Ómurinn af frelsinu

frettinInnlendarLeave a Comment

Erling Óskar Kristjánsson skrifar:

Þrælahald var gert ólöglegt á Vesturlöndum á nítjándu öldinni. Engu að síður hafa aldrei verið fleiri þrælar í heiminum en í dag – um 20 milljónir manna. Þar af eru átta milljón börn. Tvær af þessum átta milljónum barna eru nauðbeygð til þess að athafna sig í kynlífsiðnaðinum! Í Bandaríkjunum eru tugþúsundir barna kynferðislega misnotuð í skiptum fyrir peninga, fíkniefni, dvalastað eða annað á hverju ári og mörg þeirra eru flutt inn ólöglega yfir suðurlandamærin til þess eins að þrælka í kynlífsiðnaðinum. Vesturlandabúar eru meginþorri þeirra sem stunda barnakynlífstúrisma (e. child sex tourism), þar sem þeir ferðast til annarra landa til að kaupa sér afnot af líkömum barna. Þúsundir vefsíðna á vefaldarvefnum innihalda barnaklám, og Vesturlandabúar eru stór hluti neytendahópsins. Mikil eftirspurn og fjármagn, sem heldur þessari framleiðslu gangandi, kemur frá Vesturlöndum. Mansalsiðnaðurinn veltir 150 milljörðum Bandaríkjadollara á ári, og fer stækkandi. Þetta er fimmfalt meira en knattspyrnugeirinn veltir árlega á heimsvísu! Börn eru stór hluti þessara tekna.

Fólk sem berst við barnakynlífsiðnaðinn

Tim Ballard er fyrrverandi leyniþjónustumaður sem hefur tileinkað líf sitt því að frelsa börn úr ánauð kynlífsþrælkunar. Hann vann í 12 ár fyrir Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA), og síðar fyrir Department of Homeland Security, við að uppræta barnaklámsstarfsemi í Bandaríkjunum. Í starfinu var m.a. farið til útlanda, í dulargervi, til að standa bandaríska kynlífsafbrotamenn að verki. Þannig gátu þeir síðar verið lögsóttir í sínu heimalandi með þeim sönnunargögnum sem Ballard gat aflað sér.

Í starfi sínu upplifði hann þó að valdasvæði þessara stofnana var aðallega takmarkað við Bandaríkin þó svo að mest öll starfsemin færi fram erlendis. Þar með upplifði hann reglulega að hann gat lítið sem ekkert gert til að stöðva kynlífsþrælkun barna utan hornsteina landsins, þar sem hún fór fram að mestu. Árið 2013 ákvað hann því að segja upp störfum og stofna góðgerðasamtökin Operation Underground Railroad (OUR). Samtökin eru rekin með frjálsum framlögum og hjá þeim vinna aðrir fyrrverandi leyniþjónustumenn auk fleiri sérfræðinga. Þau starfa með yfirvöldum í Bandaríkjunum og víðar við að uppræta barnakynlífsstarfsemi og sækja afbrotamenn til saka. Samtökin hafa tekið þátt í yfir 4.000 aðgerðum, 6.500 handtökum og bjargað yfir 7.000 börnum úr barnaþrælkun. Aðgerðirnar eru teknar upp til að afla sönnunargagna, og úr þeim hafa verið gerðar heimildarmyndir á borð við Operation Toussaint. Samtökin bjóða einnig upp á meðferðarúrræði og aðstoð fyrir börn eftir að þeim hefur verið bjargað.

Náttúruhamfarir í Haiti

Í kjölfar náttúruhamfara í Haiti tók Ballard þátt í aðgerð í samstarfi við lögregluyfirvöld þar í landi, þar sem þau voru að leita að barni sem hafði verið rænt. Þau fundu munaðarleysingjahælið Happy Day Orphanage, sem þau vissu ekkert um nema að það var ekki á skrá hjá yfirvöldum. Ballard og OUR samstarfsmaður hans fóru þangað inn í dulargervi þaktir huldum myndavélum og hljóðupptökutækjum. Markmiðið var að afla upplýsinga. Þarna inni sáu þeir um 20 börn á aldrinum 1-12 ára, og þeir sáu að þeim leið ekki vel. Starfsmenn þessa svokallaða munaðarleysingjahælis voru grunlausir, og buðu þeim að kaupa sér barn að eigin vali á 10.000 dollara. Tveggja ára drengur kom labbandi til Ballard sem tók hann í fangið, og þar sem hann sá ekki barnið sem honum var ætlað að bjarga bauðst hann til að kaupa þetta barn. Meðan samstarfsmaður Ballards gekk frá pappírsvinnu í samstarfi við starfsmenn þessa svokallaða munaðarleysingjahælis kom Ballard auga á þriggja ára stúlku sem fylgdist grannt með honum. Hann gaf henni Snickers, og án þess að hugsa braut hún það í tvennt og gaf tveggja ára stráknum helminginn. Þetta var ósjálfráð hegðun, og Ballard segist hafa áttað sig á að þau voru systkini. Það var ekki fyrr en síðar sem Ballard komst að því að öll börnin þarna inni glímdu við næringarskort.

