Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir hefur lagt fram stefnu í Héraðsdómi Reykjavíkur gegn Lyfjastofnun og ákvörðun Heilbrigðisráðuneytisins vegna neitunar um notkun á lyfinu Invermectin til lækninga á grundvelli lyfjalaga og mannúðarástæðna.
Málið snýst í grundvallaratriðum um að stjórnsýslureglur hafi verið brotnar við synjun heimildar um að mega ávísa Ivermectin við COVID-19 sjúkdómnum. Auk þess telur stefnandi að neitunin feli í sér brot á jafnræðisreglunni. Stefnandi telur ljóst að málið hafi hvergi nærri verið nægilega rannsakað áður en ákvarðanirnar voru teknar um að ekki mætti ávísa lyfinu við COVID-19.
Heilbrigðisráðuneytið staðfesti að Lyfjastofnun hafi ekki staðið rétt að afgreiðslu málsins. Engu að síður hafnaði ráðuneytið því að ógilda ákvörðunina um synjun stofnunarinnar.
Lyfið er á undanþágulista og því þarf að fá leyfi hjá Lyfjastofnun í hvert sinn sem því er ávísað.
Stefnuna í heild sinni má lesa hér:
Málavextir:
Stefnandi er læknir og sérfræðingur í heimilislækningum sem hefur sinnt nokkrum sjúklingum sem hafa leitað til hans vegna Covid-19, meðal annars með því að ávísa þeim lyfinu Ivermectin. Stefnandi telur ótvírætt að lyfið hafi virkni gegn sjúkdómnum SARS-CoV-2 og að rannsóknir staðfesti slíkt.
Ivermectin, sem er án teljandi aukaverkana, hefur hingað til einkum verið notað hér á landi við ýmsum sníkjudýrum. Þar sem lyfið hafði ekki markaðsleyfi hér á landi, og þar sem notkun þess sem meðferð við SARS-CoV-2 er ekki meðal samþykktra ábendinga lyfsins, sótti stefnandi um undanþáguheimild til að ávísa því vegna sjúkdómsins.
Hinn 29. desember 2020 ávísaði stefnandi lyfinu í 3 mg töfluformi fyrir sjálfan sig með slíkum undanþágulyfseðli. Samkvæmt lyfseðlinum var lyfinu ávísað sem „Fyrirbyggjandi gegn smiti SARS-CoV-2“ og notkunarleiðbeiningar voru „4 töflur vikulega sem fyrirbyggjandi gegn SARS-CoV-2“. Skömmu síðar gat stefnandi leyst lyfið út án vandkvæða.Stefnandi skrifaði sams konar undanþágulyfseðla fyrir þrjá sjúklinga sína dagana 7., 19., og 22. janúar 2021, en þeim beiðnum hafnaði stefndi með tölvupóstum dags. 11., 20. og 22. janúar 2021, sbr. dskj. X, X og X.
Með tölvupósti 12. janúar 2021 hafnaði stefndi beiðni stefnanda um endurskoðun ákvarðana sinna, sbr. dskj. X. Með erindi dags. 19. maí 2021 óskaði stefnandi eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðunum hans, sbr. dskj. X, en með erindi dags. 26. maí 2021 áréttaði stefndi þann rökstuðning sem fram kom í fyrrgreindum tölvupóstum, sbr. dskj. X. Með erindi dags. 26. maí 2021, sbr. dskj. X, óskaði stefnandi eftir afriti af þeim sérfræðiálitum sem ákvörðunin byggði á og vísað var til í rökstuðningi stefnda. Þeirri beiðni var ekki svarað.
