Hryðjuverk og hlutleysis-ismi

frettinErlent, Íris ErlingsdóttirLeave a Comment

Íris Erlingsdóttir skrifar:

Fátítt er nú á dögum að finna í fjölmiðlum ritstjórnargreinar – skoðanir frá ritstjórn fjölmiðilsins – sem eru jafn hlutdrægar og „fréttir” þeirra. Á tímum dagblaða voru fréttir skýrlega aðskildar frá ritstjórnar- og skoðanagreinum, en nú skortir „fréttamenn” vilja eða/og getu til að gera greinarmun á fréttum og skoðunum. Það kemur því ekki á óvart að lesendur skuli ekki þekkja muninn. Þessi almenni skortur á rökhugsun, að geta ekki gert greinarmun á skoðun: „Barnið er fallegt” og staðreynd: „Barnið er karlkyns,” er áhyggjuefni. 

Lesanda greinar um átök Ísraels og hryðjuverkahópsins Hamas gramdist að ég skyldi ekki hafa verið „hlutlaus” og tiltekið „öll sjónarmið.” Ég benti á að atburðirnir (staðreyndir) sem greinin tilgreindi – Sex daga stríðið 1967; Hryðjuverkastríð Arafats árið 2000“; sjálfsmorðssprengjuherferðir í kjölfar Óslóarsamkomulagsins 1993; niðurrif ísraelskra landnemabyggða á Gaza árið 2005 – væru allir vel skjalfestir og auðvelt væri að finna upplýsingarnar. 

En fyrst og fremst væri greinin hvorki ritgerð né frétt heldur skoðanagrein, svo mér væri hvorki skylt að gæta hlutleysis né veita öll sjónarmið um málið. Skoðanaskrif eru skoðanir höfundar á atburðum og staðreyndum eins og höfundurinn sér þær.

Umfram tilvísanir til eigin yfirlýsinga Hamas er mér ekki skylt að tala fyrir múg morðóðra níðinga. 

Ég skil ekki hvernig nokkur heilvita manneskja getur ekki verið hlutdræg varðandi átök milli eina lýðræðis Arabaheims og hryðjuverkasamtaka. Hamas er ekki aðeins „yfirlýstur hryðjuverkahópur“ á Vesturlöndum; allar Arabaþjóðir (nema Quatar) fyrirlíta Hamas; sumar hafa bannað samtökin. Ástæðan fyrir því að Arabaríkin neita að taka á móti flóttafólki frá Gaza, ekki einu sinni tímabundið, er vegna þess að þau vilja ekki hryðjuverkasamtök starfandi innan landamæra sinna.

Við munum ekki útvega örugg svæði fyrir Palestínuaraba...“ 

Sameh Shoukry, utanríkisráðherra Egyptalands

„Við erum tilbúin að fórna milljónum mannslífa til að vernda landsvæði okkar...“ 

Mostafa Madbouly, forsætisráðherra Egyptalands

„Enginn flóttamaður í Jórdaníu, engir flóttamenn í Egyptalandi.” 

Abdullah, konungur Jórdaníu

Hamas „ógnar öryggi, stöðugleika og fullveldi Jórdaníu. 

Fyrrv. forsætisráðherra Jórdaníu, A. al-Rawabdeh

Arabaríkin eru líka þreytt á þvermóðsku Palestínuaraba varðandi samninga við Ísrael.

Samstaða [Arabaþjóða varðandi Palestínu]... er að viðurkenna Ísrael og við viljum viðræður [við Ísrael], en Hamas vill ekki hætta stuðningi við ofbeldi...“ Sameh Shoukry, utanríkisráðherra Egyptalands

Vestrænir borgarar heyra ekki þessi sjónarmið. Þá sjaldan við heyrum frá arabískum fjölmiðlum er það frá pró-Hamas Al Jeezera, ekki frá fréttaskýrendum eins og Ali al Nuaimi, formanni varnarmála Sameinuðu arabísku furstadæmanna: “Vestrænir fjölmiðlar tala um Gaza eins og það sé hernumið af Ísraelsmönnum. Það er rangt. Það er hernumið af Hamas... Palestínuarabar í Gaza þjást vegna Hamas, ekki Ísraels.“ 

Eða egypski fréttamaðurinn Mazher Shahin: Við munum “ekki fórna einum… egypskum hermanni eða óbreyttum borgara fyrir … Hamas [sem] hvetur fólk til  hryðjuverka og ofbeldis, undir formerkjum „heilags stríðs,“ á meðan þeir dekra við sig sjálfa… [á] nektarströndum og lúxushótelum, giftast fjórum eiginkonum og keyra nýjustu gerðir lúxusbíla ... Hvers konar menn eruð þið?... Fólki finnst þið viðbjóðslegir. Farið til fjandans. Okkur verður óglatt í návist ykkar. Allur heimurinn fer til helvítis ykkar vegna!"

Skrílslæti vestrænna borgara og heybrókarháttur leiðtoga Vesturlanda til stuðnings hryðjuverkasamtökum, sem hafa staðið fyrir herferð ofbeldis og árása á eina lýðræði Arabaheims og framið voðaverk gegn borgurum þess  – sem og eigin samlöndum – bera vott um sjúkræðislegan öfuguggahátt sem ætti að vera áhyggjuefni öllum lýðræðislega þenkjandi borgurum.  

Höfundur er fjölmiðlafræðingur

Skildu eftir skilaboð