Eftir Björn Bjarnson, greinin birtist fyrst á bjorn.is:
Kristrún Frostadóttir stefnir að formennsku í Samfylkingunni. Fyrir kosningar 25. september 2021 var hún þráspurð um viðskipti sín með bréf í Kviku-banka þar sem hún starfaði. Hún vildi engu svara fyrir kosningar en að þeim loknum fékk hún drottningarviðtal í Silfrinu. Örn Arnarson, ritstjórnarfulltrúi Viðskiptablaðsins, lýsti viðskiptum Kristrúnar á þennan hátt í grein 11. október 2021:
„Hún fékk að kaupa áskrift að kaupum á 10 milljónum hluta í bankanum á ákveðnu gengi á fyrirfram ákveðnum dagsetningum gegn hóflegri greiðslu. Myndi þróun á gengi bréfa bankans verða hagfelld – eins og raunin varð – gætu þessi áskriftarréttindi skapað gríðarlega mikinn hagnað eins og kom á daginn: Þrjár milljónir króna urðu að áttatíu.“
Nú býsnast Kristrún mjög yfir skjótfengnum gróða þeirra sem keyptu bréf í Íslandsbanka 22. mars og segir á visir.is 12. apríl að stór hópur þeirra rúmlega 200 sem keyptu bréfin haf „komið inn aðeins fyrir skjótfenginn gróða“ og sé ávöxtun þeirra „ævintýraleg“. Fyrir Kristrúnu sem breytti þremur milljónum í áttatíu með hlutabréfaviðskiptum er þarna mjög sterkt að orði kveðið um gróða annarra af slíkum viðskiptum.
Hún hneykslast ekki aðeins á því að fjárfestar hafi grætt heldur einnig hinu hverjir keyptu af þeim: „Það eru stofnanafjárfestarnir sem stór hluti þjóðarinnar taldi að ættu að vera aðalfjárfestarnir í þessu útboði. Lífeyrissjóðir, tryggingafélög og verðbréfasjóðir sem fjárfesta til langs tíma. Þessir fjárfestar virðast hafa keypt ígildi 45% af þeim hlutum sem skammtíma fjárfestarnir seldu,“ segir hún og krefst afsagnar fjármálaráðherra.
Kristrún á sæti í fjárlaganefnd alþingis fyrir Samfylkinguna í ViðskiptaMogga segir 13. apríl að innan nefndarinnar hafi enginn þingmaður gert athugasemd við tilboðsleiðina sem að lokum var farin eða lýst áhyggjum yfir að ríkið myndi bera skarðan hlut frá borði vegna þeirrar leiðar. Þá lá ekki fyrir nein afstaða um að ákveðnum aðilum yrði óheimilt að taka þátt í útboðinu.
Birt með leyfi höfundar.