Dagana 26., 27. og 28. maí 2021 skrifaði stefnandi að nýjubeiðnir um fjóra undanþágulyfseðla fyrir sjúklinga sína. Nánar tiltekið voru beiðnirnar:
1. Undanþágulyfseðill dags. 26. maí 2021, með rafrænt númer 30120781
Ávísunin kvað á um Ivermectin í 3 mg töfluformi sem: „SARS-CoV-2 fyrirbyggjandi“, með notkunarfyrirmælunum: „4 stk að morgni í eitt skipti á 2ja vikna fresti skv umtali“. Beiðnin var rökstudd þannig: „Rökstuðningur áður send 9 bls yfirlitsgrein í des 2020, vibætur tuga rannsókna og meta-analysa þeirra. Ofgnótt jákvæðra rannsókn sem fyrirbyggjandi 90%, meðferð heimahúsa >80% og svo 75-83% minni dánartíðni sjúkrahúsa. Aukaverkanalaust nánast (tíðni 0.00001% skv gagnagrunni WHO“.
Stefndi hafnaði beiðninni með tölvupósti 1. júní 2020, með svohljóðandi rökstuðningi, sbr. dskj. X: „Lyfjastofnun hafnar umsókn þinni um heimild til að ávísa óskráða lyfinu Ivermectin 3 mg töflur 20 stk. Forsendur ákvörðunar um höfnun eru þær að hér á landi eru samræmdar aðgerðir við sjúkdómnum SARS-CoV-2 og er forræði og samræmdar aðgerðir meðferðar og forvarna á höndum sóttvarnalæknis og smitsjúkdómadeild Landspítalans. Þeir aðilar hafa ekki veitt jákvæða umsögn fyrir notkun lyfsins sem forvörn eða meðferð við SARS-CoV-2.“
2. Undanþágulyfseðill með rafrænt númer 30120782, dags. 26. maí 2021
Ávísunin kvað á um Ivermectin í 3 mg töfluformi sem: „Fyrirbyggjandi gegn SARS-CoV-2 skv leiðarvísi“, með notkunarfyrirmælunum: „töflur að morgni í einu á 2ja vikna fresti. Fyrirbyggjandi gegn SARS-CoV-2 skv leiðarvísi“. Beiðnin var rökstudd þannig: „Vísa til rökstuðnings yfirlitsgreinar senda í des 2020, auk hennar bæst við tugir jákvæðra rannsókna og um 7 meta-analysur. Fyrirbyggjandiárangur >90%, meðferð heimahúsa >80%, á sjúkrahúsum 75-83%, Nánast án aukaverkana, tíðni skv gagnagrunni WHO 0.00001 og engar alvarlegar. Frábending Alzheimers og rofinn BBB í sárasjáldgæfum erfðasjúkdómum“.Stefndi hafnaði beiðninni með tölvupósti 1. júní 2020, með samhljóða rökstuðningi og ofan greinir vegna fyrri beiðni sama dag.
3. Undanþágulyfseðill með rafrænt númer 30121910, dags. 27. maí 2021
Ávísunin kvað á um Ivermectin í 3 mg töfluformi, sem: „Fyrirbyggjandi sem skordýrafæla“, með notkunarfyrirmælunum: „6 töflur að morgni í einu, fyrirbyggjandi sem skordýrafæla“. Beiðnin var rökstudd þannig: „vísa til fyrri reynslu af lyfinu sem skordýrafælu – einnig að aukaverkanir lyfsins nánast engar, sárasjaldgæfar og vægar (tíðni skv gagnabanka WHO 0.00001%)“.
