Forseti COP28 fjárfestir áfram í jarðefnaeldsneyti

frettinErlentLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Fyrirsögnin er er fengin frá frétt RÚV og vakti athygli mína. Ekki af því það kemur mér á nokkurn hátt á óvart að Arabarnir ætli sér að halda sínu striki og draga olíu og gas úr jörðu sem rennur svo út eins og heitar lummur til allra heimshorna, þar á meðal Evrópu. Ekki af því mér finnist skrýtið að forseti COP28, sem um leið er forstjóri olíufélags, tilheyri kjaftaklúbbi sem tali um eitt á meðan raunveruleikinn þýði eitthvað annað. Ekki af því ég sjái eitthvað óvænt í mótsögn í orðum og gjörðum.

Nei, fyrirsögnin vakti athygli mína af því hún er sett fram í hneykslunartón sem um leið bendir til veruleikafirringar blaðamanns og fjölmiðils.

Sjálf fréttin styður slíka túlkun:

Sultan al Jaber, stjórnandi ríkisolíufélags Sameinuðu arabísku furstadæmanna, ætlar að halda áfram að fjárfesta í olíu- og gasframleiðslu. Örfáir dagar eru síðan hann var forseti loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, þar sem hann fagnaði samningi um samdrátt í framleiðslu jarðefnaeldsneytis. ... 

Hann segir fyrirtæki sitt ætla að halda áfram að vera „ábyrgur og áreiðanlegur birgðasali lág-kolefnis orku,“ og heimurinn þurfi á slíkri orku að halda fyrir lægsta mögulega verð. Hann fullyrðir að kolvatnsefni ríkisolíufélagsins gefi frá sér minna kolefni þar sem það sé sótt á skilvirkari hátt og lekinn út frá því minni en annars staðar.

Það sem blaðamaður telur vera mótsögn forstjórans er í raun viðskiptavit. Hann sér að Evrópumenn og Bandaríkjamenn eru búnir að lofa því að opna ekki fleiri olíu- og gaslindir. Hvað þýðir það? Jú, að hans framleiðsla verður í aukinni eftirspurn. Hann veit alveg að olía og gas verður uppistaðan í orkuöflun mannskyns í einhverja áratugi í viðbót. Ef þessi hráefni fá að vera áfram í jörðinni í Evrópu þá þurfa þau að koma upp úr henni hjá honum.

Kannski RÚV hefði átt að orða fyrirsögnina öðruvísi en halda að öðru leyti texta fréttarinnar óbreyttum. Ein heppileg fyrirsögn gæti verið:

Við létum plata okkur! Núna þurfum við að fara með betlistafinn til Arabanna

Eða:

Vesturlönd skrifa enn og aftur undir lífskjaraskerðingu til styrktar arabískum prinsum

Nú fer reyndar að styttast í að Vesturlönd þurfi að snúa af þessari braut. Þetta tekur tíma. Nýir stjórnmálamenn þurfa að taka við af þeim sem hafa selt sálina til kolefniskirkjunnar. Forstjóraskipti þurfa að eiga sér stað hjá fyrirtæjum sem hafa eytt svimandi fjárhæðum í gagnlausar kolefnisaðgerðir. Almenningur má samt alveg fara að vakna og koma einhverju af stað: Hætta að borga fyrir svokallaða kolefnisjöfnun, byrja að kaupa plaströr á svarta markaðinum og mótmæla stighækkandi kostnaði við sorphirðu, til að byrja með.

Nema þér þyki svona vænt um arabísku prinsana. Þú um það.

Skildu eftir skilaboð