Þann 4. júní munu bændur alls staðar að úr Evrópu koma saman í Brussel í miklum mótmælum. Núna tilkynna búlgörsku bændurnir, að þeir muni einnig taka þátt í mótmælunum sem verða aðeins nokkrum dögum fyrir kosningarnar til ESB-þingsins. Bændurnir hafa margar kröfur, ein þeirra er að lög ESB um endurheimtingu náttúrunnar verði endurskoðuð.
Við munum líklega fá að sjá stærstu bændamótmælin til þessa en bændur alls staðar að úr Evrópu hafa skipulagt sameiginleg mótmæli þann 4. júní. Euractiv skrifar að mótmælin hafi verið ákveðin á fundi 9.-10. apríl, þegar fulltrúar nokkurra bændasamtaka hittust.
Bændur frá Þýskalandi, Belgíu, Hollandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Ungverjalandi og Póllandi hafa þegar tilkynnt þátttöku 4. júní og í gær var greint frá því að búlgarskir bændur mættu einnig til leiks. Mótmælin verða eins nálægt Evrópuþinginu í Brussel og mögulegt er.
Mikill stuðningur við bændur í Búlgaríu
Í Búlgaríu er mikill stuðningur við bændamótmælin og er málið oft tekið upp á þingi landsins. Boyko Borissov, leiðtogi íhaldsflokksins GERB, hefur ítrekað gagnrýnt ESB og telur reglur sambandsins eyðileggja landbúnaðinn og lífsafkomu bænda.
Stjórnmálamaðurinn kallar eftir „endurskoðun á stuðningskerfi landbúnaðarins í ESB“ og segir óviðunandi að bóndi sem hann ræddi við segi honum að hann sé neyddur til að selja afurðir sínar ódýrara en það kostar að framleiða þær. Borissov sagði:
„Minni skrifræði, einfaldari og hraðari málsmeðferð, meiri áhersla á lítil og meðalstór fyrirtæki, sem eru burðarás markaðshagkerfisins. Fyrirtæki verða að hafa frelsi til að geta þróast og skapa ný störf.“