Þegar meirihlutinn ræður

frettinGeir Ágústsson, InnlentLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Ég man vel eftir mörgum atriðum frá grunnskólaárum mínum, þar á meðal frímínútunum. Hvernig átti að eyða þeim? Í fótbolta? Körfubolta? Brennibolta? Að reyna komast upp með að fara ekki út og hætta á að verða sendur til yfirkennarans ef gangavörðurinn næði manni?

Yfirleitt var það meirihlutinn sem réð og aðrir tóku þátt til að hafa eitthvað fyrir stafni. Þetta var samt ekki algilt. Sumir völdu að gera eitthvað annað en meirihlutinn og það var auðvitað bara allt í lagi. Það er fínt að fylgja meirihlutanum því það er gaman saman og það allt, en enginn gat þvingað mann í leikinn.

Þegar árin líða og maður fer á milli skólastiga myndast ný samsetning af fólki, nýr meirihluti, t.d. í gegnum kosningar til nemendafélaga sem ákveða hvar eigi að fara í útskriftarferð og hvenær á að halda árshátíð. Þeir sem vilja geta verið með meirihlutanum eða sleppt því og gert eitthvað upp á eigin spýtur eða minni hópum.

En svo kemur að því að maður fær að kjósa. Lýðræði er kannski hægt að skilgreina sem fyrirkomulag þar sem meirihlutinn ræður. Munurinn er samt sá að meirihlutinn ræður í raun og veru og ræður öllu sem hann vill ráða. Hann ræður yfir minnihlutanum. Sé einhverju stjórnað af hinu opinbera þá er það undir stjórn meirihlutans og möguleikinn til að velja aðra leið tekinn úr sambandi.

Flestir eru sennilega hlynntir því að það eigi bara að gilda ein lög, vera ein lögregla, einn æðsti dómstóll og þess háttar. Sama óskilvirka ringulreiðin þarf að gilda jafnt fyrir alla, ekki satt? En hvað með byggingareglugerð? Þar er greinilega eitthvað að og húsum skilað til kaupenda fullum af rakaskemmdum og myglusveppum. Af hverju er ríkisvaldið hérna að láta eitt yfir alla ganga þegar er augljóslega hægt að gera betur? Og hvað með hæfniskröfur til að fá að kalla sig sálfræðing? Hérna stuðlar ríkisvaldið að skorti og biðlistum. Nú eða regluverkið í kringum framleiðslu á malbiki. Hið opinbera hefur hér verið iðið við að taka gamlar og góðar uppskriftir, henda þeim í ruslið og innleiða aðrar og verri.

Svona mætti lengi telja. Um leið og hið opinbera treður einhverju undir sinn hatt, hvort sem það er með beinu eða óbeinu eignarhaldi, í formi löggjafar og regluverks eða kröfu um að sækja um og fá leyfi til að mega hefjast handa þá er það að segja að meirihlutinn ráði. Þeir sem eru á annarri skoðun þurfa að hlýða meirihlutanum, sama hvað.

Ég er feginn að það var ekki lýðræði á skólalóðinni. Það stuðlaði að sérhæfingu og fjölbreytni. Kannski hið opinbera leyfi dag einn slíkum jarðvegi að næra samfélagið í heild sinni.

Skildu eftir skilaboð