Þegar Ballard setti strákinn niður greip stúlkan í bróður sinn, ríghélt og vildi ekki skilja við hann. Hún hafði séð marga Bandaríkjamenn koma þangað og taka börn sem hún hafði aldrei séð aftur. Litla hetjan ætlaði sér að vernda hann. Þau áttu ekkert nema hvort annað. Í fyrsta og eina sinn á ferli sínum braut Ballard mikilvæga reglu og sagði stúlkunni sannleikann: að hann væri þarna í dulargervi og ætlaði sér að bjarga þeim. Drengurinn væri óhultur í hans höndum. Hún trúði honum og kvaddi bróður sinn. Undir flestum kringumstæðum hefðu þau aldrei aftur séð hvort annað.

Í þessari aðgerð var 28 börnum bjargað og margir voru handteknir og sóttir til saka. Strákurinn sem Ballard var ráðinn til að finna fannst hins vegar aldrei. Enn þann dag í dag gengur Ballard með armband með nafni hans á hendi sér. Ballard og eiginkona hans ættleiddu systkinin sem hann hitti á munaðarleysingjahælinu á þessum örlagaríka degi, þó svo að þau hafi átt mörg börn fyrir.

Hér má heyra hjartnæma frásögn Ballard af þessari atburðarás.

Sound of Freedom

Árið 2015 var ákveðið að gera kvikmynd um líf og störf Tim Ballard. Ballard hefur útskýrt að OUR geti aðeins bjargað fáeinum börnum; raunveruleg breyting krefjist vitundarvakningar og þátttöku fleiri aðila. Hann hefur borið frelsun barna úr kynlífsþrælkun saman við frelsun þræla í Bandaríkjunum á nítjándu öldinni. Í dag halda margir að ef þeir hefðu lifað á tímum þrælahalds í Bandaríkjunum hefðu þeir barist gegn því, en vandinn var að á þeim tíma vissu fæstir Bandaríkjamenn hversu útbreitt og slæmt þrælahaldið var, og þess vegna gerðu þeir ekkert í því. Það voru skrif fólks sem höfðu séð þrælahaldið eigin augum sem vöktu aðra og hvöttu þá til að taka þátt og berjast gegn illskunni. Hann vonar að myndin muni hafa sömu áhrif og fá fólk til að berjast við þessa illsku.

Útkoman var dramatíska spennumyndin Sound of Freedom. Jim Caviezel, sem fór með aðalhlutverk í The Count of Monte Cristo og The Passion of the Christ, leikur Tim Ballard. Óskarsverðlaunahafinn Mira Sorvino leikur eiginkonu hans. Undir stiklu (e. trailer) fyrir kvikmyndina segir:

„Myndin varpar ljósi á myrkustu staði þess heims sem við lifum í. Eftir að hafa bjargað ungum dreng frá miskunnarlausum barnasmyglurum kemst alríkisfulltrúi að því að systir drengsins er enn í haldi og ákveður að fara í hættulegt verkefni til að bjarga henni. Þegar tíminn er að renna út segir hann upp starfi sínu til að ferðast á eigin vegum djúpt inn í kólumbíska frumskóginn þar sem hann setur líf sitt í hættu til að frelsa hana frá örlögum sem eru verri en dauðinn.“

Myndin var tilbúin árið 2018 en það gekk illa að finna útgefanda sem vildi koma myndinni í dreifingu. Bæði Netflix og Amazon afþökkuðu boðið. Loks keypti útgefandinn 20th Century Fox keypti dreifingarrétt hennar, en þegar Disney keypti það fyrirtæki öðluðust þeir dreifingaréttinn og sátu á honum árum saman án þess að gera nokkuð við hann. Framleiðandi myndarinnar veit ekki hvers vegna, en honum tókst loksins að endurheimta dreifingaréttinn sem hefur nú verið afhentur Angel Studios. Það að myndin sé gefin út af litlum og lítt þekktum dreifingaraðila gerir það að verkum að hún er í harðri samkeppni við stórmyndir frá stærri aðilum sem hafa mikil völd yfir kvikmyndahúsum og stjórna því meira og minna hvað er sýnt hverri stundu. Afleiðingin er sú að mikilvægur boðskapur Sound of Freedom nær ekki sömu útbreiðslu og ella.

