Eftir Geir Ágústsson:
Við þekkjum öll pólitískan rétttrúnað, ekki satt? Hér er ein skilgreining á honum (úr UrbanDictionary):
Framkvæmd rétttrúnaðarins birtist okkur í ýmsum myndum, og eins og skilgreiningin felur í sér er algeng birtingamynd uppnefni af ýmsu tagi. Til dæmis hefur hvítt fólk verið kallað rasistar fyrir það eitt að skammast sín ekki fyrir kynþátt sinn (er kannski ekki stolt af honum frekar en öðrum líffræðilegum eiginleikum sínum, en skammast sín ekki fyrir hann). Og svo er sá maður auðvitað afneitunarsinni sem hafnar hinum einu sönnu vísindum fyrir að benda á að vaxandi styrkleiki koltvísýrings í andrúmsloftinu virðist ekki hafa sérstaklega mikil áhrif á loftslag Jarðar, en að baráttan gegn slíkum vexti kostar bæði svimandi fjárhæðir og mannslíf.
En stundum skýtur rétttrúnaðurinn sig í fótinn.
Núna les ég að Reykjavíkurborg stefni að því að gera ýmis salerni ókyngreind. Einhver lesandi má gjarnan hjálpa mér að skilja hvað sú framkvæmd gengur út á (engin kyngreind salerni eða þriðji möguleikinn til jafns við tvo aðra?) en eins og ég skil það þýðir þetta að öll salerni á ýmsum stöðum verði núna almennt opin jöfnum höndum konum og körlum og einhverju þriðja sem getur verið af ýmsu tagi (það sem á ensku kallast "non-binary").
Ef við höldum okkur við karla og konur þýðir þetta í raun að körlum verði hleypt inn á sömu salerni og kvenfólk þarf að nota.
Þeir sem eru af þriðju tegundinni líka, en nú er ég að einblína aðeins á karlkynið.
Kvenfólk þolir ekki umgengni karlmanna á salernum. Karlmenn skilja eftir sig óburstaðar klósettskálar, rassahár á setunni og pissubletti á setu og gólfi. Á mínum vinnustað, í Danmörku, eru flest salerni ókyngreind, og kvenfólkið í minni deild kvartar hástöfum yfir því enda man flest þeirra eftir fyrri tímum þar sem öll salerni voru rækilega kyngreind og saknar þeirra mjög. Sama kvenfólk hefur rætt það opinskátt í hádegishléinu hvernig það fer jafnvel á milli hæða til að finna kyngreind salerni og losna við ummerki karlmanna. Það er að kvartar og skilur eftir skilaboð um að muna nota burstann. En karlmenn láta eins og ekkert sé og skilja eftir sig stórslys, ítrekað.
Falleg hugsun, þessi ókyngreindu salerni? Ég veit það ekki. Kvenfólkið er að minnsta kosti ekki sátt og saknar þrifalegu salernanna sem að auki veittu þeim ákveðið næði, að mér skilst. En engu verður haggað úr þessu. Það væri úr takt við pólitíska rétttrúnaðinn. Eins og svo margt annað skynsamlegt.