Jón Magnússon skrifar:
Miklar gleðifregnir, að yfirvöld almannavarna skuli hafa heimilað Grindvíkingum að halda jólin heima hjá sér. Það hlítur að vera mikill léttir fyrir marga Grindvíkinga. Fyrir nokkrum dögum virtist það fjarri lagi.
Grindvíkingar sem aðrir gera sér grein fyrir því, að náttúruvá þarf ekki að vera langt frá Grindavík og þeir sem ákveða að halda jól og áramót í Grindavík eru meðvitaðir um það.
En þannig er það víða í heiminum, að fólk kýs að vera í heimabyggð jafnvel þó að hættur geti steðjað að. Það er enginn sem getur búið sig svo að umhverfi hans sé algerlega hættulaust.
Við höldum jól og reynum að hafa þau sem gleðilegust og öruggust fyrir okkur öll og vonandi verða jólin góð og kærkomin fyrir þá Grindvíkinga sem eiga þess kost að halda þau heima hjá sér. Til hamingju með það Grindvíkingar.
Það eru fleiri váboðar en þeir náttúrulegu, sem gæta verður að. Meira áfengi selst í desember en í nokkrum öðrum mánuði ársins. Á mörgum heimilum missa jólin glit, sitt hamingju og helgi vegna þess að einhver úr fjölskyldunni slasast vegna ölvunnar, verður sér til skammar eða kemur í veg fyrir að aðrir geti notið jólanna. Gætum að okkur, hugsum um hvort annað og látum ekki Bakkus eyðileggja það sem annars hefði getað verið svo gott og gleðilegt.