Frelsissvipting og valdboð

frettinInnlent, Jón Magnússon2 Comments

Jón Magnússon skrifar:

Eitt elsta mannréttindaákvæðið varðar rétt einstaklingsins yfir eigin líkama og dvalarstað. Ríkisvaldið hefur samt sem áður talið sig hafa rétt til að svipta fólk ákvörðunarvaldi í þessum efnum í sérstökum tilfellum t.d. vegna sjúkleika. Í frjálsu þjóðfélagi gildir samt sú meginregla að einstaklingurinn ráði eigin líkama og dvalarstað.

Einstaklingurinn ræður skv. grunnreglum um frelsi, hvort hann tekur ásættanlega áhættu eða ekki. 

Þegar íbúum Grindavíkur var gert að fara og yfirgefa hús sín og heimili töldu sumir sérfræðingar, að hætta gæti verið á eldgosi undir bænum. Sú hætta er ekki lengur fyrir hendi og einn virtasti sérfræðingur okkar í þeim málum Haldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur skrifað fróðlega pistla um það efni.

Engin frýr Haraldi vits í þessu efni og ekki er hann grunaður um græsku. Þá telja sérfræðingar Veðurstofunar nú, að hverfandi ef nokkrar líkur væru á eldgosi í Grindavík. Þrátt fyrir þetta halda yfirvöld uppteknum hætti og meina þeim íbúum Grindavíkur sem þess óska að vera heima hjá sér. 

Í tilviki sem þessu má spyrja. Eru líkur á að yfirvöld hefðu fyrirskipað rýmingu Grindavíkur ef ástandið hefði verið eins og það er í dag og ráðgjöf sérfræðinga sú sem hún er í dag. Augljóslega hefði það ekki verið gert. 

Nú er íbúa Grindavíkur sem nýtir sér þau mannréttindi að ráða sínum dvalarstað gert að viðlagðri refsingu að yfirgefa heimili sitt með illu ef ekki vill betur. Ekki e spurt um það hvort um ásættanlega áhættu sé að ræða, sem öllum einstaklingum er heimilt að taka ef svo ber undir. Nei valdstjórnin skal koma sínu fram með góðu eða illu. 

Þetta dæmi sýnir hve hættulegt það er, að játa yfirvöldum rétt til að svipta fólk eðlilegu athafnafrelsi. Það sýndi sig oft og iðulega í Kóvíd faraldrinum og nú í Grindavík, þar sem yfirvöld almannavarna fara offari. 

Mikið fjölmenni kemur að starfi almannavarna, en það vantar sárlega einn starfsmann. Starfsmann sem sinnir hagsmunagæslu fyrir einstaklinga á grundvelli almennrar skynsemi og stjórnarskrárvarinna réttinda borgaranna. 

Eins og nú háttar til eru yfirvöld að taka sér vald umfram meðalhóf með því að meina Grindvíkingum að búa í bænum sínum. Nauðsynleg er að þeim hömlum verði aflétt og skorað á dómsmálaráðherra að beita sér fyrir málstað frelsisins gegn einhliða ónauðsynlegu valdboði yfirvalda sem undir hana heyra.

2 Comments on “Frelsissvipting og valdboð”

  1. Stefán, það er nú þannig að flest sem hann Jón Magnússon skrifar súrnar eins og mjólk í stofuhita 🙂

Skildu eftir skilaboð