Er eitthvað rotið í konungdæminu?

frettinJón Magnússon, Pistlar, Stjórnmál1 Comment

Eftir Jón Magnússon:

Það er eitthvað rotið í Danmörku segir í "Hamlet" einu höfuðleikriti Vilhjálms Seikspír (William Shakespeare). Þessa umsögn hefur í tímans rás mátt færa upp á margar þjóðir. 

Forseti Kína setur sína taflmenn á mikilvægustu reitina, á meðan Vesturveldin sér í lagi Bandaríkin hafast ekki að. 

Meðan Kínverjar sóttu fram sem áhrifavald í Mið-Austurlöndum, þar sem Bandaríkjamenn voru einráðir voru Bretar uppteknir við að ræða það hvort að konur gætu haft tippi eða ekki. 

Í Bandaríkjunum beindust allra augu að réttarhaldi yfir fyrrum forseta Bandaríkjanna, þar sem vinstri sinnaður saksóknari gerir sitt til að vekja á sér athygli með svo galinni málssókn, að helstu andstæðingar Donald Trump í Repúblíkanaflokknum fordæma hana sem og flestir virtir lögmenn í Bandaríkjunum. 

Meðan þau Macron og Ursula flugu til Kína til að biðja forseta Kína ásjár vegna Úkraínustríðsins, beindust allra augu á Vesturlöndum sérstaklega í Bandaríkjunum að málssókninni gegn Trump. Fjölmiðlafólk beið í röðum til að ná myndum af uppákomunni, þar sem nánast engir aðrir voru viðstaddir en fjölmiðlafólk til að taka myndir hvert af öðru. 

Í góðri grein sem Douglas Murray skrifar í DT í dag, vísar hann til þess, að á sama tíma vaxi rán og gripdeildir í Bandarískum borgum einkum þeim sem stjórnað er af Demókrötum og þær séu að rotna innan frá á meðan forsetinn hinn "svefnþrungni Jói" er aðgerðarlaus í felum og varaforsetinn hefur enga burði til að gera eitt eða neitt.

Kína blómstrar og fer sínu fram í öllum málum hvort sem er varðandi mannréttindi eða kolefnisfótspor. Vesturlönd eru upptekin við að gera lífskjör verri og draga mátt úr framleiðslu sinni vegna bábilju pólitísku veðurfræðinnar.

Svo illa er komið fyrir Bandaríkjunum, forusturíki Vesturlanda í hartnær heila öld, að helstu forystumenn Vestur Evrópu halda til fundar við Kínverska forsetann í máli, sem forystumenn Evrópu hefðu sótt Bandaríkjaforseta heim til að biðja hann um að taka að sér forustu frá lokum síðasta heimsstríðs 1945. 

Fólk á Vesturlöndum þarf að huga að þeirri nýju stöðu, sem er að verða til í heimspólitíkinni og átta sig á að leið Evrópu og Bandaríkjanna verður  bara verri í samanburði við önnur lönd, ef fólk ætlar að halda áfram að eyðileggja framleiðslutækifæri sín, rífa sig niður á grundvelli sögulegra sjálfsásakana og muna ekki hvaða mannréttindi skipta mestu máli og er harðast sótt að.

One Comment on “Er eitthvað rotið í konungdæminu?”

  1. Bandaríkin bera einkenni heimsveldis i dauðateygjum og dauðakippirnir einkennast af verulega útvíkkuðum hernaðarafskiptum og stjórnlausri peningaprentun sem einmitt knésetti á endanum Rómarveldi til forna.

    Gífurleg spilling þar sem pilsfata kapítalismi hefur grafið um sig samfara hugarfarkrísu kynslóðar þar sem alls kyns hópar telja sig eiga rétt á ríkisframfærslu af ýmsum toga, svo og heilsufarskrísa sem framkölluð hefur verið af heilsuspillandi löggjafarvaldi sem villt hefur um fyrir almenningi um hvað sé matur. Allt afurð lobbíista sem múta þingmönnum með feitum sjóðum matvælarisa sem fitnað hafa í veldisfalli við offitufaraldurinn í BNA og á Vesturlöndum. Lyfjaiðnaðurinn er svo skrímsli sem er nú algerlega stjórnlaust.

    Tiltrú á Bandaríkjadalinn hangir nú á bláþræði og erfitt að sjá hvort sú spilaborg eigi mánuði, ár, eða áratug eftir áður en Bandaríkin geta ekki lengur fjármagnað herstöðvar um allan heim og neyðast til að draga her sinn heim í höfn. Það verður dagurinn sem loftslagsváin mun deyja drottni sínum.

Skildu eftir skilaboð