Kínverskir vísindamenn segja Levi´s gallabuxur ógna loftslaginu

Gústaf SkúlasonErlent, Gústaf Skúlason, LoftslagsmálLeave a Comment

Vísindamenn frá tækniháskólanum í Guangdong í Kína hafa greint lífsferil Levi’s gallabuxna, allt frá ræktun bómullarinnar þar til þeim er fargað. Niðurstaðan var sú að gallabuxur eru stórhættulegar loftslaginu og verður að merkja sem koltvísýringslosandi.

Rannsóknin leiddi í ljós að sumar gallabuxur eru aðeins notaðar sjö sinnum sem setur þær í flokkinn „fast fashion“ eða hraðtíska. Slíkar gallabuxur eru langtum hættulegri en þær sem oftar eru notaðar. Hraðtísku gallabuxur  framleiða nefnilega ellefu sinnum meira CO2 en þær gallabuxur sem tolla lengur í tískunni. Dr. Ya Zhou, aðalhöfundur rannsóknarinnar, telur að gallabuxur hafi veruleg áhrif á umhverfið.

Rannsakendurnir komust að því, að gallabuxur sem flokkast sem hraðtíska hafa 95-99% meira kolefnisfótspor en hefðbundnar gallabuxur sem notaðar eru að meðaltali 120 sinnum. Helsti munurinn á þessum tveimur neyslustílum er, að hraðtískuföt eru flutt hraðar og notuð sjaldnar áður en þeim er hent. Dr Ya Zhou segir við Daily Mail:

„Breyttir tískustraumar gera það að verkum, að fólk kaupir föt oftar og klæðist þeim í stuttan tíma til að fylgjast með nýjustu straumum. Slík ofneysla hefur leitt til verulegrar aukningar á auðlinda- og orkunotkun í fataiðnaðinum í því skyni að flýta fyrir allri birgðakeðju fatnaðar. Með framleiðslu, flutningum, neyslu og úrgangsstjórnunarferlum aukast áhrif fataiðnaðarins á loftslagsbreytingar.

Þvo, þurrka og strauja

Vísindamennirnir áætla að gallabuxur framleiddar fyrir hefðbundinn tískumarkað framleiði 0,22 kg af CO2. Það er hærra en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Rannsakendur telja að gallabuxur séu notaðar sjaldnar og þvegnar oftar en áður var talið. Af heildar kolefnisfótsporinu koma 48% frá þvotti, þurrkun og pressun gallabuxna eftir kaup.

Jafnframt áætla rannsakendur að gallabuxur sem eru aðeins notaðar sjö sinnum framleiði að meðaltali 2,5 kg af CO2 í hvert skipti, jafnvel þó lítil orka fari í þvott og þurrkun þeirra á lífsleiðinni.

Ólíkt hefðbundinni tísku kemur mikill meirihluti útblásturs í hraðtísku frá framleiðslu gallabuxna og trefja, sem eru 70% af heildarlosun. Losunin sem eftir er verður að miklu leyti til við flutning gallabuxna frá verksmiðjum til neytenda, sem er 21% af heildarlosuninni.

Skildu eftir skilaboð