Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður skrifar:
Sænsk yfirvöld hafa hafið rannsókn á meintum stríðsglæpum í Úkraínu. Mikilvægt er að safnað sé öllum þeim gögnum, sem hægt er að fá varðandi þann óhugnað sem nú á sér stað í Úkraínu.
Rússar hafa verið sakaðir um að hafa myrt fjölda borgara í í þorpum í nágrenni höfuðborgarinnar, en þeir neita því með öllu og segja myndir af líkum sé sviðsetning. M.a. þessvegna er mikilvægt að fá allar upplýsingar um málið frá óháðum aðila.
Hafi Rússar framið fjöldamorð á óbreyttum Úkraínskum borgurum svo sem þeim er gefið að sök, þá er það óafsakanlegur stríðsglæpur, sem þeir sem ábyrgð bera verða að svara til sakar fyrir.
Sú var tíðin, að óbreyttir borgarar fengu að vera að mestu leyti í friði þó að ófriður geisaði og viðurkennt af þjóðum Evrópu, að stríð væri milli hermanna á vígvelli. Það breyttist því miður fyrir um 100 árum rúmum. Það breytir því þó ekki að ástæðulaus dráp á borgurum eru stríðsglæpur og algjör hryllingur sem ber að fordæma.
Hafi Rússar framið þau ódæði sem þeim eru gefin að sök,þá er það með ólíkindum að þeir skuli fara svona fram og geri þá hluti, sem geta ekki orðið til annars en að vekja upp andúð alls heimsins á hryðjuverkunum og þeim sjálfum. Mér finnst nánast ótrúlegt að nokkur geti verið svona vitifirrtur, en komi í ljós að einstakir rússneskir hermenn, yfirmenn þeirra og/eða yfirstjórn Rússlands beri ábyrgð á þessu, þá er ekki hægt að krefjast minna en þeir sem ábyrgð bera á málinu svari til saka með sama hætti og þeir sem á sínum tíma frömdu stríðsglæpi í gömlu Júgóslavíu.
Það er síðan löngu komin tími á að Vesturveldin reyni sitt ítrasta til að koma á friði í þessu stríði og hlutast til um að þeim sem framið hafa stríðsglæpi verði refsað og hugi að framtíðarsýn þar sem þær þjóðir sem nú berjast geti tekið upp eðlileg samskipti í framtíðinni og staðið saman að því að berjast fyrir friði, velferð og öryggi í okkar heimshluta.