Hægri sveifla í Finnlandi

frettinJón Magnússon, StjórnmálLeave a Comment

Eftir Jón Magnússon:

Hægri flokkarnir í Finnlandi, Sameiningarflokkurinn og Sannir Finnar juku fylgi sitt í kosningunum um 6.4% og eru sigurvegarar kosninganna. Formaður Sameiningarflokksins Petteri Orpo mun hefja stjórnarmyndunarviðræður. Flokkur hans ásamt Sönnum Finnum og Miðflokknum geta myndað meirihluta.

Sanna Marin forsætisráðherra vann persónulegan sigur með flest persónulega greiddum atkvæðum, en flokkur hennar tapaði töluverðu fylgi.

Vinstri flokkarnir og Sósíalistaflokkur Sanna Marin hömuðust á Sönnum Finnum og kölluðu þá sem hægri öfgamenn. Formaður Sameiningarflokksins sagði hinsvegar,að það væru engir hægri öfgamenn í framboði og tók þar myndarlega af skarið, sem kollegar hans í Moderata Samlingspartiet mættu taka til fyrirmyndar varðandi Svíðþjóðardemókratana

Riikka Purra formaður Sannra Finna, sem er lengst til hægri, vann mikinn persónulegan sigur. Á sama tíma tapa Græningjar miklu fylgi, vegna þess,að kjósendur eru farnir að sjá framan í afleiðingar af stefnu þeirra í loftslagsmálum eins og kjósendur í Hollandi. 

Petteri Orpo sem leggur nú af stað til stjórnarmyndunar leggur áherslu á að draga verði úr ríkisútgjöldum til að bregðast við skuldavandanum, sem sósíalistastjórn Sanna Marin skilur eftir sig eins og jafnan þegar sósíalistar fara með völd.

Fyrir okkur hægri menn, þá er það sérstaklega ánægjulegt hvað Sannir Finnar fengu góða kosningu og að Formaður Sameiningarflokksins skuli ekki láta hræða sig frá samstarfi við Sanna Finna þó hrópað sé að þeim af "góða fólkinu". 

Vonandi leiða þessi úrslit ásamt úrslitunum í Hollandi til þess, að skynsamlegar verði talað um hnattræna hlýnun og orkuskipti, sem vega að lífskjörum almennings í Evrópu og vikið verði frá þeirri stefnu til stefnu vaxtar, framfara og betri lífskjara fyrir almenning. 

Skildu eftir skilaboð