Í kvöld mætast Emanuel Macron og Marine Le Pen aftur í sjónvarpssal í kappræðum sem gætu skorið úr um hvort þeirra verður forseti Frakklands næstu 5 árin. Í kappræðum þeirra 2017 þótti Le Pen illa undirbúin en í ár hefur hún sett saman viðamikla áætlun um stjórn landsins, yrði hún forseti. Í fyrri umferð forsetakosninganna hlaut Macron 27.9% atkvæða en Le Pen 23.1%. Hvernig atkvæði þeirra 50% Frakka sem kusu hvorugt þeirra falla kemur í ljós þann 24 apríl.
Á BBC má lesa að topparnir í Brussel hafi miklar áhyggjur. Le Pen minnist þó ekki á ESB í kosningaplöggum sínum og segist ekki hafa neinar "Frexit" áætlanir. Árið 2017 vildi hún setja aðild að ESB í þjóðaratkvæði og hætta að nota evruna. Eftir útgöngu Breta eru Frakkar næststærsti fjárhagslegi bakhjarl ESB og hafa því mikil áhrif þar en margar hugmyndir Le Pen ganga í berhögg við stefnu ESB undir stjórn Ursulu von der Leyen. Auk þess að vilja draga úr framlögum til ESB þá vill Le Pen setja þarfir Frakka í forgang, bæta landamæraeftirlit og setja „stjórnlausan innflutning fólks“ í þjóðaratkvæði. Hún hafnar því sem sagt að Evrópusambandslög séu æðri þeim frönsku - vill samvinnu ríkja en ekki samruna þeirra í fylkjabandalagi eins og stefnan er nú.
Haft er eftir Sylvie Kauffmann, ritstjóra franska dagblaðsins Le Monde, að sigur Le Pen myndi jafngilda „jarðskálfta“ fyrir ESB. Hún myndi verða í stöðugri uppreisn gegn bæði ESB og NATO. Ljóst er að ESB hefur áhyggjur því á mánudaginn var þurfti Le Pen að bera af sér ásakanir ESB um fjármálamisferli. Hún lýsti þeim ásökunum sem „höggi undir beltisstað, aðeins fáum dögum fyrir seinni umferðina ... Ég hafna þessum ásökunum með öllu og vissi ekki einu sinni af þeim.“
Le Pen vel undirbúin
Stefnuskrá Le Pen má finna á Netinu ásamt aðgerðaáætlun í 22 liðum. Þar kennir ýmissa grasa. Nr. 22 er um stofnun ráðuneytis sem skuli takast á við svik af ýmsu tagi - skattasvik, bótasvik, svik tengd innflutningi, samningssvik o.fl. Hún boðar efnahagslega þjóðhyggju - vill að Frakkar framleiði sem mest af þeim vörum sem þeir nota sjálfir og boðar lækkun virðisauka á orku í 5.5% úr 20%. Hún er hlynnt kjarnorku en ekki vindmyllum og vill Frakkland burt úr sameiginlegu orkukerfi Evrópu í sparnaðarskyni. Hún vill öfgaíslam og ólöglega innflytjendur burt og einnig útlendinga sem hafa fengið dóm fyrir glæpi - bæta skal öryggi almennings. Hún vill ekki leyfa nein trúartákn á almannafæri, né á skólaferðalögum, Frakkar skuli vera ein þjóð.
Frakkar skulu vera í forgangi að félagslegu húsnæði og störfum. Hún vill byggja íbúðir fyrir unga Frakka, m.a. námsmannaíbúðir og félagslegar íbúðir, og létta undir með þeim með ýmsum hætti, svo sem með því að afnema erfðaskatt hjá fólki með miðlungs- og lágar tekjur og leyfa fólki að gefa börnum eða barnabörnum sínum allt að 100.000 evrur á tíu ára fresti án þess að sú gjöf sé skattlögð. Þeir sem hafi unnið í 40 ár eigi að geta farið á eftirlaun sextugir. Svo vill hún endurþjóðnýta þjóðvegakerfið svo menn þurfi ekki að borga vegatolla, einkavæða ríkisútvarpið svo menn losni við 138 evru gjaldið og fleira og fleira.
Fjölmiðlar stimpla Marianne Le Pen alltaf sem hægriöfgamann (BBC - far right). Það hugtak virðist orðið merkingarlaust af ofnotkun. Le Pen virðist vinstrisinnuð frekar en hitt.