Jón Magnússon skrifar:
Oft er sagt að jólin séu hátíð kaupmanna vegna ofurneyslu og gjafaflóðs, sem fylgir jólum í okkar heimshluta. Það skiptir þá miklu að hafa góða kaupmenn, sem hafa aðhald frá öflugum samtökum neytenda.
Bent hefur verið á, að lífskjör fari að nokkru eftir því hve góða kaupmenn við eigum. Pálmi Jónsson stofnandi Hagkaupa sýndi svo sannarlega fram á það á síðustu öld, þegar lágvöruverðs verslanir Hagkaupa lækkuðu vöruverð í landinu.
Á fyrr og síðmiðöldum voru kryddvörur eftirsóttustu vörur í Evrópu. Kryddið þurfti að flytja frá Austurlöndum. Ítalskir kaupmenn fundu hagkvæmar verslunarleiðir, sem voru eyðilagðar af Mongólum og Tyrkjum um 1200.
Þá voru góð ráð dýr og góðir kaupmenn brugðust við. En verslunarleiðin var dýr, hættuleg og erfið. Sagt var að krydd sem komst fyrir á hnífsoddi í Evrópu kostaði jafn mikið og 50 kg. af sama kryddi í upprunalandinu. Það gekk að sjálfsögðu ekki og fundnar voru nýar leiðir til að ná fram verðlækkun.
Í vaxandi mæli heyrast raddir, sem hallmæla frjálsum markaði og finna honum allt til foráttu. Það er fólk, sem er haldið þeim ranghugmyndum, að með miðstýringu og ríkisvæðingu sé hægt að lækka vöruverð. Raunin er önnur. Hvarvetna sem þetta hefur verið reynt, hefur það leitt til vöruskorts og langra biðraða eins og gátan frá Sovétríkjunum sálugu lýsir vel, en hún er svona:
"Hvað er þriggja kílómetra langt og borðar kartöflur?" Svarið var: Biðröðin í Moskvu eftir að komast í kjötbúðina. Þannig var það þá. En nú er öldin önnur jafnvel þó að Rússar eigi í stríði.
Allir eru sammála um að ríkisvaldið setji ákveðnar leikreglur á markaði eins og öryggisreglur og samkeppnisreglur, sem miða að því að lögmál frjáls markaðar fái að njóta sín. En það er einmitt þessi frjálsi markaður, sem hefur tryggt neytendum á Vesturlöndum hagkvæmt vöruverð og nægt vöruframboð.
Ríkishyggjufólk skilur ekki hvernig á því stendur, að í öllu kaupæðinu fyrir jól, þá skuli alltaf vera fyllt á og þörfum neytenda svarað, þó engar aðrar reglur séu í gangi,en hin ósýnilega hönd markaðarins.
Sú reynsla sem við höfum af frelsi í verslun ætti að leiða huga stjórnmálafólks að því hvort það sé ekki hagkvæmara að útvísa fleiri verkefnum frá hinu opinbera til einstaklinga.
Ég var um langa hríð forustumaður í neytendastarfi og formaður Neytendasamtakanna um nokkurt skeið. Reynsla mín var sú, að erfiðustu fyrirtækin sem við þurftum að eiga við vegna hagsmuna neytenda á þeim tíma voru ríkisfyrirtækin, Póstur og sími, Grænmetisverslunin o.s.frv. Sú reynsla sýndi mér að þó það sé misjafn sauður í mörgu fé hvað varðar kaupmenn eins og aðrar stéttir, þá var það þó hátíð að eiga við svörtu sauðina þar miðað við einokunarstofnanir ríkisins.
Við skulum varast að láta falsspámenn eyðileggja frelsið, en sækja fram til meira frelsis á öllum sviðum þjóðlífins neytendum til hagsbóta.