Páll Vilhjálmsson skrifar:
Hegðun Sundhnúkagígaelda kemur á óvart, segir Kristín Jónsdóttir deildarstjóri hjá Veðurstofu Íslands og bætir við, ,,Þarna gaus síðast fyrir rúmlega 2000 árum þannig að við erum bara að kynnast þessu kerfi."
Í viðtengdri frétt er gefið undir fótinn að eldri kenning um að eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga séu í fleirtölu víki fyrir kenningu um að kerfið sé eitt. Hvort sú verði raunin er opin spurning og verður ósvarað um hríð.
Tilgátan veitir innsýn í það megineinkenni vísinda að þau eru þekking með þeim fyrirvara að nýmæli geta kollvarpað kenningum sem taldar eru góðar og gildar. Okkur er tamt að tala á þann veg að ,,vísindin setja þetta og hitt", en það þýðir ekki að um sé að ræða algild og endanleg sannindi. Nær væri að tala um námundun.
Þegar sleppir einföldum reglum, eins og að vatn sjóði við hundrað gráður, er þegar grannt er skoðað, ekki margt í efnisvísindum sem hægt er að slá föstu sem algildum sannleika. Á öðrum vísindasviðum, s.s. heilbrigðis- og félagsvísindum, eru gegnheil sannleikskorn enn færri.
Síðustu 150 árin eða svo höfum við vanist að vísindin færa okkur jafnt og þétt haldbetri skýringar á náttúrunni. Sá tími er liðinn. Svo dæmi sé tekið er torvelt að samhæfa afstæðiskenninguna við meginlögmál skammtafræðinnar. Strengjafræði, tilgátur um hulduefni, margheimakenningar og fleiri tilhlaup til samhæfingar hafa ekki skilað viðunandi árangri.
Menning okkar gerir nánast kröfu um fullvissu í brýnustu málum. Fullvissuna eiga vísindin að útvega. Þegar þau skaffa ekki blasir við gjaldfelling vísinda. Hvaða tilgáta sem vera skal er tekin til umræðu sem mögulega rétt, jafnvel þótt hún sé út í bláinn.
Við sjáum niðurbrot vísindanna berum augum. Í nafni lífvísinda tala sumir um að kynin geti verið þrjú, fimm eða seytján og hægt sé að fæðast í röngu kyni. Í loftslagsmálum eru hindurvitni um manngert veðurfar tekin trúanleg. Í báðum tilvikum er um að ræða hugmyndafræði í ætt við vísindalegan sósíalisma 19. aldar; kennisetningar sem standast ekki hlutlægan veruleika.
Ein vísindakenning er útskýrir heiminn er draumur sem æ minni líkur eru á að rætist. Maðurinn getur krafist fullvissu en öðlast hana ekki með rökum. Lífið í samfélagi við aðra er námundun, ekki niðurstaða án fyrirvara. Fullvissa getur aðeins byggt á persónulegri sannfæringu.