Gústaf Skúlason skrifar;
Rafmagns- og skattaafslátturinn sem tekinn var upp árið 2017 til að laða alþjóðlega upplýsingatæknirisa til Svíþjóðar er orðinn dýrkeyptur fyrir Svía. Stofnunin sem fylgist með hagvextinum „Tillväxtanalys“segir frá þessu í nýrri skýrslu. Eftir að skattaafslátturinn var afnuminn gæti kostnaðurinn orðið enn þá dýrari fyrir Svíþjóð, vegna hugsanlegra skaðabótakrafna vegna samningsbrots.
Skattaafslátturinn var kynntur af þáverandi rauðgrænu ríkisstjórn í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 og fékk stuðning þáverandi stjórnarandstöðuflokka Moderata, Kristilega demókrata og Miðflokksins. Vonin var sú, að alþjóðarisar eins og Amazon, Facebook og Microsoft, kæmu til Svíþjóðar og byggðu netþjónustuver vegna hlægilega lágs raforkuverðs. Sögðu þáverandi ráðherrar, að það skapaði tugþúsundir nýrra starfa. Skattgreiðendur voru þannig í raun látnir borga rafmagnið fyrir risafyrirtækin sem var útskýrt með loforði um öll þessi nýju störf.
Nýir netþjónasalir
Þegar ákvörðun um skattaívilnun lá fyrir voru alþjóðlegir upplýsingatæknirisar þegar farnir að hasla sér völl í Svíþjóð. Þar á meðal Facebook, sem vígði netþjónasal í Luleå árið 2013 – þann fyrsta og stærsta í eigu fyrirtækisins utan Bandaríkjanna. Árið 2014 hófst bygging annars netþjónustuvers og það þriðja kom í kjölfarið. Alls eru þetta tölvusalir yfir 90.000 fermetrar að flatarmáli í Luleå.
Það eru önnur stórfyrirtæki en Facebook sem byggja mikla aðstöðu í Svíþjóð. Amazon, Google og Microsoft fjárfesta einnig mikið í Svíþjóð í borgunum Staffanstorp, Eskilstuna, Avesta, Västerås og Gävle, þar sem stórar blikkgeymslur eru fullar af suðandi netþjónum.
Tálsýn um aukna atvinnu
En vonin um öll nýju störfin urðu að engu. Í ljós kom, að netþjónasalur, þótt hann líti út fyrir að vera stór, er ekki það sama og verksmiðja og krefst því ekki mjög mikils vinnuafls. Hins vegar þurfa slík þjónustuver mikla raforku og notuðu um 3 terrawattsstundir af rafmagni árið 2022 notuðu um 3 teravattstundir af rafmagni. Það eru rúmlega tvö prósent af heildarrafmagnsnotkun Svíþjóðar.
Við bætist að rauðgræn stjórnvöld Svíþjóðar lokuðu einum kjarnakljúf í Oskarshamn árið 2017 og tveimur til viðbótar í Ringhals árið 2019 og 2020. Það var þriðjungur af kjarnorkuframleiddri raforku í Svíþjóð. Samtímis hækkaði raforkuverðið Evrópu og gagnrýni eykst í Svíþjóð, að erlend stórfyrirtæki fái afslátt af raforkuverðinu en ekki sænskir notendur.
Að minnsta kosti einn milljarður sænskra króna
Ný hægristjórn Svíþjóðar felldi niður skattaafsláttinn til tölvuþjónustuvera s.l. sumar. Sósíaldemókratar þóttust rétt fyrir kosningarnar ætla að gera slíkt hið sama sem var þvervending í málinu vegna óánægju almennings. Núna hefur komið fram, að niðurgreiðslan til netþjónustuveranna í sex og hálft ár kosta Svía að minnsta kosti einn milljarð sænskra króna.
Í skýrslunni kemur fram að bandarísku fyrirtækin sem nutu skattaafsláttarins var aldrei neitað, þegar þau sóttu um að greiða lægra raforkuverð. Samtímis áttu sænsku fyrirtækin í örðugleikum með sínar umsóknir. „Tillväxtanalys“ telur að með skattaafslættinum hafi samkeppnisgrundvelli verið raskað. Forgangsréttur tölvurisanna á ódýru rafmagni í Svíþjóð hefur einnig leitt til þess að skammta hefur þurft rafmagn hjá öðrum sem gæti hafa leitt til glataðra atvinnutækifæra.
Skaðabótakröfur gagnvart sænska ríkinu
Sögunni um raforkuafsláttinn til bandarísku tæknirisanna er ekki enn lokið og gæti reynst skattgreiðendum enn dýrari. Þegar ríkisstjórnin afnam afsláttinn, gæti sænska ríkið hafa framið samningsbrot. Bent er á nokkurra ára gamalt dómsmál frá Spáni vegna sólarorkuvers. Spænska ríkið minnkaði skyndilega styrki til sólarorkuframkvæmda sem varð til þess að fjárfestingarfélagið Antin Infrastructure Partners, dró sig út úr stóru verkefni og seldi í kjölfarið. Fyrrverandi eigandinn leitaði þá til Alþjóðabankans vegna deilunnar við spænska ríkið og fékk hann skaðabætur um milljarð sænskra króna auk vaxta.
Facebook, Google, Microsoft og Amazon gætu á sama hátt farið með mál gegn sænska ríkiðnu fyrir alþjóðlegan dómstól og krafist skaðabóta vegna þess að þau fái ekki lengur afslátt af raforkuverðinu eins og þeim hafði verið lofað.