Transkarl getur ekki orðið faðir að lögum

frettinDómsmál, Páll Vilhjálmsson, TransmálLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði að transkarl geti ekki verið faðir að lögum. Transkarl er líffræðilega fædd kona sem kallar sig karl. Um er að ræða þýskan transkarl sem ól barn og vildi fá lögskráningu sem faðir en ekki móðir.

Die Welt greinir frá málinu og segir að transkarlinn hafi fullreynt úrræði í þýska réttarkerfinu til að fá sig skráðan sem föður. Málinu var áfrýjað til Mannréttindadómstólsins sem staðfesti niðurstöðu þýskra yfirvalda. Transkarl getur ekki verið faðir þar sem viðkomandi er líffræðilega kona og skal skráð sem móðir.

Í transumræðunni vegast á tvenn ósamrýmanleg sjónarmið. Í fyrsta lagi einstaklingsréttur, að skilgreina sig á hvaða hátt sem maður kýs. Í öðru lagi líffræðilegar staðreyndir, að kynin séu aðeins tvö og meðfædd.

Málamiðlun á milli ólíku sjónarmiðanna virðist borin von. Þeir sem eru trans standa á því fastari en fótunum að þeir séu í raun og sann annað kyn en það sem náttúran gaf þeim við fæðingu. Á hinum endanum telst það almenn og viðurkennd þekking að líffræði, óháð löngun, sannfæringu eða vilja, ráði kyni.

Mannréttindadómstólinn segir að líffræðilegar staðreyndir ákvarði kyn. Af því leiðir eru transkarlar mæður svo fremi að viðkomandi sé foreldri.

Í Bretlandi er hafin endurskoðun á jafnréttislögum. Markmiðið er að verja líffræðilegt kyn. Konur eru í forystu fyrir kröfunni um að harðar staðreyndir fái forgang á kostnað hugmyndafræði um að kyn sé valfrjálst.

Skildu eftir skilaboð