Myndin var frumsýnd í kvikmyndarhúsum vestanhafs á sjálfstæðisdegi Bandaríkjanna, 4. júlí síðastliðinn. Á opnunardegi myndarinnar halaði hún inn 14 milljónum Bandaríkjadollara; nóg til að greiða framleiðslukostnað myndarinnar. Til samanburðar þénaði nýja Indiana Jones stórmyndin um 11 milljónir sama dag, en um 24 milljónir á útgáfudegi sínum. Indiana Jones kostaði margfalt meira í framleiðslu og fær mun meiri umfjöllun, en er að fá mun lélegri dóma en Sound of Freedom. Þrátt fyrir að Sound of Freedom sé betri mynd með mikilvægari boðskap munu margfalt fleiri sjá Indiana Jones, og flestir jafnvel aldrei heyra um Sound of Freedom. Á öðrum sýningardegi Sound of Freedom þénaði hún minna en Indiana Jones, sem sýnir hvernig hún á undir högg að sækja. Á næstu dögum kemur í ljós hvernig þetta þróast.

Þann 7. júlí 2023 höfðu sex þúsund kjósendur gefið Sound of Freedom 8,6 í einkunn á IMDB, á Rotten Tomatoeshafði hún hlotið 88% frá 16 gagnrýnendum og 100% (!) frá yfir 2.500 notendum síðunnar, en á Google hafði myndin fengið 4,9 af 5 stjörnum frá 800 notendum.

Enn sem komið er er myndin ekki væntanleg í kvikmyndahús á Íslandi. Þó er von um að henni verði streymt tímabundið á Twitter um miðjan mánuðinn, en Elon Musk hefur boðist til að streyma hana ókeypis svo sem flestir fái að sjá hana.

Gagnrýni Tim Ballard á vestræna menningu

Tim Ballard hefur gagnrýnt vestræna menningu, tískuiðnaðinn og Hollywood fyrir að kynlífsvæða börn (e. sexualization of children). Í viðtali nefnir hann til dæmis grein úr tímaritinu Teen Vogue sem var titluð Sex Work is Real Work, en í tímaritinu sem er ætlað táningum er oft fjallað um kynlíf. Kynferðislegt ofbeldi í kvikmyndaiðnaðinum hefur lengi verið þekkt vandamál. Fólk hefur velt því fyrir sér hvort háttsett fólk í Hollywood vilji ekki berjast við barnakynlífsiðnaðinn; þess vegna hafi stórir kvikmyndaútgefendur ekki viljað gefa út myndina, og Disney haldið aftur á útgáfu hennar.

Í von um að fá athygli og öðlast frægð setja börn og ungmenni myndir og myndbönd af sér léttklæddum á samfélagsmiðla, þar sem þau reyna jafnvel að reyna að vera eggjandi. Ballard segir að mannræningar og kynferðisafbrotamenn finni slík börn og ungmenni á samfélagsmiðlum og lokki þau meðal annars í gervi áheyrnarprufur þar sem þau eru misnotuð eða þeim er rænt. Því þurfi að bregðast við til að sporna við þessari hegðun. Samfélagsmiðlar græða hins vegar á þessari tegund efnis eins og annarri, enda eykur hún ekkert síður notkun samfélagsmiðlanna og þar með auglýsingatekjur.

Ballard hefur einnig gagnrýnt klámiðnaðinn og klámáhorf. Hann útskýrir að klámáhorf valdi því að tiltekin boðefni fari af stað í heilanum, sem valdi ávanabindandi vellíðunartilfinningu – eins konar vímu. En til þess að upplifa sömu tilfinningu aftur færist fólk smátt og smátt í grófara efni. Fyrir rest fara sumir að horfa á barnaklám eða annað klám með kynlífsþrælum. Tekjur af þessu klámi heldur barnakynlífsiðnaðinum gangandi. Sömu aðilar og framleiða barnaklám framleiða einnig stundum annað klám, svo með klámáhorfi getur fólk verið að skapa tekjur fyrir kynferðisafbrotamenn.

Það er því ljóst að Ballard er gagnrýninn á ýmsa stóra og áhrifaríka iðnaði, og ekkert víst að þeir séu spenntir fyrir því að dreifa myndinni sem vekur athygli á boðskapi hans.

Kristni óvinsæl í Hollywood

Upp úr aldamótum var Jim Caviezel, sem er kaþólskur, einn vinsælasti upprennandi leikari Hollywood. En eftir að hann lék í The Passion of the Christ segir hann að honum hafi hætt að berast boð til að leika í stórmyndum. Leikstjóri myndarinnar, Mel Gibson, varaði hann reyndar við þessu þegar hann bauð honum hlutverkið:

“Þú munt aldrei aftur vinna í þessum bæ”

Mel Gibson við Jim Caviezel.

