Jón Magnússon skrifar:
Eitt af áhugamálum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra er að sett verði lög um hatursorðræðu. Katrín hefur í því efni eins og öðrum átt hugmyndafræðilega samstöðu með vinstri woke stjórnmálamönnum eins og Jacinda Ardern á Nýja Sjálandi, Pierre Trudeau í Kanada og Nicole Sturgeon í Skotlandi.
Þær Jacinda og Nicole hafa hrökklast frá völdum, en 1. apríl, tóku gildi lög um hatursorðræðu, sem Stugeon kom í gegn meðan hún var fyrsti ráðherra Skotlands. Hún var þar á undan Katrínu en Katrín var á undan Sturgeon að fá samþykkt vitlausustu lög í veröldinni um kynrænt sjálfræði. Þó lög Sturgeon um það væru skárri þá var samstaða í Bretlandi, að þau væru svo galin, að nauðsyn bæri til að ógilda lagasetninguna, sem var og gert.
En nú eru það hatursorðræðu lögin hennar Sturgeon, sem að Katrín vill líka koma á hér á landi.
Skv. upplýsingum frá lögreglu í Skotlandi eiga hatursorðræðulögin m.a. að ná til sviðslistamanna þess vegna grínista ef það sem þeir segja gæti orðið til að ýta undi „hatur“. Lögin mæla fyrir um 7 ára fangelsi fyrir að segja, skrifa eða dreifa ummælum sem gætu orðið til að ýta undir hatur gegn vernduðum hópum eins og kynþáttum, trúarbrögðum eða kynskiptingum svo dæmi séu nefnd. Ekki skiptir máli hvar ummælin eru látin falla. Umræður við eldhúsborðið heima gætu því leitt til handtöku og ákæru. Lögin eru til þess fallin að drepa niður umræðu og koma í veg fyrir að eðlilegt grín verði á boðstólum í landi rétttrúnaðarins, hvað þá að segja megi sannleikann um transaðgerðir og Múhameðstrú, þar sem þeir sem telja sig eiga rétt á að móðgast yfir öllu sem um þá er sagt geta þá leitast við að koma þeim sem bera sannleikanum vitni bak við lás og slá.
Rætt hefur verið um að J.K. Rawlings höfundur Harry Potter bókanna yrði sú fyrsta til að þola ákæru fyrir að segja satt um líffræðilegar staðreyndir eins og að það séu karlmenn sem hafi tippi og konur sem fari á túr. Kynskiptir karlar séu ekki konur heldur karlar o.s.frv.
J.K. Rawlings er hvergi bangin og birti færslu þar sem hún gerði botnlaust grín að lögunum og er greinilega tilbúinn til að taka upp baráttuna gegn KGB/Stasi hugmyndafræði Sturgeon og Katrínar Jakobs.
Skoska lögreglan mun hafa nóg að gera á næstunni með að elta uppi fólk, sem hefur sagt sannleikann þannig að einhver móðgaðist og líkamsárásir, þjófnaðir og önnur óverðugri brot verða þá að bíða þess að lögreglan hafi tíma til að sinna þeim, sem sennilega aldrei verður í landi rétt málsins eða right speak eins og George Orwell nefndi það í bók sinni 1984 um ofurríkið sem fylgdist með öllu sem fólk gerði.
Einn dálkahöfundur orðaði það svo í blaðagrein að nú sé svo komið að ef einhver ætli að tjá skoðanir sínar í samræmi við stjórnarskrárvarinn rétt sinn væri líklegt að hann yrði rekinn úr starfi og fangelsaður.
Við þurfum að vera á varðbergi gagnvart woke stjórnmálafólki, sem virðist hafa þann metnað að kollvarpa borgaralegu samfélagi eðlilegra umgengnishátta þar sem umburðarlyndið, tjáningarfrelsið og húmorinn hefur meira gildi en illskan, hefndin og rétttrúnaðurinn svo ekki sé talað um "right speak."
One Comment on “Tjáningarfrelsi og hatursorðræða”
„Newspeak“ vs the right to speak.