Vatíkanið segir í fréttatilkynningu að það hafi birt skjalið „Dignitas ifinita” (Óendanleg reisn) sem tók fimm ár að gera. Tilgangur skjalsins er að leggja áherslu á guðlega reisn einstaklingsins og hvernig Guð hefur gefið manninum bæði líkama og sál. Í skjalinu er harðri gagnrýni beint gegn kynjafræði (sem byggir á því að kyn sé félagsleg smíði sem er í stöðugri breytingu og hægt er að laga að einstaklingnum) og kynleiðréttingu.
Kynjafræði – „hugmyndafræðilegt landnám“
Kynjafræðin er kölluð „hugmyndafræðilegt landnám“ því hún smeygir sér alls staðar inn og er notuð af margs konar stofnunum. Kynjafræðin er sögð afar skaðleg, því með henni er reynt að eyða mismun kynjanna til að ná fram jafnrétti.
Kynjahugmyndafræðin reynir að þurrka út muninn á körlum og konum en kirkjan bendir á, að það sé einmitt munurinn sem gerir það að verkum að karlar og konur bæta hvert annað upp. Einungis með því að viðurkenna þennan mun getur einstaklingurinn fundið sína raunverulegu sjálfsmynd, samkvæmt skjalinu. Frans páfi sagði í mars, að kynjahugmyndafræðin væri „ógeðfelldasta hætta nútímans.”
Um kynleiðréttingu – líkami og sál eru samtengd
Varðandi kynleiðréttingu segir í skjalinu, að mannslíkaminn sé engu minna mikilvægur en mannleg reisn og persónuleg sjálfsmynd. Það getur því skaðað raunverulegt eðli einstaklings að gangast undir kynleiðréttingu vegna þess að líkami og sál eru samtvinnuð frá myndun lífs hins ófædda barns. Í skjalinu segir enn fremur:
„Barn er alltaf gjöf og aldrei grundvöllur viðskiptasamninga. Hvert mannslíf sem byrjar á lífi ófædds barns í móðurkviði er ekki hægt að bæla niður né breyta í verslunarvöru.“
Kirkjan snýst því alfarið gegn þeim kynjabreytingum sem gerðar eru á handahófskenndum forsendum, oftast meðal ungs fólks. Kirkjan setur sig hins vegar ekki gegn því, að einstaklingur sem þjáist af líffræðilegum „kynfærafrávikum“ geti farið í læknismeðferð, án þess að það teljist kynbreyting í augum kirkjunnar.
3 Comments on “Vatíkanið segir trans-skurðaðgerðir og staðgöngumæður ógn við sköpunarverk Guðs”
Kynjabreyting er ekkert annað en geðveiki og ætti að flokka sem slíka, en ekki að samþykkja slíka klikkun mannshugans.
“líkami og sál eru samtvinnuð frá fæðingu”
Reyndar frá getnaði.
Rétt athugað Páll. Ég leiðrétti til samræmis við texta skjalsins „líkami og sál eru samtvinnuð frá myndun lífs hins ófædda barns.”