Páll Vilhjálmsson blaðamaður og kennari skrifar:
Nokkrir herforingjar frá Nató-ríkjum eru líklega í úkraínskri Azov-hersveit sem umkringd er í stálveri í Mariupol í Úkraínu. Tvær úkraínskar þyrlur voru skotnar niður í gær í tilraun til að bjarga foringjum Azov-hersveitanna í stálverinu. Áður höfðu þrjár þyrlur verið skotnar niður í sömu erindagjörðum.
Gríski blaðamaðurinn Alex Christoforou telur sig hafa heimildir fyrir Nató-foringjum í stálverinu. Ef rétt reynist er þetta stórfrétt. Formlega á Nató ekki aðild að Úkraínustríðinu. Foringjar úr herjum Nató ættu ekki að vera í Úkraínu ef allt er með felldu. Það sem verra er: Azov-hersveitirnar eru sterklega bendlaðar við nasisma.
Nató-foringjar í slagtogi með Azov-sveitum yrði áfall fyrir þá vestrænu frásögn meginfjölmiðla að stuðningur Nató sé aðeins í formi vopna og birgða.
Ólafur Ragnar Grímsson fráfarandi forseti hefur túlkað aðra frásögn en þá vestrænu um atburðina þar eystra. John Mearsheimer, stjórnmálafræðiprófessor líkt og Ólafur Ragnar var fyrrum, útskýrir aðdraganda stríðsins svona: Bandaríkin og vesturlönd bera ábyrgð á Úkraínudeilunni með því að gera Úkraínu að Nató-ríki. Mersheimer er virtur í sinni grein en er ásakaður vera „Pútínisti“ og ætti að banna segir rétttrúnaðurinn.
Vera Nató-foringjanna í Maríupol, ef rétt reynist, gefur til kynna að Úkraína hafi verið með aukaaðild að Nató sem haldið var leynilegri. Scott Ritter, bandarískur fyrrum hermaður sem þekkir vel til Austur-Evrópu og Rússlands, segir (23:00) að 30 herdeildir Úkraínuhers hafi verið samhæfðar herjum Nató. Leiktjöldin um að Úkraína sé ekki framlenging Nató eru ótrúverðug.
Rússar vita sennilega hverjir þeir eru erlendu foringjarnir sem umkringdir eru í Maríupól ásamt Azov-sveitunum. Líklega vilja þeir fremur ná þeim lifandi en dauðum.