Stefndi hafnaði beiðninni með tölvupósti 1. júní 2020, með svohljóðandi rökstuðningi, sbr. dskj. X: „Umsókn um notkun Ivermectin sem fyrirbyggjandi skordýrafælu er hafnað. Ástæða fyrir höfnun er að fyrirbyggjandi meðferð sem skordýrafæla er ekki samþykkt ábending í SmPC lyfsins þar sem það hefur markaðsleyfi. Fram þarf að koma í rökstuðningi að meðferð sé vegna greiningar eða gruns um sníkjudýrasmit.“
4. Undanþágulyfseðill með rafrænt númer 30123567, dags. 28. maí 2021
Ávísunin kvað á um Ivermectin í 3 mg töfluformi sem: Fyrirbyggjandi meðferð“, með notkunarfyrirmælunum: „6 töflur að morgni í einu, fyrirbyggjandi gegn sýkingu SARS-CoV-2“.Beiðnin var rökstudd þannig: „Viðkoman telur öryggi heilsu sinnar gæti verið stefnt í voða af bólusetningu og óskar því eftir Ivermectin sem aukaverkanalauss lyfs sem fyrirbyggjandi gegn Covid-19. Vísa að öðru leyti til skýrslu um lyfið frá des 2020 og fram komnum tuga klíniskra rannsókna um og yfir 90% árangur sem fyrirbyggjandi gegn Covid-19.“ Stefndi hafnaði beiðninni með tölvupósti 1. júní 2020, með samhljóða rökstuðningi og ofan greinir vegna fyrri beiðna dags. 26. maí 2021 (beiðnir nr. 1 og 2).
Hinn 11. júní 2021 kærði stefnandi til Heilbrigðisráðuneytisins ákvarðanir stefnda um að hafna undanþágubeiðnum dags. 26., 27., og 28. maí 2021, sbr. dskj. X. Umsögn stefnda barst ráðuneytinu 27. júlí 2021, sbr. dskj. X. Stefnandi gerði athugasemdir við umsögnina, sbr. bréf dags. 18. ágúst 2021 á dskj. X. Ráðuneytið óskaði eftir tilteknum viðbótarupplýsingum frá stefnda, sem bárust 28. september 2021, sbr. dskj X. Stefnandi gerði athugasemdir við svar stefnda 5. október 2021, sbr. dskj. X. Með úrskurði ráðuneytisins dags. 19. október 2021staðfesti ráðuneytið ákvarðanir stefnda, sbr. dskj. X.
Hinn 1. október 2021 hlaut markaðsleyfi hér á landi lyf að nafni Ivermectin Medical Valley, en um er að ræða töflur sem innihalda 3 mg. Ivermectin.
Stefnandi telur að ákvarðanir Lyfjastofnunar hafi verið rangar og ólögmætar, og að ráðuneytið hafi komist að rangri niðurstöðu um staðfestingu þeirra. Því er stefnanda nauðsynlegt að höfða þetta mál til ógildingar ákvarðananna.
Málsástæður
Um málsástæður stefnanda vísast til alls framangreinds og eftirfarandi umfjöllunar.
I.
Stefnandi byggir á því að hann hafi lögvarða hagsmuni afúrlausn málsins, enda þótt útgáfa af lyfinu í töfluformi hafi nú fengið markaðsleyfi hér á landi, þ.e. Ivermectin Medical Valley, er enn nauðsynlegt að sækja um undanþágulyfseðla til að ávísa öðrum gerðum lyfsins, t.d. frá öðrum framleiðendum. Auk þesser óheimilt að ávísa Ivermectin Medical Valley vegna SARS-CoV-2, enda er lyfið aðeins samþykkt sem meðferð gegn þráðormasýkingu í meltingarvegi, sem meðferð vegna forlirfa í blóði og vegna kláðamaurs, sbr. dskj. X. Til viðbótar bendir stefnandi á að Ivermectin Medical Valley er u.þ.b. tífalt dýrara en þær útgáfur lyfsins sem einstaklingar hér á landi hafa notað um árabil samkvæmt undanþágulyfseðlum.
II.
Stefnandi byggir á því að ógilda beri úrskurð ráðuneytisins þar sem ákvarðanir stefnda hafi verið ólögmætar að efni til, og að rétt hefði verið að lögum að samþykkja beiðnir hans.
Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 100/2020 eru skilyrði útgáfu undanþágulyfseðla tvíþætt. Annars vegar að sérstakar og vel rökstuddar ástæður séu fyrir notkun lyfs, sbr. a. lið 1. mgr. 12. gr., og hins vegar að í umsókn komi fram að það magn sem sótt er um undanþágu fyrir sé takmarkað við þarfir þeirra sem eigi að nota lyfið og upplýsingar um hvort lyfið sé ætlað tilteknum einstaklingi eða dýri eða hvort lyfjanotkun fari fram á heilbrigðisstofnun eða tilteknum stað, sbr. b. lið 1. mgr. 12. gr.laga nr. 100/2020.
Beiðnir stefnanda fullnægðu báðum fyrrgreindum skilyrðum, enda fylgdi þeim ítarlegur rökstuðningur fyrir virkni lyfsins við SARS-CoV-2, sbr. dskj. X, og upplýsingar um magn lyfsins, notkun þess, o.fl. sbr. b. lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 100/2020. Í rökstuðningi stefnda fyrir synjun hans á beiðnum stefnda kom auk þess ekki fram að rökstuðningur fyrir beiðninni, eða upplýsingar með henni, væru ófullnægjandi, heldur byggði höfnunin á því að tiltekin önnur skilyrði væru ekki uppfyllt, sbr.samhljóða tölvupósta 1. júní 2021 á dskj. X. Samkvæmt rökstuðningnum var þremur af fjórum beiðnunum stefnanda hafnað vegna þess að meðferð við sjúkdómnum væri á forræði sóttvarnalæknis og smitsjúkdómadeildar Landspítalans og að jákvæði afstaða þeirra til beiðninnar lægi ekki fyrir.
Stefnandi bendir á að hvergi í lögum er kveðið á um að samræmdar aðgerðir stjórnvalda gegn ákveðnum sjúkdómum útiloki að læknar megi sinna sjúklingum sem til þeirra leita, líkt og þeim er rétt og skylt að gera, og skiptir ekki máli hvort um sé að ræða SARS-CoV-2 eða aðra sjúkdóma. Þá eru skilyrði fyrir útgáfu undanþágulyfseðla tæmandi talin í 12. gr. laga nr. 100/2020 og jákvæð afstaða tiltekinna stjórnvalda til undanþágubeiðni er ekki meðal þeirra. Því byggir stefnandi á að ólögmætt hafi verið að hafna beiðnum hans á grundvelli þessara sjónarmiða.
Fjórðu ávísuninni, sem kvað á um ávísun lyfsins sem skordýrafælu, var hafnað með vísan til þess meðferð við SARS-CoV-2 væri ekki meðal samþykktra ábendinga lyfsins þar sem það hafði markaðsleyfi. Órökstutt er hvers vegna stefndi telur slíkt skipta máli, enda er algengt og alþekkt að lyf séu notuð utan samþykktra ábendinga, og er þá sjaldnast um að ræða meðferðir sem eru meðal ábendinga viðkomandi lyfs á öðrum markaðssvæðum. Aukinheldur er slíkt ekki meðal skilyrða fyrir útgáfu undanþágulyfseðla. Stefnandi byggir á því að lögbundin skilyrði fyrir útgáfu undanþágulyfseðilsins hafi verið uppfyllt, enda hélt stefndi ekki öðru fram, heldur byggði synjunin á því að önnur skilyrði en þau sem talin eru í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 100/2020 hafi ekki verið uppfyllt. Stefnandi telur slíkt ólögmætt, sbr. það sem áður sagði um hinar þrjár beiðnir hans.
III.
Stefnandi byggir einnig á því að málsmeðferð stefnda hafi brotið gegn reglum stjórnsýsluréttarins og því hafi þær verið haldnar formannmörkum, sem voru svo alvarlegir að leiði til ógildingar þeirra. Í úrskurði Heilbrigðisráðuneytisins eru játaðar ýmsar brotalamir á málsmeðferð stefnda, sbr. sérstakan kafla í niðurlagi úrskurðarins, þó ráðuneytið hafi ekki talið að slíkt ætti að leiða til ógildingar ákvarðananna. Stefnandi telur ráðuneytið hafa komist að rangri niðurstöðu um það atriði.