Kannski vilja stórir útgefendur ekki bendla sig við kristna menn með íhaldsamar skoðanir.

Tim Ballard er einnig trúaður, og það sama má segja um Mira Sorvino og leikstjóra myndarinnar, hinn mexíkóska Alejandro Monteverde. En þau láta ekki lífsskoðanir sínar lita kvikmyndina Sound of Freedom nema með fáeinum orðum og þeirri staðreynd að Sorvino ber kross hálsfesti í hlutverki eiginkonu Ballard. Gagnrýnendur eru sammála um að kvikmyndin henti trúlausum ekkert síður en trúuðum.

Gagnrýni á Tim Ballard og OUR

Á veraldarvefnum má finna gagnrýni á Tim Ballard og OUR, sem er þó að mestu ósannfærandi. Samkvæmt Wikipedia er Tim Ballard sagður hafa neitað að fordæma “QAnon samsæriskenninguna”. Ekki er tekið fram hvaða samsæriskenningu er um að ræða, en í viðtali þvertekur hann fyrir þetta, og segir að samtökin deili ekki skoðunum með QAnon. Aðspurður heldur hann að um sé að ræða samsæriskenningu sem heldur því fram að valdamikið fólk á Vesturlöndum drekki blóð ungabarna. Hann segist ekki hafa séð nein sönnunargögn fyrir slíkum ásökunum, en staðhæfir að það sé rétt að þetta viðbjóðslega athæfi sé stundað á sumum afskekktum stöðum heimsins.

Á Wikipedia er fjallað um skoðunargrein sem veftímaritið Slate birti árið 2021. Höfundur greinarinnar segir frá upplifun sinni af björgunaraðgerð sem hún fékk að koma með í sjö árum áður, þegar OUR var ný komið á laggirnar. Höfundurinn segir að börnin hafi orðið fyrir áfalli (e. trauma) af björgunaraðgerðinni, sem hafi “gert líf þeirra verri” [sic].

Á Wikipedia er einnig vísað í grein veftímaritsins Vice, þar sem OUR er sakað um að hafa ekki sannreynt hvort fólkið (lesist: börnin) sem þeir ætluðu að bjarga væru raunverulega fórnarlömb mansals, og að hafa ruglað saman samþykktu kynlífsstarfi og mansali [sic]. Ballard hefur þó útskýrt að þeir sem selji og misnoti börn beiti oft sálfræðiaðferðum til að sannfæra börnin um að þetta sé það sem þau vilji gera. Í raun ætti að vera öllum ljóst að börn geta ekki veitt samþykki fyrir kynlífi.

Hvað er til ráða?

Á heimasíðu sinni hefur Angel Studios, dreifingaraðili Sound of Freedom, safnað saman hlekkjum á gagnlegar vefsíður og skrifað eftirfarandi texta:

„Það eru margar leiðir sem þú getur sjálfur hjálpað til við að berjast gegn mansali á börnum og sú fyrsta er að fræða sjálfan þig um viðfangsefnið. Þaðan skaltu byrja að dreifa orðinu og skoða hvernig þú getur aðstoðað í þínu nærsamfélagi.

Eftir að hafa séð myndina skaltu læra meira um mansal. Ef þú ert foreldri skaltu tala við börnin þín, á viðeigandi hátt, um hvað mansal er, fylgjast með virkni þeirra á samfélagsmiðlum á netinu og vita alltaf hvar barnið þitt er.“

Af orðum Ballard að dæma er best að sleppa því að horfa á klám; upplýsa börn um hættuna og skaðann sem því fylgir – einnig fyrir áhorfandann.

Náttúruhamfarir og stríðsátök skapa umhverfi þar sem mansal nær að grassera. Mikilvægt er að koma í veg fyrir stríðsátök eða binda enda á þau sem fyrst, og hlúa vel að fólki á svæðum þar sem náttúruhamfarir hafa átt sér stað. Að ættleiða börn á heilbrigðan og löglegan máta, sérstaklega frá áhættusvæðum, getur komið í veg fyrir að það barn eða annað verði fórnarlamb mansals.

Eitt af megin markmiðum Sound of Freedom er einmitt að stuðla að vitundarvakningu meðal almennings um raunveruleika mansals og barnakynlífsiðnaðarins. Það er því mikilvægt að sem flestir sjái myndina og taki höndum saman til að berjast við þessa illsku.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 08.07.2023

 

Skildu eftir skilaboð