Þegar Rússar og Bandaríkjamenn voru bestu bræður og systur

frettinArnar Sverrisson, PistlarLeave a Comment

Eftir Arnar Sverrisson:

Einu sinni voru Rússar og Bandaríkjamenn bestu bræður – alla vega Norðurríkin með Abraham Lincoln við stýrið, enda þótt baráttan gegn alheimsfjármagnsveldinu væri hatrömm. Þegar mest á reið í borgarastyrjöldinni kom Alexander, keisari Rússa, honum til bjargar.

Abraham og lýðræðislega sinnaðir Bandaríkjamenn áttu þakkarskuld að gjalda. Aftur á móti jókst Rússahatur þeirra, sem leggja vildu bandaríska lýðveldið að fótum sér, m.a. með stofnun einkarekins Seðlabanka. Því andæfði Abraham.

Það voru sem sé kærleikar miklir milli lýðveldissinnaðra Bandaríkjamanna og rússneskra yfirvalda. Bandaríkjamenn „keyptu“ af Rússum nýlendur þeirra í Norður-Ameríku. Það var tómahljóð í kassa keisarans. Eftir blóðuga byltingu 1905 og framhaldsbyltinguna 1917, sem fjármögnuð var af alþjóðlegu/bandarísku auðvaldi – fjandmönnum Abrahams – blómstraði vináttan. En aðrir höfðu tekið við stjórninni.

Þegar Jósef Stalín sagði upp fjármögnunarsamningum við bandarísku auðdrottnana, hljóp ofurlítil snuðra á þráðinn. En Jósef stóð við allar skuldbindingar. Þegar berja þurfti á Þjóðverjum eina ferðina enn, þ.e. í annarri heimstyrjöldinni, endurnýjuðust ástir Bandaríkjamanna og Rússa.

Hrifningin var svo hjartnæm, að bandarísk yfirvöld létu gera fróðlega og skemmtilega áróðursmynd í miðju heimsstríði um baráttueðli bandamanna sinna, Rússa, og grimmdareðli Þjóðverja. Í henni er réttilega greint frá innrás þýskra riddara í norræna/slavíska Hólmgarðsríkið, um það leyti, sem borgarastyrjöld var í undirbúningi á Íslandi, innrás Svía, Frakka og Þjóðverja í fyrstu heimstyrjöldinni.

Það er þó ekki tekið fram, að Þjóðverjar með stórmennið, Otto von Bismarck, í fararbroddi, hafi ítrekað reynt að komast hjá síðastnefnda stríðinu. Undirbúningur þess var reyndar á valdi sömu afla og áður höfðu gert atlögu að bandaríska lýðveldinu og rússneska keisaraveldinu.

Í myndinni er prýðilega gerð grein fyrir driffjöðrum stríðsins gegn Rússum; sókn í auðævi þeirra og auðlindir. Það er sagan endalausa, sbr. litaskrúðsbyltingarnar í lok níunda áratugs síðustu aldar og stríðið í Úkraínu nú.

Hrifning Bandaríkjamanna kemur m.a. fram í umsögnum eftirtalinna:

„Í veraldarsögunni er hvergi greint frá meira hugrekki, en rússneska (people of Soviet Russia) þjóðin sýndi …“ Henry L. Stimson, stríðsráðherra Bandaríkjanna.

„Hugprýði og baráttuvilji rússnesku hermannanna vekur aðdáun bandaríska hersins.“ (George C. Marshall, yfirmaður herafla (Chief of Staff) Bandaríkjanna)

„… umfang og mikilfengleiki (rússneska) átaksins er stærsti hernaðarsigur í gervallri mannkynssögunni.“ (Douglas MacArthur, yfirhershöfðingi).

Mæli með myndinni, þar sem Leo Tolstoy var enn lofsunginn af Vestrinu, en fordæmdur nú.

Skildu eftir skilaboð