Ofsóknir gegn kristnum vekja takmarkaða athygli – af hverju?

frettinIngibjörg Gísladóttir, PistlarLeave a Comment

Á föstudaginn langa er vel við hæfi að fjalla um ofsóknir gegn kristnum í heiminum. Samkvæmt hinu kaþólska félagi Aid to the Church in Need (ACN) verða nær 340 milljónir kristinna fyrir ofsóknum af einhverju tagi sakir trúar sinnar. Þar er átt við tilhæfulausar handtökur, ofbeldi, alls kyns mannréttindabrot og jafnvel morð.

Evangelísku samtökin, Open Doors, gefa árlega út skýrslu um í hvaða löndum sé verst fyrir kristna að búa. Þar hefur Norður Kórea verið efst í mörg á - ekkert má skyggja á tilbeiðslu Kim fjölskyldunnar. Önnur á topp tíu listanum eru sjaríalöndin Afganistan, Sómalía, Lýbía, Pakistan, Yemen og Íran þar sem aðeins má tilbiðja Allah en einnig Erítrea (stjórnleysi), Nígería og Indland (hindúarnir).

Ofbeldi gegn kristnum hefur aukist mikið í Afríku sunnan Sahara. Í grein ACN segir að árásum jíhadista í Burkina Faso, Mali, og Níger hafi fjölgað úr 180 árið 2017 í um 800 fyrstu 10 mánuði 2019. Boko Haram mun hafa verið á bak við margar þeirra en í seinni tíð eru það helst Fulani hirðingjar sem ráðast á þorp kristinna í Nígeríu og nær 3.500 kristnir voru drepnir þar sakir trúar sinnar á árinu 2020, skv. ACN.

Fulanimúslimar fara með völdin í Nígeríu

Fréttamenn okkar hafa áhuga á hverjum og einum svörtum manni er lögreglan í BNA drepur en hvað með alla þessa svörtu þorpsbúa í Nígeríu, menn, konur og börn? Af hverju eru þau dráp ekki í fréttum? Í blaðinu Crux Now mátti lesa þann 13. apríl að drápin á kristnum þar jaðri við þjóðarmorð. Þrír hafi verið drepnir hinn 4 apríl í árás Fulanimanna og a.m.k. 34 þann 23 mars (allt að 200 heimili brennd). Boko Haram og önnur samtök íslamista þar drepi líka fólk. Í Nígeríu búa nær jafn margir kristnir og múslimar en forseti landsins, Muhammadu Buhari, er af Fulani ættbálknum og hefur verið ásakaður um að vilja gera Nígeríu að íslömsku ríki, þó hann beri það af sér. Hinn 4. apríl lýstu kaþólskir biskupar landsins því yfir að sú staðreynd að enginn væri handtekinn fyrir dráp á kristnum benti til þess að ríkisstjórnin væri samsek, getulaus eða gefi morðingjunum of mikil völd.

En af hverju vekja þessi dráp á heilu fjölskyldunum og eyðilegging þorpa þeirra ekki athygli félagslegu réttlætissinnanna (woke-istanna) sem stjórna fjölmiðlunum. Þetta fólk er kolsvart og bláfátækt og ætti að vera verðugt athyglinnar. Er það kannski málið að þau eru kristin? Er það af því að woke-istarnir í sínum svart/hvíta heimi kúgara og kúgaðra tengja kristni við nýlendutímann og þar með við völd og kúgun og geti því ekki hugmyndafræðilega séð sýnt þessum hrjáðu og óttaslegnu þorpsbúum í Nígeríu samúð, jafnvel þótt þeir sem herja á þá tengist valdastétt landsins? Hvaða önnur skýring kemur til greina?

Skildu eftir skilaboð