Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hún mótmælir órökstuddum yfirlýsingum forseta Alþýðusambands Íslands um lýðræðislegar ákvarðanir stjórnar Eflingar varðandi innri skipulagsmál á skrifstofum félagsins.
„Ákvörðun stjórnar Eflingar um breytingar sem nú standa yfir er tekin á skýrum og málefnalegum grunni,“ segir Sólveig Anna „og eru þær breytingar hugsaðar til að innleiða samræmi, jafnrétti og gagnsæi í launakjörum starfsfólks, innleiða eðlilegt bil milli hæstu og lægstu launa á skrifstofunum, og gera aðrar löngu tímabærar og nauðsynlegar breytingar á skipulagi.“
„Forseti Alþýðusambandsins hefur ekki haft fyrir því að leita upplýsinga eða skýringa frá formanni eða stjórn Eflingar, en hikar þó ekki við að fordæma opinberlega þeirra störf í þágu félagsfólks í Eflingu,“ skrifar Sólveig Anna. „Það eru sorgleg nýmæli að forseti Alþýðusambandins ráðist á verka- og láglaunafólk í stjórn eins af aðildarfélögum ASÍ með þessum hætti.“
„Baráttulistinn lýsti því yfir í kosningabaráttu sinni að hann myndi gera nauðsynlegar breytingar á rekstri skrifstofu Eflingar. Við það loforð verður staðið. Í því ferli sem nú stendur yfir er lögum og vinnubrögðum sem við eiga fylgt í einu og öllu. Óhjákvæmilegt er að segja upp öllum ráðningarsamningum, en allt starfsfólk verður hvatt til að sækja um auglýst störf að nýju.“
„Yfir stendur lögbundið samráð við fulltrúa starfsfólks sem lögum samkvæmt ber að fara fram í trúnaði. Formaður Eflingar harmar að aðilar hafi rofið trúnað, lekið gögnum í fjölmiðla og tjáð sig þar með óvarlegum hætti áður en því samráðsferli lauk,“ segir í yfirlýsingu formanns Eflingar.