Frændhygli og vinargreiðar er óæskilegur hluti pólitískrar starfsemi: „Veist ef þú vin átt“

frettinInnlent, Jón MagnússonLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Frændhygli og vinargreiðar er óæskilegur hluti pólitískrar starfsemi, en illt að uppræta svo sem dæmin sanna, en sumir kunna líka að færa sér vináttuna í nyt eins og karlin á Akranesi,sem seldi Pétri Magnússyni fjármálaráðherra í Nýsköpunarstjórn kartöflur. Pétur komst að því,að karl seldi honum pokann 5 krónum dýrari en öðrum og ræddi við karlinn, sem sagði rétt vera og sagði: "Til hvers er að eiga vini ef maður græðir ekki eitthvað á þeim."

Steingrímur Hermannson þá flugmálaráðherra skipaði vin sinn og flokksbróður Pétur Einarsson sem flugmálastjóra og var það gagnrýnt heiftarlega að hann skyldi skipa lögfræðing sem ekkert vissi um flugmál sem flugmálastjóra. Steingrímur svaraði því að bragði og sagði að það væri rétt, að Pétur væri lögfræðingur en tók sérstaklega fram, að hann hefði fjölþætta menntun þar sem hann kynni líka Argon suðu, hvað svo sem sú suða kom flugi við.

Nú hefur Bjarni Benediktsson skipað Svanhildi Hólm fyrrum aðstoðarmann sinn sendiherra í Washington og varði þá skipan af röggsemi og sagði hana hafa svo fjölþætta þekkingu og reynslu, að eðlilegt væri að hún yrði skipuð. 

Bæði Steingrímur og Bjarni hefðu getað sleppt þessu, af því að allir vita og sjá hvað þarna er og var á ferðinni. Vinargreiðar sem standast enga skoðun.  En rökin eru síðan hönnuð til að reyna að segja fólki að það sem er augljóst sé einmitt ekki það sem sé augljóst. 

Calicula keisari í Róm gerði hestinn sinn að þingmanni og datt ekki í hug að reyna að sannfæra borgarlýðinn í Róm um að það væri gert á faglegum grunni. En nú 2000 árum síðar telja stjórnmálamenn sig hafa farið með rétt mál ef þeir telja það vera til varnar sínum sóma að veifa frekar röngu tré eins og Bjarni og Steingrímu frekar en öngvu eins og Calicula gerði. 

Skildu eftir skilaboð