Strumpahneykslið fer fyrir dómstól í Þýskalandi

Gústaf SkúlasonErlent, Ritskoðun1 Comment

Þú hefur kannski heyrt um þýsku „Strumpastelpuna“ sem Fréttin.is greindi nýlega frá. Hin 16 ára gamla Loretta hafði birt TikTok myndband þar sem hún vísaði til hægri flokks AfD í Þýskalandi. Litur flokksins er af tilviljun líkur bláum lit Strumpanna, svo hún líkti vaxandi vinsældum flokksins Valkosti fyrir Þýskaland við vinsældir Strumpanna með því að sýna blátt kort af Þýskalandi með niðurstöðum skoðanakannana í hverju ríki. Hljómar saklaust, ekki satt?

Lögreglan handtók Lorettu í miðri kennslustund fyrir framan öll bekkjarsystkinin

Einn daginn mætti lögreglan í skólann hennar og tók hana á brott í miðri kennslustund fyrir framan alla bekkjarfélagana. Hún fékk „formlega lögregluviðvörun“ vegna þess að lögreglunni hafði borist nafnlaus „vísbending“ um hægrisinnað efni hennar.

Síðar kom í ljós að Strumpamyndband Lorettu var ekki aðal „sönnunargagnið“ sem skólastjórinn hafði fengið. „Vísbendingin“ samanstóð af skjáskotum af færslum hennar á samfélagsmiðlum með þjóðræknu efni eins og þýska fánanum og yfirlýsingunni: „Í Þýskalandi talar maður þýsku.“ Þar að auki hafði sá sem kom með vísbendinguna tekið eftir því, að hún var í peysu með upphafsstöfunum HH. Gæti það kannski staðið fyrir… Heil Hitler?? – Nei, þetta var vörumerkið „Hally Hanson“ sem virðist nokkuð vinsælt.

Bandaríski miðillinn The Gateway Pundit leitaði til móður Lorettu til að heyra útgáfu hennar af sögunni. Margir gagnrýnendur saka fjölskylduna um að nota sögu Strumpanna til að vekja athygli á sjálfum sér. En það kom í ljós að fjölskyldan vildi aldrei fá neina athygli. Loretta taldi bara að sá sem kom með vísbendinguna hafi séð nýjasta Strumpamyndbandið hennar. Loretta er meðvituð um neikvæða lýsingu kerfisbundinna fjölmiðla á stjórnmálaflokknum Valkosti fyrir Þýskaland, AfD.

Enn þann dag í dag hefur Loretta ekki sýnt andlit sitt og vill hafa nafnleynd. Móðirin heldur verndarhendi yfir dóttur sinni og notar venjulega ekki samfélagsmiðla.

Lífið eyðilagt af ágengum blaðamönnum

Eftir að sagan fór á flug varð Loretta niðurbrotin. Forvitnir blaðamenn söfnuðust í kringum skólann hennar og tóku viðtöl af handahófi við nemendur. Hvað ef þeim líkaði ekki við Lorettu og töldu hana vera „nasista“ eins og reiða fólkið sá í henni?

Loretta varð að fela sig á leiðinni heim úr skólanum svo hún gæti sloppið við hina hnýsnu blaðamenn. Móðir hennar þurfti að taka sér frí frá vinnu til að vera til staðar fyrir Lorettu. Stundum komu unglingar og bönkuðu á hurðina og gluggana. Fjölskyldan þurfti að taka dyrabjölluna úr sambandi. Á tímabili þorði fjölskyldan ekki að segja neitt og læddist með veggjum. En málið kom aftur til baka.

Fjölskyldan kærir lögreglu og skólayfirvöld

Núna er fjölskyldan tilbúin að takast á við hina raunverulegu glæpamenn í þessu máli og kærir lögregluna og skólastjórann fyrir dómstól. Samkvæmt móður Lorettu var lögfræðingnum ráðlagt af einhverjum valdamiklum að hafna málinu en hann hafnaði því alfarið.

Það verður mjög áhugavert að vita, hvernig skólastjórinn mun verja sig. Komið hefur í ljós að stjórnmálayfirvöld höfðu áður beint þeirri tilskipun til skólastjórna, að þær geri lögreglunni viðvart, ef merki sjást um hægri tilhneigingu hjá nemendum. Skólastjórinn heldur því fram að hann fylgi bara tilskipun  menntamálaráðuneytisins sem allir skólar hafa fengið.

Hver ber ábyrgð á þessari nýju stefnu sem foreldrarnir fengu enga vitneskju um? Og hvers vegna er ekkert sagt frá henni á vefsíðu ráðuneytisins?

Síðast en ekki síst: Hver er hinn raunverulega nafnlausi einstaklingur sem kom með þessa „skelfilegu“ vísbendingu um samband bláa lits Strumpanna við Valkost fyrir Þýskaland? Það á vonandi eftir að koma í ljós, hvort við munum komast að öllum sannleikanum í komandi réttarhöldum. Fréttin.is mun halda lesendum upplýstum um málið.

One Comment on “Strumpahneykslið fer fyrir dómstól í Þýskalandi”

  1. Það er óhugnanlegt að sjá hvernig Stasi verkferlum er beitt á Vesturlöndum til að þagga niður í röddum og skoðunum sem yfirvöld samþykkja ekki.

Skildu eftir skilaboð