Eftir vinsæla undirskriftasöfnun mun Sviss halda þjóðaratkvæðagreiðslu um að takmarka fjölda innflytjenda til landsins. Svissneski Alþýðuflokkurinn, sem gagnrýnir harðlega hömlulausan fólksinnflutning, stendur á bak við framtakið. Að mati flokksins er nauðsynlegt að draga úr fjölda innflytjenda til að vernda velmegun landsins.
114.600 undirskriftir á 9 mánuðum
Beint lýðræði lifir og dafnar í Sviss. Ef 100.000 undirskriftir safnast á 18 mánuðum er hægt að fara með mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Núna verður og kosið um stefnu í innflytjendamálum. Svissneska Alþýðuflokknum (SVP) tókst að safna 114.600 undirskriftum á aðeins níu mánuðum. France24 greinir frá.
Nafnalistinn var afhentur á sambandsskrifstofunni í Bern á miðvikudag. Er listinn skýr ósk um að fólkið vilji hafa sitt að segja varðandi framtíð landsins. Í tengslum við undirskriftasöfnunina sagði SVP að hömlulaus fólksinnflutningur hafi haft „hrikalegar afleiðingar“ og að þjóðaratkvæðagreiðslan sé nauðsynleg til að hægt verði að vernda „há lífsgæði og velmegun landsins.“ Flokkurinn telur að færri innflytjendur tryggi „frjálsa framtíð fyrir okkur og börnin okkar.“
Harða deildin
Flokksleiðtoginn Marcel Dettling, sem samkvæmt France24 tilheyrir „hörðu deildinni“ og hefur verið bóndi, segir að allt of margir útlendingar séu að koma inn í landið – „og ekki þeir réttu.“ Hann segir enn fremur, að Sviss þurfi að hafa stjórn á fjölda innflytjenda svo fólksinnflutningurinn verði landinu og íbúunum til góða.
Núna verður farið yfir innsendar undirskriftir og þær staðfestar en allt að ár gæti liðið, þar til þjóðaratkvæðagreiðsla getur farið fram. Svisslendingar munu meðal annars kjósa um að íbúafjöldinn megi ekki fara yfir 10 milljónir manns fyrir árið 2050. Í dag búa um 8,54 milljónir manna í landinu.