Lygar eru hergögn í stríði

frettinÁróður, Úkraínustríðið1 Comment

Eftir Ögmund Jónasson:

Ekki alls fyrir löngu skrifaði ég blaðapistil um bók Stefans Zweig, Veröld sem var. Bókin er skrifuð í skugga heimstyrjalda og lýsir því hvað stríð og stríðsáróður gerir einstaklingum og samfélagi. Skýrði ég þar út hvers vegna mér þykir þessi bók þörf lesning þessa dagana:

Orð Stefans Zweig í Veröld sem var gerast sífellt ágengari í mínum huga og tengi ég það “umræðu” um stríðsátökin í Úkraínu og þá kannski líka skorti á umræðu um stríðshörmungar annars staðar.

Fyrir fáeinum dögum fletti ég þessari bók eina ferðina enn og valdi tvo litla kafla sem ég hvet lesendur til að hugleiða:

“… Ekki vil ég neita því, að þeir voru í góðri trú og gerðu eins og samvizkan bauð, bæði skáldin, prófessorarnir og allir þessir nýbökuðu föðurlandsvinir. En ekki leið á löngu áður en í ljós kom, hvílíku stórtjóni þeir ollu með því að lofsyngja stríðið og ala á hatrinu. Árið 1914 voru allar styrjaldaþjóðirnar þegar komnar í sefasjúkt uppnám, svo að illkynjaðasti orðasveimur var undireins borinn á borð sem heilagur sannleikur, og menn lögðu trúnað á fáránlegasta rógburð. Tugir manna í Þýzkalandi sóru og sárt við lögðu, að rétt fyrir stríðsbyrjun hefðu þeir með eigin augum séð bíla hlaðna gulli á leið frá Frakklandi til Rússlands.

Blöðin voru sneisafull af hinum venjulegu kynjasögum um útstungin augu og afhöggnar hendur, sem alltaf koma fram strax á þriðja eða fjórða degi hverrar styrjaldar. En blessaðir sakleysingjarnir, sem tóku þátt í að útbreiða þessar lygar, vissu bara ekki, að tröllasögurnar um grimmdarverk óvinahermannanna heyra herbúnaðinum til á sama hátt og flugvélar og skotfæri, og eru teknar fram úr hergagnabúrunum strax fyrstu stríðsdagana. Styrjöld er ósamrýmanleg heilbrigðri dómgreind og andlegu jafnvægi. Hún útheimtir uppskrúfað tilfinningalíf, brennandi áhuga fyrir eigin málstað og hatur í garð andstæðinganna.

Nú liggur það í mannlegu eðli, að sterkum tilfinningum verður ekki haldið við lýði von úr viti, hvorki hjá einstaklingi né hjá þjóð, og það vita hernaðaryfirvöld ofur vel. Þess vegna verður að kynda markvisst undir þeim, æra þær upp með sífelldum “inngjöfum”. Þetta verk áttu menntamenn, skáld, rithöfundar og blaðamenn að vinna – hvort sem þeim var það ljúft eða leitt. Þeir áttu að berja bumbur heiftrækninnar , enda gerðu þeir það svo dyggilega að hlutlaus áheyrandi fékk hellur fyrir eyrun og ónot fyir hjartað. Í Þýzkalandi, Frakklandi, Ítalíu og Rússlandi gengu nær allir menntamennirnir stríðsáróðrinum auðsveipir á hönd og ólu þar með á hópsefjun og múghatri stríðsins í stað þess að berjast gegn því.

Afleiðingarnar voru hinar hörmulegustu. Í þann tíð var enn ekki búið að útjaska áróðrinum á friðartímum, svo að þjóðirnar héldu þrátt fyrir þúsundföld vonbrigði, að allt væri satt, sem stóð á prenti. Hinn hreini og fölskvalausi eldmóður fyrstu dagana snerist því smám saman upp í tilfinningaofsa af versta og heimskulegasta tagi. Á Ringstrasse í Vín og Friedrichstrasse í Berlín var nú hafi “barátta” gegn óvinunum , sem var heldur löðurmannleg. Nafnskilti búða á frönsku og ensku voru rifin niður, og klaustrið “Zu den Englichen Fräulein “ varð jafnvel að breyta um nafn, af því að hið gamla varð illa þokkað af almenningi , sem hafði ekki hugmynd um að “englische” átti þar við engla á himni, en ekki Engilsaxa.

