Jón Magnússon skrifar:
Í Kóvíd faraldrinum beittu ríkisstjórnir mismunandi úrræðum. Svíþjóð þrengdi ekki að frelsi borgaranna á meðan aðrar þjóðir settu fólk í stofufangelsi og skertu ferðafrelsi. Bólusetningum var neytt upp á ýmsa með því að hóta þeim starfsmissi og útiloka óbólusetta frá því að ferðast eða njóta þjónustu á veitingahúsum eða í verslunum.
Hvað sem fólki finnst um þær ráðstafanir sem gripið var til, þá var það á valdi þjóðríkja að taka eigin ákvarðanir.
Við höfum í meira en 100 ár staðið fast á stjórnskipulegum rétti þjóðarinnar til að taka ákvarðanir á grundvelli eigin laga og ákvarðana íslenskra stjórnvalda. Því miður hvika íslensk stjórnvöld með því að ætla að fá samþykkt að gerðir Evrópusambandsins gildi framar íslenskum lögum.
Samningaviðræður við Alþjóða heilbrigðisstofnunina(WHO)standa yfir um viðbrögð við heilsuvandamálum í framtíðinni. Margir eru uggandi um, að með samningum við WHO, samþykki Ísland, að færa ákvarðanatöku frá kjörnum fulltrúum Íslands, til WHO.
Fyrir nokkru skrifaði Esther McVey þingmaður og ráðherra grein í Daily Telegraph, þar sem hún sagði að samráðherrar hennar og hún mundu aldrei gefa WHO ákvörðunarvald um aðgerðir í heilbrigðismálum í Bretlandi eða samþykkja að skerða fullveldi þjóðarinnar eða möguleika á að taka eigin ákvarðanir m.a. um hvort beita eigi stofufangelsi, bólusetningum, grímuskyldu eða ferðafrelsi innanlands eða inn eða úr landi.
Hún segir að því fari fjarri að fullveldi þjóðarinnar verði falið WHO og breska ríkisstjórnin vilji fullvissa bresku þjóðina um að það séu eingöngu kjörnir fulltrúar hennar, sem muni ákveða til hvaða ráðstafana verði gripið í Bretlandi þegar bregðast þurfi við sjúkdómum og farsóttum.
Af gefnu tilefni er nauðsyn, að heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn Íslands gefi ótvíræða yfirlýsingu með sama hætti og breski ráðherrann, að ekki komi til greina að fordjarfa fullveldi þjóðarinnar hvað varðar ákvarðanir í heilbrigðismálum eða fela WHO þær að einhverju leyti. Það verði hér eftir sem hingað til á valdi íslenskra þingmanna og ríkisstjórnar að ákveða til hvaða aðgerða verði gripið.
Ekkert minna dugar en ótvíræð yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands um þetta efni með sama hætti og yfirlýsing breska ráðherrans.
Við megum ekki gangast undir ok yfirþjóðlegs valds að neinu leyti og fela erlendum þjóðum eða fjölþjóðlegum stofnunum vald, sem að íslenskir þingmenn og ríkisstjórn eiga að fara með.