Stefnandi byggir á því stefndi hafi brotið gegn skyldum sínum til að rannsaka málið nægilega, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993, andmælarétti stefnanda, sbr. 13. gr. sömu laga, og skyldum sínum til að rökstyðja ákvarðanir sínar sbr. 22. gr. sömu laga.
Rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins
Í umsögn stefnda um kæru stefnanda til ráðuneytisins dags. 27. júlí 2021, sbr. dskj. X, kemur fram að rannsókn hans hafi aðeins falist í öflun umsagna sóttvarnalæknis og yfirlæknis smitsjúkdómadeildar Landspítalans. Þannig segir í umsögninni: „Stofnunin metur hins vegar ekki lyfið sjálft út frá eiginleikum þessum eða vísindagreinum, þ.e. neikvæð umsögn þeirra sérfræðinga sem leitað var til var forsenda þess að ekki væri um þannig (sic) sérstakar aðstæður að ræða sem kölluðu á veitingu undanþáguheimildar til almennrar ávísunar.“ Þannig leit stefndi ekki til rökstuðningsins sem fylgdi umsóknum stefnanda heldur byggði ákvörðun hans alfarið á umsögn sérfræðinganna.
Stefnandi byggir á því að stefnda sé óheimilt að byggja ákvarðanir sínar alfarið á afstöðu tiltekinna stjórnvalda eða sérfræðinga, án þess að rannsaka málið sérstaklega, að minnsta kosti að einhverju leyti, enda væri með því fært eiginlegt ákvörðunarvald til annarra aðila. Jafnvel þó stefnda væri slíkt heimilt, byggir stefnandi á því að umsagnir þeirra sérfræðinga sem stofnunin leitaði hafi verið svo rýrar að efni til að stefnda hafi verið óheimilt að byggja ákvarðanir sínar alfarið á þeim, án þess að rannsaka málið sjálfur. Stefnandi byggir það áeftirfarandi:
Í fyrsta lagi var fyrirspurn stefnda til þessara sérfræðinga bundin við það hvort þeir teldu að „fyrirhuguð notkun á lyfinu Ivermectin [væri] í samræmi við stefnu í forvörnum og meðhöndlun Covid19 sýkinga hér á landi“, sbr. tölvupóst Hjalta Kristinssonar, deildarstjóra stefnda, til sérfræðinganna 28. maí 2021 á dskj. X. Þannig var ekki aflað umsagnar þeirra um hvort sérstakar og vel rökstuddar ástæður væru fyrir ávísun lyfsins, líkt og er skilyrði samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 100/2020, heldur voru þeir aðeins spurðir hvort ávísunin samræmdist stefnu þeirra í meðhöndlun SARS-CoV-2. Stefnandi ítrekar að hvergi í lögum er kveðið á um aðrir læknar en sóttvarnalæknir og læknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans megi ekki sinna sjúklingum vegna sjúkdómsins, né að þeir megi aðeins beita aðferðum sem samræmast stefnu ákveðinna stjórnvalda eða sérfræðinga.
Í öðru lagi svaraði sóttvarnalæknir fyrirspurn stefnda aldrei efnislega, sbr. tölvupóst hans 30. desember 2020, þar sem hann baðst undan því að svara stefnda vegna anna og ónógrar þekkingar á umræddu lyfi. Því liggur afstaða hans ekki fyrir, öfugt við það sem fram kemur í rökstuðningi stefnda fyrir ákvörðunum sínum.