Heiðvirðir kaupmenn límdu eða stimpluðu á bréf sín orðin: “Guð hegni Bretum”, og stássmeyjar strengdu þess heit (í pistlum sem þær sendu blöðunum) að taka sér aldrei framar í munn aukatekið orð á frönsku. Shakespeare var útlægur ger úr þýzkum leikhúsum, og Mozart og Wagner úr frönskum og enskum hljómleikasölum, þýzkir prófessorar lýstu yfir því, að Dante hefði verið Germani, en franskir, að Beethoven hefði verið Belgíumaður. Menn slógu samvizkulaust eign sinni á andleg verðmæti óvinalandanna, rétt eins og þau væru kornmatur eða málmgrýti.

Það var ekki nóg með, að friðsamir borgarar þessara landa dræpu hver annan daglega í þúsundatali, heldur stunduðu báðir aðilar þá iðju heima fyrir, að ófrægja og ata auri löngu liðin stórmenni óvinalandsins, sem legið höfðu þögul í gröf sinni öldum saman. Þessi andlega óáran ágerðist alltaf. Eldabuskan, sem aldrei hafði komið út fyrir bæinn og ekki litið á landabréf síðan í barnaskóla, hélt að Austurríki gæti ekki komizt af án þess að eiga “Sandschak” (lítinn landamæraskika einhvers staðar í Bosníu). Ökumenn stældu um það á förnum vegi, hve miklar stríðssakaðabætur ætti að gera Frökkum að greiða, hvort það ætti heldur að vera fimmtíu eða hundrað milljarðar, en vissu þó ekki sjálfir, hvað milljarður var. Ekki bar til sá staður eða hópur manna, sem ekki varð þessari skelfilegu sefasýki hatursins að bráð. Klerkar prédikuðu af stólnum, jafnaðarmenn, sem höfðu nokkrum vikum áður brennimerkt hernaðarstefnuna, sem hinn versta glæp, geipuðu ef til vill hærra en nokkrir aðrir, svo þeir yrðu ekki taldir til þeirra, sem Vilhjálmur keisari kallaði “ættjarðarlausa kóna”. Þetta var stríð auðtrúa kynslóðar; og tröllatrú hverrar þjóðar á það, að réttlætið væri allt hennar megin, fól í sér alvarlegustu hættuna.”;
(Stefan Zweig, Veröld sem var, Uglan, Reykjavík 1966, bls. 213-215).

“… En var manni heimilt að áfellast þetta fólk? Var í rauninni nokkuð eðlilegra en að það reyndi að njóta lífsins, meðan kostur var? Hlaut ekki vitundin um, að allt væri á hverfanda hveli að leiða til þess að menn reyndu að höndla það sem höndlað varð, falleg föt eða nokkrar glaðar stundir. Sá sem séð hafði, hvílíkt blaktandi skar maðurinn er, hvernig líf hans með þekkingu, endurminningum og ástríðum getur slokknað út af fyrir lítilli blýkúlu á broti úr sekúndu, átti einmitt auðvelt með að skilja, hvers vegna fólkið flykktist á skemmtigöngu ofan að skínandi fljótinu slíkan morgun til að horfa á sólina, njóta sjálfsvitundarinnar, finna blóðið renna í æðunum, skynja líf sitt ef til vill af nýjum þrótti. Brátt var ég ásáttur með það sem hafði hneykslað mig í fyrstu. En þjónninn, sem vildi allt fyrir mig gera, færði mér þá eitt Vínarblaðanna, illu heilli. Ég reyndi að lesa það, og þá fyrst brauzt viðbjóður minn út í bálandi reiði. Þarna stóð svart á hvítu allt orðagjálfrið um hinn óbugandi sigurvilja, hið litla mannfall í liði okkar , en afhroð andstæðinganna. Þarna blöstu stríðslygarnar við mér í allri sinni nekt, forhertar og himinhrópandi! Nei, það var fjarri mér að áfellast andvaralaust og léttlynt fólk á skemmtigöngu, sökin var hjá þeim, sem blésu að glæðum stríðsins í ræðu og riti. En samsekir vorum við hinir, ef við snerum ekki stílvopnum okkar gegn þeim.”
(Stefan Zweig, ibid, bls. 229).

Um tengt efni:

https://www.ogmundur.is/is/greinar/hoprefsing

https://www.ogmundur.is/is/greinar/hver-vill-svara-fyrst

Greinin birtist fyrst á Ömgundur.is 8. apríl 2023

One Comment on “Lygar eru hergögn í stríði”

  1. Hugarástandi lýðsins undanfarin misseri verður ekki betur lýst.

Skildu eftir skilaboð