Stefnuyfirlýsing þess vakandi

frettinGeir Ágústsson, KrossgöturLeave a Comment

Eftir Geir Ágústsson:

Undanfarin misseri hafa kennt okkur margt en þá aðallega það að yfirvöld, heilbrigðisstarfsmenn, vísindamenn, alþjóðasamtök, hagsmunasamtök auðkýfinga, blaðamenn og tæknirisar geta lagst á eitt til að blekkja venjulegt fólk. Blekkja það til að yfirgefa ekki heimili sín. Blekkja það til að bera grímu. Blekkja það í sprautur. Blekkja það til að sætta sig við atvinnumissi og aðskilnað frá vinum og ættingjum. Blekkja það til að hræðast. Blekkja það til að hunsa vísindin.

Ógnin við frelsið er enn til staðar

Við vorum öll blekkt, þvert á stjórnmálaskoðanir, gildi í lífinu, aldur, heilbrigði og efnahag. Okkur var sagt að sjálfstæð hugsun og tjáning eyðilegði samtakamátt samfélagsins. Hótanir um einangrun frá samfélaginu, þvingaðan brottflutning og sviptingu á þjónustu heilbrigðiskerfisins lágu í loftinu eða sagðar berum orðum. Stanslaus lygaáróður stórra, alþjóðlegra lyfjafyrirtækja var fluttur gagnrýnislaust af blaðamönnum, vísindamönnum, læknum og stjórnmálamönnum. Vestrænar nálganir í sóttvarnarráðstöfunum voru settar ofan í skúffu og kínverskar nálganir teknar upp þess í stað. Gríman var notuð til að merkja þá sem hlýddu og úthúða hinum sem hugsuðu sjálfstætt. Enn eimir af þessu ástandi og engar girðingar hafa verið reistar til að koma í veg fyrir endurtekningu.

Samstaða er grundvallarkrafa

Það er því nauðsynlegt að vakandi fólk búi sig undir það sem koma skal – hvað það verður og hvenær verður að koma í ljós. Það er nauðsynlegt að við séum ekki sundruð meira en nú er orðið. Að við gröfum ekki skotgrafir á milli hópa með ólíkar áherslur sem deila þó því hugarfari að yfirvöldum ríkja og heilbrigðismála sé ekki lengur treystandi. Að blaðamenn séu ekki ábyrgir gagnrýnendur á samfélagið. Að hagsmunabarátta stórra alþjóðafyrirtækja teygir anga sína djúpt inn í samfélag okkar.

Við, sem eru vakandi fyrir þessu, þurfum að standa saman, beint eða óbeint. Beint, með sameiginlegri baráttu gegn sameiginlegum andstæðingum, og óbeint með því að beina ekki orku okkar að öðrum sem eru að reyna gera það sama, en á annan hátt.

Við þurfum að beina orkunni að því sem skiptir máli: Að kynna okkur raunveruleg vísindi, beita gagnrýninni hugsun og standa vörð um okkar nánustu og okkar samfélag – bæði fólkið sem myndar það og hagkerfið sem heldur því í gangi.

Hvenær verður framganga stjórnvalda ólögmæt?

Mögulega erum við komin handan við mörk hins löglega, þar sem minnisblöð eru gerð að reglugerð án þess að lögin styðji endilega við slíkar valdheimildir. Ef yfirvöld brjóta lög eða innleiða siðlaus lög þá þurfa aðrir að bregðast við, mögulega með óhlýðni. Aldrei ofbeldi, en ekki alltaf löghlýðni. Vonandi erum við ekki komin á þann stað, en nauðsynlegt er að hafa opinn hug gagnvart þessum möguleika. Harðstjórn verður ekki alltaf sigruð í kosningum. Þegar yfirvöld hrifsa til sín of mikil völd er friðsamleg óhlýðni mögulega eina úrræðið.

Stefnuyfirlýsing þess vakandi snýst um að standa vörð um frjálst samfélag sem rúmar ólíkar skoðanir, ólík gildi og mismunandi val okkar sem einstaklinga. Það snýst um að beina orkunni að réttum andstæðingum, ekki ímynduðum. Það snýst um að búa þá sem vilja vera vakandi undir næstu holskelfu hræðsluáróðurs, frelsissviptinga og takmarkana á málfrelsi, atvinnufrelsi og athafnafrelsi.

Völd valdhafa byggjast á einum og bara einum máttarstólpa: Að við almenningur hlýðum. Ef hlýðnin er ekki til staðar hrynur spilaborgin. Munum það þegar næsta atlaga að samfélagi okkar hefst. Munum þessa stefnuyfirlýsingu.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur.is 04.04.2034

Skildu eftir skilaboð