Eftir hið hrottalega morð í Skärholmen hafa stjórnmálamenn í Svíþjóð keppt hver við annan í kröftugum yfirlýsingum í fjölmiðlum. Nokkrir þeirra fóru meira að segja í pílagrímsför á morðstaðinn til að sýna sig. Íbúarnir á svæðinu kippa ser ekki upp við slíkar sýningar á stjórnmálamönnum og segja, að ekkert sé lengur takandi mark á orðum þeirra. Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrataflokksins, lýsir fyrirlitningu á hræsni stjórnmálamanna.
Hinn 39 ára gamli Mikael Janicki var myrtur fyrir framan 12 ára son sinn í Skärholmen í suðurhluta Stokkhólms. Hann stóð frammi fyrir unglingahóp og einn í hópnum dró upp skotvopn og skaut hann með köldu blóði í höfuðið.
Eftir morðið flykktust stjórnmálamenn á morðstaðinn og töluðu um að farið hafi verið út fyrir „takmörk.“ Jafnframt lásu þeir upp loforð um breytingar samkvæmt venju. Aðstandendum hins myrta finnst ekki mikið til koma um þessa fjölmiðlasýningu stjórnmálamannanna. Ljóst er, að eina ástæðan fyrir því að stjórnmálamennirnir fara á morðstaðinn er til að láta sjá sig fyrir framan myndavélar fjölmiðla og vonast eftir viðtali. Það kom skýrt í ljós, þegar systir Mikaels stóð frammi fyrir flokksformanni jafnaðarmanna, Magdalenu Andersson, sem hrökklaðist undan gagnrýni systur hins myrta.
Láta sjá sig og stilla sér upp – síðan gerist nákvæmlega ekki neitt
Jimmie Åkesson, flokksleiðtogi Svíþjóðardemókrata, gefur lítið fyrir sýndarmennsku stjórnmálamannanna. Að hans sögn snýst þetta bara um að þeir vilji sjást og gefa út yfirlýsingar í fjölmiðlum um „að þeir muni grípa til aðgerða“ segir í frétt Aftonbladet. Sjálfur hefur hann sagt að það þurfi að berjast við glæpaklíkurnar með öllum ráðum eins og sænska hernum. Åkesson segir:
„Það er alltaf eitthvað að gerast og þá fáum við viðbrögð frá mismunandi stjórnmálaflokkum. Fólk fer til Skärholmen og póserar. En svo gerist ekki mikið meira.“
Gera þarf auðveldara að reka fólk úr landi
Åkesson hefur talað fyrir því, að Svíþjóð eigi ekki að fylgja ákveðnum alþjóðlegum sáttmálum, til að geta barist gegn glæpaklíkunum á áhrifaríkan hátt. Åkesson við Aftonbladet:
„Til dæmis má nefna Flóttamannasamkomulagið sem eitt slíkt, sem gæti staðið í vegi fyrir því að hægt sé að vísa því fólki úr landi, sem við viljum ekki hafa í Svíþjóð.“
One Comment on “Mikil reiði í Svíþjóð vegna morðsins á Mikael Janicki”
Svíar fara bráðum að bretta upp á ermarnar,þegar þeim loks verður ljóst að góðmennskan er ekkert grín.