Harry prins, Páll skipstjóri og ímyndarkrísa Sigríðar Daggar

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Breskir götublaðamenn hleruðu síma Harry prins og beittu öðrum ólöglegum aðferðum til að afla gagna í fréttir. Íslenskir götublaðamenn, kenndir við RSK-miðla, gengu skrefinu lengra og afrituðu síma Páls skipstjóra Steingrímssonar í heilu lagi. Sími Páls var fenginn með byrlun og þjófnaði.

Mál prinsins Harry og Páls skipstjóra eru keimlík. Bæði málin snúa að blaðamönnum og fjölmiðlum sem virða hvorki siðareglur né lög. Brotaviljinn er einbeittur í báðum tilvikum. Framferði íslensku götublaðamannanna er sýnu ógeðfelldara en þeirra bresku.

Blaðamenn RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðla,  misnotuðu andlega veika þáverandi eiginkonu skipstjórans til óhæfuverka, byrla og stela. Eftir að lögreglurannsókn hófst neituðu blaðamenn að mæta til skýrslutöku og töfðu rannsókn málsins um hálft ár. Tímann notuðu þeir til að fela slóðina, eyðileggja gögn sem tengdu þá við glæpinn.

Í tilefni af dómi, sem féll Harry prins í vil, væri eðlilegt að íslenskir fjölmiðlar gerðu samanburð á málunum tveim. Rík ástæða er til að kafa djúpt í ímyndarkreppu íslenskra fjölmiðla. En það verður ekki gert. Blaðamenn stunda samtryggingu og ræða ekki spillingu, siðleysi og lögbrot innan eigin raða.

Aftur þykjast blaðamenn og fjölmiðlar þess umkomnir að fjalla um vanda annarra stofnana. Er lögreglan í ímyndarkrísu? spyr RÚV. Fréttamaðurinn sem tjáir sig er enginn annar en sjálfur formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg Auðunsdóttir.

Skattsvikarinn mætir í settið með refsivöndinn á lofti og segir til syndanna. Engin ímyndarkrísa hjá Sigríði Dögg og RÚV. Byrlun, stuldur og skattsvik eru slíkt smáræði að ekki tekur að nefna á nafn.

Skildu eftir skilaboð