Guðrún Bergmann skrifar:
Ég vil byrja á því, lesandi góður, að óska þér gleðilegs árs. Á þessu augnabliki er árið eins og óskrifað blað, en þó með undirtóni frá plánetunum og annarri orku í Alheiminum, sem gefa til kynna að þetta geti orðið mikið umbrotaár, þar sem flóð af hneykslismálum koma upp á yfirborðið og gömlu kerfin halda áfram að brotna niður.
Breski stjörnuspekingurinn Pam Gregory telur að mikilvægt sé fyrir okkur að marka okkur stefnu inn í árið, sem hjálpar okkur að halda fókus og þjálfar okkur í að halda innri friði, hvað sem á gengur í kringum okkur. Það kunna að verða mikil átök í heiminum, en með því að halda innri friði í okkur sjálfum, leggjum við mun meira til þess að draga úr átökunum, en ef við dettum inn í óttann.
Fyrstu viðbrögð okkar við ýmsu kunna að vera ótti, en á næsta augnabliki getum við valið að setja fókusinn á innri frið og senda frá okkur kærleiksríkar hugsanir. Innri friður og kærleiksríkar hugsanir hvers og eins eru bestu vopn okkar gegn átökum í heiminum – og í raun eina leiðin til að breyta honum.
2024 = Ár áttunnar
Samkvæmt talnaspeki er árið 2024 ÁTTU ár, því 2+2+4 eru átta. Talan átta er öflug og er táknræn fyrir almenna hagsæld og fjárhagslega velgengni. Þann 30. desember síðastliðinn breytti Júpiter um stefnu til að fara fram á við. Júpiter fylgir almennt þensla og útvíkkun á allan máta, svo því kunna að verða miklar breytingar og útþensla strax í upphafi árs.
Mikilvægt er þó að muna að ÁTTAN stendur ekki bara fyrir velgengni, því henni geta líka fylgt áskoranir og hindranir. Það er vegna þess að orkan í kringum töluna ÁTTA er sterk og mögnuð, og því getur reynt verulega á okkur að vinna úr henni.
Sé fjárhagsleg velgengni sett í forgangi, getur hún leitt til græðgi, sem aftur getur leitt til vandamála í samskiptum og útbruna (kulnunar) ef okkur tekst ekki að halda jafnvægi á milli vinnu og persónulega lífsins okkar.
Englaorkan í kringum ÁTTUNA er táknræn fyrir réttlæti, öfluga leiðtoga, velgengni og jafnvægi, en tengist líka karma, þannig að við komum til með að uppskera eins og við sáum. Við þurfum að læra að koma á jafnvægi milli þess að gefa og þiggja í lífi okkar – og muna eftir að sinna okkur sjálfum fyrst, áður en við sinnum öðrum.
Ár drekans
Þótt okkar áramót séu í kringum 31. desember og 1. janúar, hefst kínverska nýárið ekki fyrr en þann 10. febrúar 2024. Þá verða allar plánetur komnar á í stefnu fram á við um sporbaug sinn, svo það verður hraði á öllu.
Í Kína er litið á ár Drekans sem tákn fyrir keisaralegt vald og stjórnun. Kínverjar líta svo á að fólk sem fætt er á ári Drekans sé sjarmerandi, vel gefið, með öflugt sjálfstraust og almennt mjög heppið og hæfileikaríkt.
Í kristni er litið á drekann sem tákn hins illa, en í Austurlöndum er hann táknrænn fyrir ofurkrafta, visku, styrk og dulda þekkingu. Stundum er líka litið á drekann sem táknmynd óreiðu og ótaminnar náttúru. Hann er táknmynd um dýpi hins óþekkta í höfunum, tinda hæstu fjalla og skýin.
Hetjur berjast gjarnan við dreka til að ná yfirráðum landsvæða, en í gegnum tíðina hafa drekar gjarnan verið taldir verja fjársjóði. Hetjan þarf því að drepa drekann til að komast yfir fjársjóðina, hvort sem þeir eru efnislegs eða þekkingarlegs eðlis. Dráp drekans tengist baráttunni á milli ljóss (hins góða) og myrkurs (hins illa).
Ljós og myrkur
Baráttan stendur að mínu mati á milli LJÓSS OG MYRKURS og mun hugsanlega ná hápunkti sínum á þessu ári. Við þurfum að halda ljósinu og kærleikanum hátt á lofti og varast að sogast inn í óttann, því með honum nærum við hið illa.
Fleiri og fleiri andlega sinnaðir einstaklingar eru að finna fyrir drekaorkunni í náttúrunni og í kringum sig. Drekarnir eru á hárri tíðni og eru að birtast okkur betur núna þegar tíðnin er almennt að hækka í heiminum.
Drekarnir eru því tengdir orkunni sem hjálpar okkur að efla meðvitund okkar og auk næmið og innsæisvitundina. SMELLTU HÉR ef þú ert að leita eftir aðstoð við að auka næmi þitt.
Ef þér fannst þessi grein áhugaverð
deildu henni þá endilega með öðrum
Þér er velkomið að skrá þig á PÓSTLISTANN minn. Allir nýjir áskrifendur fá ókeypis netútgáfu af bók minn LEIÐ HJARTANS þegar þeir skrá sig.
Myndir: Shutterstock / Guðrún Bergmann