Í þriðja lagi er afstaða yfirlæknis smitsjúkdómadeildar Landspítalans hvergi nærri nógu skýr, eða rökstudd, til að ákvarðanir stefnda geti alfarið byggt á henni. Afstaða hans kemur fram í tveimur tölvupóstum, dags. 6. janúar 2021 og 1. júní 2021, sbr. dskj. X. Í fyrri póstinum tók hann fram að ekki væri mælt með notkun lyfsins í nágrannalöndum Íslands eftir því sem hann og kollegar hans á Landspítalanum kæmust næst, og að notkun þess væri ekki vel rökstudd. Hins vegar vísaði hann til þess að læknar hefðu heimild til að ávísa lyfjum með þessum hætti og að ekki væri hægt að taka fram fyrir hendur stefnanda, enda væru ekki fyrir sérstakar ástæður til hafna beiðninni, t.d. hætta á að lyfinu væri hamstrað.
Í seinni tölvupóstinum rakti hann að vísbendingar væru um að lyfið hefði virkni gegn SARS-CoV-2 í tilraunaglasi en að gögn um virkni þess til meðferðar virkrar sýkingar eða til að fyrirbyggja sýkingu væru ófullnægjandi. Loks benti hann á að nýgengi smita á Íslandi væri lágt þegar pósturinn var ritaður og að því mælti hann ekki með að fallist yrði á beiðni stefnanda.Þessi seinni tölvupóstur yfirlæknisins er eina neikvæða umsögn sérfræðings sem lá fyrir í málinu. Stefnandi telur hann svo efnislega rýran, og hvergi nærri nógu vel rökstuddan, til að stefndi geti byggt ákvarðanir sínar alfarið á honum án þess að rannsaka málið sjálfur.
Andmælaréttur stefnanda
Stefnanda var aldrei kynnt efni umsagna sérfræðinganna og sá hann efni þeirra fyrst þegar Heilbrigðisráðuneytið sendi honum afrit af umsögn stefnda 9. ágúst 2021. Áður hafði stefndi hunsað ítrekaðar beiðnir stefnanda um aðgang að gögnum málsins og upplýsingum um forsendur ákvarðananna.
Stefnandi bendir á að engar reglur eða leiðbeiningar eru til um form og efni rökstuðnings sem fylgja skal undanþágubeiðnum. Hefði honum verið kynnt efni umsagnanna hefði hann getað brugðist við og fært frekari rök fyrir beiðnum sínum. Því telur stefnandi sig ekki hafa notið þess andmælaréttar sem honum er tryggður í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá stefnda um hvort stefnanda hefðu verið kynntar upplýsingarnar sem lágu til grundvallar ákvarðananna, sbr. dskj. X. Í svari stefnda segir að slíkt hafi ekki verið gert, þar sem stefnda berist á hverjum degi um 200 umsóknir um undanþágulyfseðla, sbr. dskj. X, en auk þess hafði stefndi í umsögn sinni til ráðuneytisins lýst því að hann teldi augljóslega óþarft að veita stefnanda færi á að tjá sig um efni umsagnanna.
Í úrskurði Heilbrigðisráðuneytisins var tekið undir sjónarmið stefnanda um að málafjöldi eða annir stefnda undanþiggi hann ekki reglum stjórnsýslulaga. Þá var réttilega fundið að því að stefnanda væru ekki kynntar upplýsingarnar sem lágu til grundvallar ákvörðunum stefnda og honum veitt færi á að tjá sig um þær, enda ættu þær undantekningar sem koma fram í 13. gr. laga nr. 37/1993 ekki við í málinu. Taldi ráðuneytið að málsmeðferðin væri andstæð fyrrnefndu lagaákvæði, þó slíkt varðaði ekki ógildingu ákvarðananna.
