Páll Vilhjálmsson skrifar:
Skólameistari FG tilkynnti mér fyrir sl. helgi að erindi hefði borist frá heilsunefnd FG vegna skoðana minna. Erindið yrði lagt fyrir skólanefndarfund, sem haldinn var í gær. Skólameistari bauð mér að svara. Eftirfarandi er skriflegt svar mitt við erindi heilsunefndar:
Einstaklingsfrelsi er að hver og einn hefur fullt leyfi til að skilgreina sjálfan sig á hvaða veg sem er. Aldrei hvarflar að mér að skipta mér af hvaða sannfæringu nemendur hafa né hvaða hópum þeir tilheyra. Það er einfaldlega einkamál nemenda. Þá sjaldan að persónuleg sannfæring nemenda ber á góma sýni ég fyllstu tillitssemi. Í 14 ára starfi við skólann eru ekki dæmi um að kastast hafi í kekki milli mín og nemenda vegna ólíkra skoðana á lífsins álitamálum.
Heilsunefnd FG segir í erindi dags. 30. mars 2022 að skoðanir mínar valdi „vanlíðan nemenda og starfsmanna.“ Það kemur mér spánskt fyrir sjónir.
Í erindi nefndarinnar er ekki tilgreint hvaða skoðanir um er að ræða. En ég gef mér að varla eru það sjónarmið mín um einstaklingsfrelsi er valdi vanlíðan. Einstaklingurinn er minnsti minnihlutinn. Ef gætt er að frelsi einstaklingsins er í leiðinni slegin skjaldborg um réttindi að tilheyra hópum.
Skoðanir Páls Vilhjálmssonar eru settar fram á einkabloggi sem auðvelt er að sniðganga, valdi þær vanlíðan. Á kennarastofu er ég fremur fámáll ólíkt sumum sem hafa skoðanir á flestu milli himins og jarðar og hafa þær í frammi.
Erindi heilsunefndar FG gefur til kynna að óæskilegt sé að kennarar hafi einhverjar ótilgreindar skoðanir. Nefndin þarf að útskýra hvaða skoðanir átt er við. Þá er eðlilegt að spyrja nefndina hvernig eftirliti er háttað með skoðunum kennara s.s. á kennarastofu, samfélagsmiðlum, bloggi eða fjölmiðlum.
Í ráðningarsamningi kennara er enginn áskilnaður um skoðanir. Ef heilsunefnd FG vill breyta fyrirkomulaginu ætti hún að leggja fram tillögu þess efnis - væntanlega með lista yfir óæskilegar skoðanir.
Um 30 kennarar FG vísa í tilfallandi blogg Konur, trans og raun sem ástæðu undirskriftarsöfnunar um að skoðanir Páls Vilhjálmssonar séu óæskilegar og beri að fordæma. Fyrirsögnin á visir.is er „Telja skrif Páls hafa svert ímynd skóla sem standi fyrir fjölbreytileika.“
Í mínum huga nær fjölbreytileiki til fjölbreyttra lífsviðhorfa. En það er bara mín skoðun.