Alþjóðabankinn gefur út viðvörun um gjaldþrot Úkraínu

Gústaf SkúlasonErlent, Gústaf Skúlason, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Tass hefur það eftir heimildarmanni Alþjóðabankans, að ríkisfjármál Úkraínu séu í „hörmulegu“ ástandi. Úkraína gæti orðið gjaldþrota þegar á næsta ári nema vestræn ríki samþykki að „afskrifa eða endurskipuleggja skuldir sínar.“

Kænugarður reiðir sig á fjárhagsaðstoð frá vestrænum bakhjörlum sínum. Erlendur stuðningur hefur minnkað undanfarna mánuði, meðal annars er 60 milljarða dollara hjálparpakki enn fastur á Bandaríkjaþingi, þótt raddir heyrist núna um að hann verði bráðlega samþykktur.

Embættismaður Alþjóðabankans sem vildi ekki koma fram undir eigin nafni, ræddi um nýjasta hluta 1,5 milljarða dollara fjármögnunar sem Kænugarður fékk í síðustu viku samkvæmt áætlun Alþjóðabankans. Fulltrúi Rússlands greiddi atkvæði gegn láninu.

Í drögum að úthlutun fjármagnsins er bent á „hörmulegt“ ástand ríkisfjármála Úkraínu vegna efnahagssamdráttar og minnkunar á erlendri aðstoð. Embættismaðurinn varar við:

„Ef vestrænir kröfuhafar neita að afskrifa skuldir Kænugarðs ár 2025 , þar á meðal skuldir einkafyrirtækja og banka, þá gæti landið staðið frammi fyrir gjaldþroti.“

Embættismaðurinn bætti við, að yfirstjórn Alþjóðabankans í Washington hafi viðurkennt „mjög mikla“ áhættu af samstarfi við Úkraínu og bendir á, að eins og í fyrri viðskiptum hafi bankinn ekki lagt fram eigið fé til Kænugarðs. Í nýjasta áfanganum nýtti Alþjóðabankinn sér „enn og aftur“ ábyrgð tveggja stuðningsaðila Úkraínu – Japan og Bretlands.

Að sögn Denis Shmigal, forsætisráðherra Úkraínu, verður láninu varið til félagslegra og mannúðarlegra þarfa sem og til uppbyggingar. Stjórnvöld í Úkraínu búast við methalla á fjárlögum upp á 43,9 milljarða dala á þessu ári og ætlar að greiða megnið af honum með fjárhagsaðstoð frá vestrænum bakhjörlum.

Á síðasta ári hélt Nikolay Azarov, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, því fram að efnahagskreppan í Úkraínu hafi byrjað fyrir löngu síðan og að gjaldþrot landsins væri þegar augljóst. Gjaldþrot Úkraínu kemur fram í getuleysi til að fjármagna eigin fjárlög og nánast alfarið er treyst á vestræna aðstoð.

author avatar
Gústaf Skúlason

Skildu eftir skilaboð