Mætti biðja um hugmyndafræði í stjórnmálaumræðuna?

frettinGeir Ágústsson, Innlent, Stjórnmál1 Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Stjórnmálaumræðan á Íslandi, og raunar víðar, er svo innantóm að maður hreinlega veltir því fyrir sér hvers konar fólk kjósendur eru að moka undir. Þeir sem ræða hugmyndafræði eru hreinsaðir út í prófkjörum og uppstillinganefndum. Þeir sem boða allt fyrir alla raðast efst á lista. Kjósendur hafna svo þeim örfáu sem lifðu af hreinsanir flokka sinna. Undantekningar teljast á fingrum annarrar handar.

Reyndar eru ekki allir flokkar með hugmyndafræði en það er önnur saga.

Núna les ég um að einhver þingmaður kunni ekki að para saman sokka og mæti engu að síður í vinnuna. Getur það orðið eitthvað innantómara?

Í Argentínu var nýlega kjörinn í embætti forseta sem talaði ekki um neitt annað en hugmyndafræði: Yfirlýstur frjálshyggjumaður sem sagði berum orðum að ráðuneytum þyrfti að fækka, báknið þyrfti að minnka og hagkerfið þyrfti að fara í gegnum erfiða skurðaðgerð til að ná heilsu sinni. Hann hefur staðið við orð sín og þrátt fyrir mótmæli, ákærur og hindranir tekist að halda í vinsældir sínir meðal almennings.

Eru stjórnmálamenn að fylgjast með?

Eru þeir að sjá að kjósendur eru víða orðnir dauðþreyttir á orðagjálfrinu og vilja einstaklinga með hugmyndafræði, sterkar skoðanir og bein í nefinu, úr stáli? Bein sem þolir högg blaðamanna, þrýstihópa og prófessora?

Hér er í raun um að ræða mjög nothæfa og skilvirka aðferðafræði í kosningabaráttu sem flestir þora samt ekki að tileinka sér. Því miður.

Ég vil sérstaklega beina orðum mínum að flokksbundnum Sjálfstæðismönnum hérna og biðja þá um að hætta að hreinsa út fólk í prófkjörum sem í raun og veru er hlynnt hugmyndafræði flokksins.

Aðrir flokkar mættu gjarnan gera slíkt hið sama. Þá geta stjórnmál á ný farið að snúast um hugmyndafræðileg átök en ekki bara hver getur tæmt veski skattgreiðenda hraðast, og skuldsett þá í kjölfarið.

One Comment on “Mætti biðja um hugmyndafræði í stjórnmálaumræðuna?”

Skildu eftir skilaboð