Hið undarlega mál Hatun Tash

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Nýverið birtist á BBC frétt um að ungur maður frá Brighton hefði verið dæmdur í  fangelsi fyrir lífstíð (lágmark 16 ár) fyrir að hafa ætlað að kaupa byssu á svörtum markaði og skjóta kristna konu sem predikar gjarnan á Hyde Park í Lundúnum. Þeir sem ætluðu að selja honum byssuna fengu líka dóma. Þessi maður, Edward Little, hefur umfangsmikla afbrotasögu að baki, allt frá 2017, og tók íslamska trú í fangelsi. Er honum var sýnt myndband af predikaranum við yfirheyrslu eftir handtöku sína í september 2022 þá trylltist hann og réðst á lögreglumann. Áætlun Little hafði verið að drepa predikarann, Hatun Tash, vini hennar og alla lögreglumenn á svæðinu.

Hver er Hatun Tash?

Hún er fyrrum múslimi, innflytjandi frá Tyrklandi, sem tók kristna trú og fékk köllun til að boða hana (og gagnrýna íslam) á Hyde Park í London. Þar hefur hún mætt miklu aðkasti múslima sem virðast mæta til að láta móðgast. Hinn 26. október 2020 var hún slegin niður af múslima sem mislíkaði að hún sýndi teikningu af „Vælukjóanum Múhammeð" sem þyldi ekki neina gagnrýni og hinn 25. júlí 2021 var henni sýnt morðtilræði með hnífi svo hún særðist á andliti og hendi. Hún hefur einnig fengið fjölda líflátshótana.

Breska lögreglan hefur ekki sýnt neinn vilja til að vernda þessa smávöxnu konu en handtekið hana tvisvar fyrir að æsa múslimana upp. Í seinna skiptið var hún handtekin eftir að hafa kvartað um að Kóraninum sínum hefði verið stolið. Hún vissi hver hefði tekið hann og vildi fá lögregluna til að heimta hann aftur. Í það skiptið var henni haldið yfir nótt, yfirheyrð, sett í líkamsleit og sleppt peningalausri morguninn eftir. Vinir hennar hjálpuðu henni að lögsækja lögregluna og í The Times hinn 21. október 2022 mátti lesa að lögreglan hefði beðið hana afsökunar á handtökunum og greitt henni 10,000 pund í skaðabætur.

Sjálfsmyndarpólitíkin fellur um sjálfa sig

Skömmu eftir að fréttir bárust af ætluðu morðtilræði Little birtist athyglisverð grein í Spiked þar sem höfundur furðar sig á því að félagslegu réttlætisriddararnir sýni máli Hatun ekki neina athygli. Sem kona og innflytjandi sem tilheyrir minnihlutahópi þá býr hún við þríþætta mismunum samkvæmt sjálfsmyndarpólitíkinni og hefur þar að auki orðið fyrir margvíslegu ofbeldi af hendi karlmanna og valdstjórnarinnar. „Góða fólkið" hefði átt að sameinast um að verja hana, en samt þegi mannréttindafrömuðirnir. Hefði hún verið á vegum Black Lives Matter þá hefði málið horft öðru vísi við. Stjórnmálamenn hefðu fordæmt árásir á hana, stuðningshópar hefðu gengið um götur og endalaus umræða um rasisma hefði án efa tröllriðið fjölmiðlunum.

En „góða fólkið" vill ekkert vita af Hatun Tash. Sjálfsmyndarpólítíkin er haldlaus þegar á reynir. Vandamálið er að þessi kona gagnrýnir íslam og mannréttindaaktívistarnir þora ekki að verja hana gegn ofbeldi múslimakarla og lögreglunnar. Þeir stæra sig af því að berjast gegn fasisma en þegar þeir standa frammi fyrir umburðarleysi og ofbeldishneigð íslamista þá finnst þeim öruggara að þegja, segir í greininni.

Enginn eigi að verða fyrir ofbeldi, ofsóknum eða líflátshótunum fyrir að tjá sannfæringu sína eða skoðanir. Þögnin um mál Hatun Tash sé hreint forkastanleg. 

Hatun Tash virðist nú horfin. Vinir hennar hafa hvorki séð hana né heyrt af henni frá því um miðjan nóvember. Margir hafa lýst yfir áhyggjum sínum af afdrifum hennar, þar á meðal kvenréttindakonan Posie Parker sem bað fylgendur sína á X að láta lögregluna vita ef þeir sæju til hennar. Sjálf verður hún iðulega fyrir ofbeldi og hótunum um ofbeldi af hálfu karlmanna fyrir að segja að karlar geti ekki umbreyst í konur.

Skildu eftir skilaboð