Friðarbandalagið mótmælir aðild Svía að Nató

Gústaf SkúlasonErlent, Gústaf Skúlason, NATÓLeave a Comment

Í ekta „íslensku“ hávaðaroki og rigningu var aðild Svíþjóðar að Nató mótmælt í Stokkhólmi og á nokkrum öðrum stöðum í Svíþjóð. Varnarsamningur Svíþjóðar og Bandaríkjanna verður staðfestur í „Riksdagen“ sem er alþingi Svía þann 18. júní, daginn eftir þjóðhátíðardag Íslendinga. Mörgum Svíum er brugðið, því engar umræður hafa farið fram um málið svo heitið getur. Svíar sem hafa verið hlutlausir í mörg ár og státa sig af heimsmeti í friði í meira en 200 ár eru allt í einu orðnir virkir meðlimir í hernaðarbandalagi sem Bandaríkin leiða. Margir Svíar eru hins vegar yfir sig hrifnir, ríkisstjórn hægri manna slær sér fyrir brjóst, að það kom í hlut þeirra en ekki „óvinarins“ sósíaldemókratanna, að taka Svíþjóð inn í hernaðarbandalagið.

Varnarsamningur Svía og Bandaríkjanna einhliða fyrir hag Bandaríkjanna

Rithöfundurinn og samfélagsrýnirinn Jan Guillo skrifaði grein, þar sem hann sagði Svíþjóð hafa lagst á hnén frammi fyrir Bandaríkjunum og afhent þeim fullveldið í varnarmálum. Segir hann sænsk varnarmál núna eingöngu snúast um að framfylgja tilmælum Bandaríkjahers. Gagnrýnir hann, að varnarsamningurinn sé einhliða og gæti einungis hagsmuna Bandaríkjamanna á meðan Svíar sitja á hakanum. Hann skrifar:

„Þessi sænska undirgefni við stórveldi er ekki algjörlega sögulega einstök. En það þarf að fara aftur til seinni hluta 18. aldar til að finna eitthvað svipað. Þá voru það Rússar sem réðu utanríkisstefnu Svíþjóðar um tíma.“

„Þessi nýja uppgjöf er hins vegar valfrjáls og hefur ekkert með Nató að gera, samningurinn gildir bara á milli Bandaríkjanna og Svíþjóðar. Í haust kann að koma í ljós að ríkisstjórn Kristersson hefur sett varnarlið Svíþjóðar í hendur Donald Trump forseta, jafnvel þótt hann dragi Bandaríkin úr Nató.“

Friðarbandalagið mótmælir

Friðarbandalagið efndi til mótmælafunda gegn aðild Svía að Nató og vill að þingið hætti við að samþykkja  varnarsamninginn. Einnig vilja mótmælendur fá það skriflega staðfest að Svíþjóð verði ekki notað til að geyma kjarnorkuvopn. Svíþjóð á að vinna að friði og senda friðarsemjendur í staðinn fyrir að styðja stríð og senda vopn til átaksvæða.

Friðarbandalagið eru þverpólitísk samtök þvert á flokkslega hagsmuni með frið á stefnuskránni í staðinn fyrir stríð. Bandalagið lýsir yfir því markmiði að vernda fullveldi Svíþjóðar. Margt þekktra einstaklinga eru meðlimir í samtökunum og meðal ræðumanna voru Lars Drake, Ulf Sandmark frá sænsku deild Schiller-stofnunarinnar, Jan-Erik Gustafsson, dósent á Konunglega tækniháskólanum og fyrrum formaður Nei við ESB,  Roger Richtoff fv. þingmaður, tveir flokksleiðtogar utanþings smáflokka m.fl.

Þrátt fyrir rok og rigningu komu hundruð mótmælenda til göngu og fundar. Gengið var frá Slussen, fram hjá konungshöllinni að Gustaf Adolfs torg, þar sem tónlist og söngur blandaðist ræðuhöldunum.

 

Skildu eftir skilaboð