Rökstuðningur
Í 22. gr. laga nr. 37/1993 segir að í rökstuðningi fyrir stjórnvaldsákvörðun skuli vísa til réttarreglna sem ákvörðun byggir á og, ef ákvörðun er matskennd, hvaða meginsjónarmið voru ráðandi við matið. Í hinum kærðu ákvörðunum var ekki vísað til 1. mgr. 12. gr. gr. laga nr. 100/2020 um skilyrði undanþágulyfseðla, heldur sagði aðeins að synjunin byggði á því að jákvæð umsögn sérfræðinganna lægi ekki fyrir. Þannig var óljóst hvort stefndi teldi það sjálfstætt skilyrði útgáfu undanþágulyfseðils að slík umsögn lægi fyrir, eða hvort sú umsögn væri verið liður í mati samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 100/2020.
Í úrskurði sínum fann ráðuneytið að því að rökstuðningurstefnda hefði ekki fullnægt kröfum 22. gr. laga nr. 37/1993, og gerði jafnframt athugasemdir við að kæruleiðbeiningar skorti.
Stefnandi telur að ljóst að málið var hvergi nærri nægilega rannsakað áður en ákvarðanirnar voru teknar og að ófullnægjandi rökstuðningur stefnda og synjun um aðgang stefnanda að gögnum málsins og upplýsingum um forsendur ákvarðananna hafi síst verið til þess að bæta úr þeim annmörkum, enda hefði stefnandi, líkt og áður sagði, fúslega brugðist við umsögnum sérfræðinganna, með frekari rökstuðningi eða gögnum, hefði honum verið kynnt efni þeirra og veitt færi til, og telur hann að slíkt hefði með réttu átt að leiða til annarrar niðurstöðu stefnda.
IV.
Stefnandi óskar þess að tekið verði tillit til þess að hann er ekki virðisaukaskattskyldur aðili og því sé honum nauðsynlegt að fádóm fyrir þeim skatti úr hendi stefnda.
Lagarök
Vísað er til lyfjalaga nr. 100/2020, einkum 12. gr. um skilyrði undanþágulyfseðla. Vísað er til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10., 13., og 22. gr. Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Skjöl og sönnunargögn
Við þingfestingu málsins mun stefnandi leggja fram stefnu, skjalaskrá, tilvitnuð skjöl o.fl., sbr. dskj. 2.
Áskilnaður
Stefnandi áskilur sér rétt til að leiða aðila og vitni fyrir dóminn, afla matsgerða og leggja fram frekari gögn í málinu á síðari stigum þess. Þá er áskilinn réttur til að koma að nýjum málsástæðum og kröfum allt fram til aðalmeðferðar málsins, eftir því sem tilefni gefst til og lög leyfa.
Fyrirkall
Fyrir því stefnist Rúnu Hauksdóttur Hvannberg, forstjóra Lyfjastofnunar, Vínlandsleið 14, 113 Reykjavík, til að mæta á dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð verður í dómhúsinu við Lækjartorg í dómsal 102, kl. þriðjudaginn 25. janúar 2022, klukkan 10:00, er mál þetta verður þingfest til þess þar og þá, ef ekki verður sátt í málinu, að sjá skjöl og skilríki í dóm lögð, á sókn sakar og dómkröfur að hlýða, til sakar að svara og leggja fram gögn af sinni hálfu.
Verði ekki mætt af hálfu stefnda við þingfestingu málsins, má búast við að útivistardómur gangi í málinu samkvæmt 113. gr. laga nr. 19/1991.
Stefnufrestur er þrír sólarhringar.
Reykjavík, 26. janúar 2022,
Björn Þorri Viktorsson hrl.
One Comment on “Stefnir Lyfjastofnun vegna synjunar á heimild til að ávísa Ívermektíni við Covid-19”
Þetta er góð byrjun. Núna þarf að nota þetta dómsmál til að grafa eftir öllum þeim gögnum sem tengjast þeim ákvörðunum Lyfjastofnunar að banna þetta merkilega lyf því að “samræmdar Covid aðgerðir”, Twitter-gróusögur eða erlendur æsifréttaflutningur getur varla verið ástæðan sem réði ákvörðun Lyfjastofnunar í þessu máli.