar:
Heimurinn hefur að miklu leyti verið í afneitun hvað kynferðislega ofbeldið er Hamasliðar beittu í innrás sinni í Ísrael hinn 7 október varðar en smám saman hlaðast sönnunargögnin upp. Á France 24 mátti hinn 13. des. sjá stutta frétt og myndband þar sem segir að ísraelska lögreglan hafi safnað fleiri en 1.500 vitnisburðum. Talað er við Haim, fulltrúa Zaka (sem sjá um meðhöndlun líka) sem sýnir myndir (sumar hafði hann tekið sjálfur, s.s. mynd af líki konu sem brjóstin höfðu verið skorin af) og segir að markvisst hafi verið ráðist á konur, þeim mörgum nauðgað og þær limlestar. Það að enginn skyldi trúa frásögnum um kynferðisofbeldið hafi komið óþægilega á óvart.
Þessi fulltrúi Zaka er sýndur bera vitni fyrir Knesset um það sem hann hafði séð, s.s. naktar konur, brotnar mjaðmagrindur og sködduð kynfæri. Í myndbandinu er þögn feminista og UN Women gagnrýnd en ekkert heyrðist frá samtökunum í tvo mánuði um þetta mál. Sýndar eru ísraelskar konur að líma upp blöð með slagorðum s.s. „Metoo, unless you´re a Jew" og „Imagine people were calling your rapist a freedom fighter".
Fyrir þá sem hafa lesið um fjöldamorðin á vopnlausum gyðingum í Hebron 1929 vegna lyga um að ráðist hefði verið á moskuna í Jerúsalem er þessi hegðun þó mjög kunnugleg. Fréttamaðurinn Pierre Van Passen segir frá ofbeldinu í bókunum A Pilgrims Vow, 1956 og í Days of Our Years, 1939. Hann segir m.a. frá því að í húsi rabbína eins hafi 38 karlar og konur verið skorin á háls og kynfærin einnig skorin af; í tilfelli kvennanna, brjóstin. Hann segir að slíkt hafi verið siður vígamanna araba og sé enn (1939). Pierre segir að þessi illvirki hafi verið framin að undirlagi Múftans í Jerúsalem og með þögulu samþykki Breta, sem hefðu formlega hafnað því að hinir látnu hefðu verið pyntaðir eða lík þeirra svívirt. Í allt voru tæplega 70 myrtir og Bretar létu flytja eftirlifandi á brott.
Seint í nóvember síðastliðnum komu um 800 manns, fulltrúar um 40 landa, saman í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem tvær konur sem höfðu meðhöndlað lík þeirra er Hamasliðar myrtu hinn 7 október báru vitni. „Þögn er samsekt" sagði Sheryl Sandberg (áður hjá Meta) en hún var ásamt Gilad Erdan, sendiherra Ísraels hjá SÞ einn af helstu skipuleggjendum samkomunnar. „Hinn 7. október myrtu Hamasliðar 1.200 manns með villimannslegum hætti og í sumum tilfellum þá nauðguðu þeir fórnarlömbunum fyrst," bætti Sandberg við. „Við vitum þetta vegna framburðar sjónarvotta og sjúkraflutningamanna, við myndum hafa frásagnir fórnarlamba, hefði fleirum verið leyft að lifa".
Ísraelum og mörgum gyðingum finnst sem hið alþjóðlega samfélag um félagslegt réttlæti hafi yfirgefið sig - hópar kvenna, mannréttindahópar og frægt fólk úr hópi frjálslyndra, auk annarra - hópar sem gyðingar hafi stutt gegnum tíðina í öllum þeim samfélagslegu kreppum sem komið hafi upp, segir í nýlegri grein New York Times.
Margir eru harðákveðnir í því að Hamasliðar nái ekki að breiða yfir illvirki sín með því að afneita þeim, eins og gert var 1929 og hefur Steven Spielberg (sem framleiddi Schindler´s List) falið stofnun sinni, USC Shoah Foundation, að framleiða heimildamynd um það sem gerðist hinn 7. október. „Ég hef aldrei getað ímyndað mér að ég myndi upplifa slíka ólýsanlega villimennsku gegn gyðingum" hefur Times of Israel eftir honum. „Ekki frá því sem gerðist í Þýskalandi á fjórða áratugnum hef ég vitað til að gyðingahatrið læddist ekki lengur með veggjum heldur stæði stolt með hendur á mjöðmum, líkt og Hitler eða Mussolini".
Nú þegar hefur frásögnum 130 eftirlifanda verið bætt í safn Spielbergs.
2 Comments on “Barist fyrir viðurkenningu á kynferðisofbeldi Hamasliða hinn 7. október”
Miðað við það að Ísrael hefur verið að framleiða lygasögur um þennan dag þá kemur það ekki á óvart að fólk skuli ekki trúa þessu.
Einar, ég er algjörlega sammála þér!
Það virðist vera þannig að mjög fáir skilja hvað liggur að baki þessu stríði, horfi bara blint á 7 Oktober enn spái ekkert í því sem er búið að gerast áratugina á undan. Þetta er sama sagan og með stríðið í Úkraínu, það hófst ekki 24 Febrúar 2022 eins og allir stóru miðlanir á Íslandi eru að gelta alla daga.
Fréttaflutningur og sögu greining hér á landi er með því versta sem þekkist.
Hvað ætli það séu margir hér á landi sem byggi sína skoðun á Hollywood myndum?