Kristrún gegn óreiðu – miðjan til hægri

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson, StjórnmálLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Til að verða stjórntæk varð Samfylking að segja skilið við óreiðuvinstrið, opin landamæri og ESB-aðild. Kristrún formaður með fulltingi flokkseigendafélags Samfylkingar fór í verkefnið, færði flokkinn inn á miðjuna, veiðislóð Framsóknarflokksins, sem finnst sér ógnað.

Kristrún er orðin svo örugg með að almenningur setji ekki jafnaðarmerki milli upplausnar og Samfylkingar að hún kennir sitjandi ríkisstjórn við óreiðu. Nokkuð djarft hjá fyrrum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í skólanefnd Garðabæjar, - en þeir fiska sem róa.

Framsókn gætir sín að vera alltaf stjórntæk, hvort heldur til hægri og vinstri. Táknmál Framsóknar í dag er kletturinn í hafinu. Við síðustu kosningar hét það: er ekki best að kjósa Framsókn? Kímni víkur fyrir alvöru. Stöðumælingar leyfa ekki léttúð.

Undirstraumar þjóðlífsins eru seigfljótandi en aldrei kyrrir. Miðjan er ekki þar sem hún áður var.

Samræmd gagnrýni Sigurðar Inga og Lilju Alfreðs á Samfylkingu er skiljanleg í ljósi velgengni krata í fylgismælingum. Framsókn vill verða fyrsti kostur Sjálfstæðisflokksins til stjórnarmyndunar eftir næstu kosningar. Samt sem áður; fylgi Samfylkingar og Framsóknar skarast lítt. Þar gilda sögulegar ástæður. Sniðmengi fylgis Framsóknar og Sjálfstæðisflokks annars vegar og hins vegar Miðflokksins er mun stærra. Skiljanlega gagnrýna oddvitar Framsóknarflokkinn samstarfsflokk í ríkisstjórn. Þó nú væri. En Miðflokkurinn fær engar sneiðar.

Þögn Sigurðar Inga og Lilju um fyrrum formann sinn, Sigmund Davíð, sem nú leiðir Miðflokkinn, má skilja á þann veg að forysta Framsóknar vill gott stjórnmálasamband lengra til hægri. Samfylking hertekur miðjuna og mótleikur Framsóknar verður til hægri.

Vandi Kristrúnar er sumpart áþekkur Framsóknar. Til vinstri við Samfylkinguna er eyðimörk eftir brotthvarf Katrínar Jakobs. Píratar, Viðreisn og Vinstri grænir eiga hvorki stefnu né fylgi til að mynda vinstristjórn með Samfylkingu. Á meðan Samfylking mælist um og yfir 25 prósent getur Kristrún látið eins og hún sé í ökumannssætinu, aðrir komi til hennar en hún ekki til þeirra. Er slær í bakseglin, sem er nánast óhjákvæmilegt, verður Kristrún að skerpa sig til hægri og slíta sig enn frekar frá óreiðunni til vinstri.

Til hægri í íslenskum stjórnmálum eru fyrir einn og hálfur flokkur. Miðflokkurinn er sá heili. Falla nú öll vötn til Dýrafjarðar.

Skildu eftir skilaboð